05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

170. mál, viðskiptafræðingar og hagfræðingar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur að mínu mati verið gengið of langt í að veita hinum og þessum stéttum og starfshópum sérréttindi og allt að því einokunaraðstöðu á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Þetta býður upp á misnotkun, t. d. í sambandi við launakröfur hátekjumanna og getur útilokað ágætlega færa menn er hafa stundað það starf sem þeir hafa menntun og eða reynslu til ef viðkomandi stéttarfélagi eða starfshópi býður svo við að horfa.

Í því tilviki, sem hér er á dagskrá, er að vísu aðeins um að ræða rétt til ákveðinna starfsheita. Eigi að síður finnst mér það nokkuð hvimleitt að gert er ráð fyrir að ákveðið stéttarfélag, ef við megum kalla það svo, hafi í reynd algert eindæmi í þessum málum. Ég tel að æskilegra sé að einhver, t. d. ráðh., hafi meiri möguleika til úrskurðar í ágreiningsatriðum en frv. gerir ráð fyrir. T. d. sting ég upp á að í stað orðanna „Að fengnum meðmælum Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga“ í 2. mgr. 2. gr. komi: að fenginni umsögn o. s. frv.

Þessum orðum mínum er alls ekki beint sérstaklega gegn því félagi sem hér á í hlut, síður en svo. Þau er almennt viðhorf mitt til veitingar sérréttinda og allt að því einokunaraðstöðu einstakra starfshópa.