05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hér er um að ræða ákaflega mikilvægt þjóðmál, þar sem er aðbúnaður og öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Núgildandi lög um það efni eru frá 1952. Þau lög mörkuðu spor í sambandi við þróun þessara mála. Ég var kunnugur því frv. og þeim lögum, þar sem ég stóð að flutningi frv. og fjallaði um það í þinginu. Frá því eru nú liðin nærri 30 ár og eðlilegt að þörf hafi orðið á margvíslegum breytingum og umbótum í þessu efni.

Í kjarasamningum 1977 var eindregið farið fram á það af hálfu Alþýðusambands Íslands að nú yrði gerð gangskör að endurskoðun hinna gömlu laga og sett ný lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Það frv., sem hér liggur fyrir, er árangur af starfi nefndar — sem ég skipaði sem félmrh. 14. sept. 1977. Í samræmi við samkomulagið í kjarasamningunum 1977 voru tilnefndir þrír menn af hálfu alþýðusamtakanna, tveir menn af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands og einn af hálfu Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Auk þeirra voru svo skipaðir af félmrh. í nefndina Friðgeir Grímsson öryggismálastjóri og forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins, Hrafn Friðriksson, en formaður nefndarinnar var skipaður ráðuneytisstjórinn í félmrn., Hallgrímur Dalberg. Nefndin réð sér starfsmann, Örn Bjarnason skólayfirlækni. Ég tel ástæðu til að þakka nefndinni og starfsmönnum hennar fyrir mjög vel unnið starf í þessu efni og þá alveg sérstaklega formanni nefndarinnar, Hallgrími Dalberg, sem stýrði þessu verki.

Ég held að það sé mikilvægt og raunar beinlínis þjóðarnauðsyn að fá þessi nýju lög samþ., því að það er ljóst að víða er ýmsu ábótavant um öryggi á vinnustöðum, hollustuhætti og aðbúnað.

Í nál. hv. félmn. kemur fram að nokkrir nm. skrifa undir með fyrirvara. Ég skil það svo, að þar sem þessir þrír hv. þm. flytja brtt. á þskj. 413, þá komi þar fram fyrirvari þeirra og að samþykktum þeim till. muni þeir fylgja frv. Mér líst svo til að brtt. á þskj. 404 frá félmn. í heild og á þskj. 413 frá Þorv. Garðari Kristjánssyni, Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur, séu flestar til bóta eða þannig a. m. k. að það megi vel við una. Ég vil því mæla með því, að frv. verði samþ. ásamt brtt. á þessum tveim þskj., og vænti þess, að þannig verði full samstaða um þetta merka mál í þessari hv. deild.