05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

175. mál, skipan opinberra framkvæmda

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við tveir þm. Sjálfstfl., ég og hv. 10. þm. Reykv. Friðrik Sophusson, höfum flutt á þskj. 397 frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda. Þau lög voru nokkur nýmæli þegar þau voru sett árið 1970, en þá var m. a. í 13. gr. þeirra laga sett í lög ákvæði um að verk skyldu að jafnaði unnin samkv. tilboði á grundvelli útboðs. Þó væri heimilt að víkja frá útboði ef verk væri þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti að útboð teldust ekki mundu gefa góða raun, en þá þarf undir slíkum kringumstæðum umsögn samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir.

Þetta ákvæði er mjög skýrt að því leyti, að meginreglan átti að vera sú að útboð færi fram og verk unnin samkv. tilboðum aðundangengnum útboðum. Þetta má einnig sjá með því að skoða grg. með þessu frv., þar sem fram kemur að frv. gerir ráð fyrir að flest verk á vegum ríkisins verði unnin á útboðsgrundvelli. Í reynd hefur framkvæmd orðið nokkuð á annan veg.

Hér á Alþ., í Sþ. ekki alls fyrir löngu, flutti ég fsp., sem hæstv. samgrh. svaraði 22. apríl, um útboð verklegra framkvæmda hjá nokkrum ríkisstofnunum. Þar kom fram að því fer fjarri að þessari meginreglu laganna, sem ég gat um áðan, hafi verið fylgt og það mun frekar vera regla heldur en hitt hjá ýmsum ríkisstofnunum að þær framkvæmi sjálfar sín verk, en láti útboð ekki fram fara. Þannig kom það t. d. fram, að hjá Vegagerð ríkisins var árið 1978 aðeins um 11% af framkvæmdum miðað við kostnað þeirra boðið út og árið 1979 aðeins um 12% af framkvæmdum Vegagerðar ríkisins. Hjá Hafnamálastofnuninni var þetta hlutfall árið 1978 14.7%, en árið 1979 14.6%. Hjá Flugmálastjórn unnu verktakar 13% af verkefni við flugvallagerð árið 1978 og 24% árið 1979.

Það kom fram hjá hæstv. samgrh. þegar hann svaraði fsp. minni, að ástæðan fyrir því, að útboð færu ekki fram í ríkari mæli, væri sú, að 3. mgr. 21. gr. laganna væri túlkuð á þann veg að útboð þyrfti ekki að fara fram, en í henni segir að heimilt sé að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar skilgreindra flokka opinberra framkvæmda, enda hafi þessar stofnanir aðstöðu til að annast þetta verkefni. Nú vel ég segja að þetta er mjög frjálsleg túlkun á þessari lagagr., því að hún felur það aðeins í sér eftir orðanna hljóðan að heimilt sé að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar tilgreindra framkvæmda, en hvergi í þessari grein er þess getið að hún feli í sér undanþágu frá þeirri meginreglu laganna að útboð eigi að jafnaði að fara fram.

Til þess að taka af öll tvímæli um, að þessa grein beri ekki að túlka á þann veg sem gert hefur verið, flytjum við þetta frv., sem gerir ráð fyrir að inn í 3. mgr. 21. gr. komi ákvæði þess efnis, að þó að einstökum ríkisstofnunum sé falin umsjón ákveðinna framkvæmda skuli verk að jafnaði unnið samkv. tilboði á grundvelli útboðs, sbr. 13. gr. laganna. Með því að vísa til 13. gr. laganna er við það átt að undanþáguákvæði greinarinnar geti átt við í þeim tilvikum einnig þegar einstökum ríkisstofnunum er falin umsjón sinna verkefna. Við gerum jafnframt ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða, að ráðh. geti veitt ríkisstofnunum ákveðinn umþóttunartíma til að laga sig að framkvæmd þessara laga. Þá er aðallega átt við ríkisstofnanir sem framkvæma nú aðallega verk sín sjálfar, þær fái tíma til að losa sig við tæki og útbúnað svo og til að útvega þeim starfsmönnum ný störf sem skipta þyrftu um störf af þessum ástæðum.

Í þeim umr., sem urðu um þá fsp. sem ég flutti og ég gat um áðan, rakti ég ýmis dæmi þess, hvernig útboð hefðu skilað sér í lægri kostnaði hjá tveimur stofnunum aðallega sem ég þekki til, þ. e. hjá Reykjavíkurborg og Landsvirkjun, og þá t. d. vegaframkvæmdir. Ég get fallist á að undir vissum kringumstæðum sé erfitt að koma við úfboðum, eins og t. d. þegar framkvæmdaáætlanir eru mjög seint á ferðinni, eins og stundum vill brenna við hér á hinu háa Alþingi, og einnig geta aðstæður verið slíkar að rétt sé að verk sé unnið af viðkomandi stofnunum. Hins vegar er ég eindregið þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að vera meginreglan eins og nú er í framkvæmd. Þess vegna, eins og ég gat um áðan, flytjum við þetta frv. til að reyna að tryggja að sú meginstefna, sem Alþ. markaði með lögunum frá 1970, komist í framkvæmd í raun.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.