05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Það má segja að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hafi gert mjög ítarlega grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna til þessa merka lagafrv., sem ég efast ekkert um að á eftir að hafa mjög mikil áhrif á vinnumarkaðinum og í atvinnuvegum landsmanna. Ég vildi þó gera grein fyrir því, að sá fyrirvari, sem við eða a. m. k. ég setti, var vegna þess að ég taldi að frv. hefði í sjálfu sér ekki fengið eins mikla umfjöllun og við hefðum gjarnan viljað að yrði. Við hefðum viljað hafa lengri tíma til að fjalla um þetta frv., því ég tel að málið sé svo mikils virði fyrir atvinnulífið í landinu að þarna megi ekki mistök verða, og því m. a. flytjum við þá till. að þessi lög yrðu endurskoðuð í síðasta lagi eftir fimm ár.

Það gerir ekkert til þó það komi fram, að við höfum ýmsar efasemdir um sum ákvæði þessa frv. Við vitum hvernig bændasamtökin hafa tekið þessu. Það eru ýmis ákvæði t. d. í X. og XI. kafla þessa frv. sem ég efast ekkert um að verða erfið t. d. sjávarútvegi í framkvæmd. Við skulum horfast í augu við það eins og það er. En náttúrlega fær þessi atvinnuvegur nokkurn tíma til að átta sig. Ég efast t. d. ekkert um að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi úti á landi, þar sem fámennt er og lítil fyrirtæki eru, koma til með að eiga erfitt með að skila verkefni sínu á svo stuttum tíma þegar þessi breyting verður, sem þarna er gerð, og ég býst við að það verði svo víðar. Það vill nú oft verða, að við Íslendingar viljum gjarnan vera annað en okkar samfélag býður í sjálfu sér. Okkar samfélag er náttúrlega veiðimannasamfélag miklu fremur en iðnaðarsamfélag og menn verða að taka tillit til þess í flestum tilvikum.

Fyrirvari okkar var fyrst og fremst sá, að við hefðum gjarnan viljað fá lengri tíma til að fjalla um þetta. Við hefðum líka gjarnan viljað sjá nokkra áætlun gerða um hvernig þessi stofnun yrði úr garði gerð, þannig að hægt yrði að gera kostnaðaráætlun um hana og vita hver kostnaður yrði af henni áður en málið yrði fullfrágengið. Því miður gefst ekki tími til þess, svo að við munum standa heits hugar að því að samþykkja frv. sem lög. En við hefðum sem sagt gjarnan viljað hafa lengri tíma til að fjalla um það.