06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Benedikt Gröndal:

. Herra forseti. Ég þakka þessa skýrslu eins og síðasti ræðumaður, þó að ég geti ekki gert það á sama hátt og hann gerði. Ég kveð mér hljóðs til að koma að einni skýringu. Það var áberandi í upplestrinum, að forsrn. er langsamlega hæst allra rn. í þessu flöskutali. Skýringin á því er sú, að ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu heyrir undir forsrn. Þegar haldið er samkvæmi í þeim bústað fær viðkomandi rn. án endurgjalds húsið og það áfengi sem til þarf, en borgar sjálft aðeins matföng sem eru ávallt aðkeypt. Þess vegna eru þessar tölur ekki að öllu leyti réttar, vegna þess að tölurnar fyrir forsrn. eru fyrst og fremst fyrir ráðherrabústaðinn, sem er til afnota öllum rn., þótt hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson hafi sett á það réttlætanlegar takmarkanir á sínum tíma. Þeim tölum verður því að dreifa á rn. ef menn vilja fá sanna mynd af því sem spurt er um.

Ég vil svo að lokum, af því að þetta er gamalt og heitt deilumál í íslenskum stjórnmálum, benda mönnum á þann milliveg sem nú hefur verið ákveðið að fara í Svíþjóð, sem sagt að veita aðeins áfengi af litlum styrkleika eða svokölluð létt vin í opinberum samkvæmum. Mundi það tvímælalaust verða gagnlegt skref í þessu máli.