06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ummælum sem féllu hér áðan um það, að opinberir starfsmenn og þá einkum starfsmenn stjórnarráðsins hefðu leyfi til þess að kaupa áfengi á afsláttarverði. Það er rétt, að um tíma — og sá siður hefur ríkt mjög lengi — gátu starfsmenn stjórnarráðsins einu sinni á ári, í desembermánuði, fest kaup á, að ég held, tveimur áfengisflöskum á lækkuðu verði. Þetta er siðvenja sem hefur ríkt í stjórnarráðinu mjög lengi. Hins vegar var þetta afnumið í tíð hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómasar Árnasonar, og hefur ekki verið tíðkað nú um eins eða tveggja ára skeið, að ég held, þannig að þessi gamla siðvenja er ekki til lengur. Einu hlunnindin, sem mér er kunnugt un að opinberir starfsmenn njóti, eru þau, að það tíðkast yfirleitt hjá flestum stærri fyrirtækjum að halda starfsmönnum sínum eina árshátíð á ári. Gjarnan leggja fyrirtækin fram talsverðan skerf í formi fjárupphæðar til þess að greiða niður aðgangseyri starfsmanna að slíkum árshátíðum, þannig að aðgöngumiðar að árshátíðum eru seldir á lægra verði en nemur kostnaðarverði. Gagnvart starfsmönnum stjórnarráðsins hefur sú siðvenja gilt, að þeir halda árshátíð í upphafi árs, eins og lög gera ráð fyrir og fjölmargir aðrir starfsmenn stórra stofnana gera. Þeir greiða í verði aðgöngumiðans að þessari árshátíð fullt kostnaðarverð, en sú siðvenja hefur viðgengist um alllangan tíma, að fjmrn. hefur veitt þessu starfsfólki stjórnarráðsins nokkra greiðasemi, sem er í því fólgin að gefa því, að ég held, tvö glös af víni fyrir mat og borðvín með mat. Þetta eru einu hlunnindin sem þessir opinberu starfsmenn njóta og þætti sennilega lítið hjá starfsmönnum ýmissa stórfyrirtækja í Reykjavík. (Gripið fram í.) Matinn borga þeir sjálfir og allan kostnað við hátíðina að öðru leyti en þessu. Þetta er sennilega skýringin á því, að hjá rn. vill gjarnan verða nokkru meira umleikis í upphafi árs í sambandi við svona veitingastarfsemi heldur en þegar líður á árið, svo að ég tali nú ekki um ef stjórnarskipti eru tíð og menn þurfa að kveðja og fagna nýjum samstarfsmönnum.