06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

145. mál, veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Benedikt Gröndal, fyrrv. utanrrh., hefur hvað eftir annað lýst því, að við ættum miklu stærri hagsmuna að gæta gagnvart útfærslu og innan fiskveiðilögsögu Grænlands heldur en í kringum Jan Mayen, og ég er honum alveg sammála. Hann má ekki ætta okkur það, að við séum ekki farnir að undirbúa það mál, enda gerði hann það sjálfur. Hann óskaði eftir skýrslu frá m. a. fiskimálastjóra, sem ég hef fengið í hendurnar, og þeirri vinnu hefur verið fram haldið, þannig að undirbúningur er allur í gangi. Formlegar viðræður eru ekki hafnar og vitanlega verða ekki formlegar viðræður teknar upp fyrr en um málið hefur verið fjallað í utanrmn. Ég vil að það komi skýrt fram, ef orð mín hafa verið misskilin.

Við höfum jafnframt leitað eftir upplýsingum frá embættismönnum í Danmörku til að vera undir viðræður búnir. Frést hefur að þeir muni ætla sér að færa út 1. júní.

Um hagsmuni okkar almennt í þessu sambandi skal ég hins vegar ekki fara mörgum orðum. Ég held að mönnum sé ljóst að þeir eru miklir. Þarna geta verið töluvert meiri loðnuveiðar heldur en á Jan Mayen svæðinu. Rækjan á Dornbanka, sem okkar menn fundu, er mikil auðlind sem gengur á milli eða yfir miðlínu. Karfi er veiddur að sjálfsögðu beggja vegna og er þar um mikla hagsmuni að ræða. Mér er ljóst að Efnahagsbandalagið hefur lýst því yfir, að það sé ekki til viðræðu um veiðar nema á þeim grundvelli, að það fái heimildir til veiða jafnframt innan íslenskrar lögsögu. Þetta vitum við allir. Ég vil jafnframt segja það, að ég hef engar hugmyndir um hvaða veiðar við getum boðið því. Ég hygg að það væri æðilítið. En Belgar veiða hér nokkurt magn og kannske gæti það talist til skipta við Efnahagsbandalagið. Ég nefni það hér, án þess að geta út af fyrir sig rökstutt það, að það verði tekið sem veiðikvóti á vegum Efnahagsbandalagsins. En ég undirstrika að ég er hv. þm. sammála um það, að þarna er um ákaflega stór mál að ræða og undirbúningur er hafinn að þeim málum.