06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. í sambandi við þessa fróðlegu skýrslu og þær ágætu umr. sem hér hafa farið fram, sem eiga vissulega rétt á sér.

Ég vil bara vekja athygli hv. alþm. á einum þætti í þessari skýrslu sem mér virðist þörf á að gera sérstaklega. Það er í sambandi við menntmrn. 1977 og 1978. Það vill svo til, eins og e. t. v. flesta rekur minni til, að mikið var gagnrýnt á sínum tíma það frumkvæði sem fyrrv. menntmrh. á þessum árum tók sér fyrir hendur í sinni ráðherratíð, að útiloka áfengi í veislum á vegum þess rn. sem hann veitti forstöðu. Þetta var mjög gagnrýnt, ekki síst af hv. alþm. En ég held að það sé full þörf á því að vekja athygli þjóðarinnar á því einmitt nú við þetta tækifæri, hvaða árangur hefur orðið af þessu. Hann er sýnilegur hér í opinberri skýrslu, og mér finnst ástæða til að undirstrika þetta atriði. Þetta ætti að geta verið til eftirbreytni fleiri ráðuneytum.