05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því sem hv. 3. landsk. þm. sagði um þá brtt. að fella niður 4. mgr. 77. gr., þ. e. þar sem kveðið er á að það greiðist úr ríkissjóði sem kann að vanta á að tekjustofnar nægi til að mæta útgjöldum Vinnueftirlits ríkisins.

Ég vildi láta það koma hér fram, að ég hef sérstaklega kynnt mér þetta mál. Mér er tjáð að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að þetta væri einungis til vara og nánast tekið til fyrirmyndar hliðstætt ákvæði sem er í lögum um Brunamálastofnun ríkisins og hefur víst ekki verið notað. Þannig sé öryggi stofnunarinnar tryggt með því að það sé greitt iðgjald af sama stofni og slysatryggingaiðgjaldið er greitt af. Hlutfall þessa iðgjalds á ekki að ákveða í eitt skipti fyrir öll, heldur á hverju ári. Þannig er trygging fyrir því að á hverju ári sé gert ráð fyrir að þessi tekjustofn nægi. Hlutfallið hlýtur á hverju ári að vera við það miðað. Ef það kynni eitthvað að bera út af, þannig að það væru umframgreiðslur eitt árið, er hægur vandi að gera við því næsta ár þegar þetta hlutfall er ákveðið og hafa það þá ívið hærra til að mæta því sem skort hefur á á fyrra ári.