06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

145. mál, veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram í tilefni af þeim umr. sem hér hafa orðið, að ég er eindregið fylgjandi þeirri skoðun sem kom fram í samþykkt þingflokks Alþfl. sem mun hafa verið gerð í gær og formaður þingflokks hans kynnti mér síðdegis í gær. Í þessari samþykkt er því lýst yfir, að nauðsynlegt sé að Íslendingar taki upp formlegar viðræður við Dani vegna þeirrar útfærslu sem þeir hafa boðað á efnahagslögsögu Grænlands áður en sú útfærsla á sér stað. Hagsmunir Íslendinga á þessu sviði eru mikilvægir. Ætlun Efnahagsbandalags Evrópu, sem Danir fara að gegna hlutverki fyrir í þessu máli, er að skapa sér aðstöðu til þess að nýta miðin við austurströnd Grænlands. Hún gerir verulegt strik í reikning okkar í þessu máli og við höfum margvíslegar ástæður til þess að setja fram gagnrýni á það sjónarmið, út frá þeirri forsendu að þarna er um að ræða mið sem Íslendingar hafa fyrst og fremst sótt einir á. Út frá sanngirnissjónarmiðum og sögulegri hefð okkar á þessum miðum hljótum við að mótmæla því, að Danir fyrir hönd Efnahagsbandalags Evrópu ætli sér að fara að ráðskast með fiskveiðistefnu á þessu svæði. Ég held að það sé afar nauðsynlegt, eins og kemur fram í þessari samþykkt þingflokks Alþfl., að Íslendingar taki upp viðræður við Dani áður en útfærslan á sér stað.

Ég vildi láta þetta koma fram og jafnframt fagna því, að Alþfl. skuli hafa haft visst frumkvæði að þessari samþykkt. Það hefur verið mikið unnið að þessu máli, en þetta mun vera í fyrsta skipti sem formlega er látin í ljós sú skoðun, að þessar viðræður eigi að fara fram áður en Danir færa út efnahagslögsöguna við Grænland.