06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

145. mál, veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. þær skýringar sem hann gaf. Auðvitað veit ég vel að undirbúningur undir þessi mál er fyrir löngu hafinn og hann er í fullum gangi, en mér þykir gott að það var ekki rétt skilið af orðum hans, að viðræður væru byrjaðar.

Það er rétt, sem hér kom fram, að Alþfl. samþykkti í gær að beina því til ríkisstj. að hefja viðræður við Dani um fiskveiðimörkin milli Íslands og Grænlands. Ég bið menn að gera sér það ljóst, að sjálf útfærslan við Grænland er danskt mál. En á því augnabliki sem hún tekur gildi fær Efnahagsbandalagið öll yfirráð yfir fiskinum fyrir innan þá línu. Við þurfum að tala við Dani, af því að sérfræðingar okkar og þeirra verða að mæla þessa línu sameiginlega og af því að Danir neita að viðurkenna Kolbeinsey sem grunnlínupunkt. Ef þeir færa þannig út skapast 9000 ferkm. svæði, sem verður umdeilt á milli Íslands og Danmerkur, og þá deilu verður einhvern veginn að leysa. Það er því eðlilegt að byrja á því að tala við Dani, en það getur aðeins orðið um sjálfa útfærsluna, sjálfa línuna. Þegar kemur að umr. um fiskinn eða önnur auðæfi sem eru innan við línuna Grænlandsmegin, þá verður því vísað til Brüssel. Þetta liggur þegar fyrir og er nauðsynlegt að menn geri sér það fyllilega ljóst sem og hversu mikilvægt allt þetta mál er þegar lítið er á það í heild.

Ég mun ekki gera verulegan mun á því, hvort við veitum veiðiheimildir eða veitum einhverja aðstöðu í landi. Það má allt athuga ef að því kemur eða þegar að því kemur. Ég vildi aðeins benda á þetta mál og biðja menn að gera sér ljósan muninn á hlutverkum Danmerkur. annars vegar og Efnahagsbandalagsins hins vegar, en við verðum vafalaust að skipta meira eða minna við báða aðila um langa framtíð um þessi mál.