06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. þessa skýrslu sem þó er hvergi nærri tæmandi. Mér þótti það nú heldur klént, ef ég má nota það orð, að hæstv. fjmrh. skyldi að nokkru leyti hafa þetta að gamanmáli. Ég benti á það í upphafsorðum mínum hér, að árið 1977 keyptu rn. samtals tæplega 13 þús. flöskur af áfengi, 35 flöskur á dag. Og ef einhver ætlar að telja mér trú um að það sé notkun ráðuneyta í sambandi við veisluhöld og annað sem á þeirra vegum er, þá frábið ég mér að taka slíkt trúanlegt.

Ég vil líka minna á það, að inni í þessum tölum eru áfengiskaup starfsmanna stjórnarráðs, sem njóta þeirra forréttinda fram yfir aðra menn í þessu landi að fá á hverju ári keypt áfengi á sama verði og rn. Þennan sið á að afleggja með öllu. Þetta er ósvinna. Ég vil benda á það, að þeir menn, sem um þessi mál fjalla, ættu að leggja saman þær tölur sem hæstv. fjmrh. las hér upp, leggja saman tölur frá hverju rn. og deila í með 365 dögum ársins og athuga hver útkoman verður. Þyki mönnum þessi áfengiskaup ráðuneyta eðlileg, þá þeir um það. En ég er ansi hræddur um að skattgreiðendur þessa lands séu ekki á sama máli.

En ég vona að bókhald Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verði fært til nokkurrar leiðréttingar. Ef Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins getur ekki gripið upp á skömmum tíma sérstök kaup rn. á ódýru áfengi, þá held ég að bókhaldið sé ekki með öllu gott. Síðan skortir mjög á í svari fjmrh., að hann gefi það hreinlega upp hér, á hvaða verði rn. kaupa veik og sterk vín, hvert verðið er, eins og spurt er um í fsp.