06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mig langar fyrst til að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. varðandi þessa skýrslu. Mér þykir gæta nokkurs ósamræmis. Það er gefið upp t. d. um forsrn. árið 1977 að þar sé um að ræða tæplega 4500 vínflöskur, og síðan er neðar á þessari skýrslu, sem hér hefur verið dreift skriflega, gefin upp tala, sem á að vera færð til verðlags 1. jan. 1980, sem nemur rúmum 2.5 millj. Síðan eru teknir tveir fyrstu mánuðir ársins 1980. Þar eru gefnar upp rúmar 1000 vínflöskur, en þær kosta tæpar 2 millj. kr. Þarna sýnist mér einhver skekkja vera í, hvernig verðlagið er fært til. (Gripið fram í: Misjafnt verð eftir tegundum.) Það kann að vera það, en þetta þykir mér þó óeðlilega mikill munur.

Í annan stað þykir mér furðulegt hvað „sveitamönnum„ er skemmt yfir þeim hugleiðingum sem hér er verið að flytja. Kjarni málsins held ég að sé sá, sem menn ræða ekki hér, að í fyrsta lagi er um að ræða veislur sem haldnar eru í húsakynnum ráðuneytanna. Ég get t. d. upplýst það, að þá mánuði sem ég sjálfur sat í ráðuneytum, — ég held að ég fari áreiðanlega rétt með það — hafi verið fimm slíkar veislur haldnar. Sú fyrsta var reyndar uppfylling á loforði sem fyrrv. hæstv. menntmrh., Ragnar Arnalds, hafði gefið og sjálfsagt var að standa við og fjórar til viðbótar og get ég gefið um það skýrslur. En að öðru leyti voru þessi fríðindi ekki notuð. Málið er það, að það er hægt að nota þessi fríðindi með þeim hætti að færa þetta inn á heimili og þar er stórfelld misnotkunarhætta. Ég er ekki að segja misnotkun, ég er aðeins að segja: það er misnotkunarhætta, hvað sem „sveitamönnum“ kann um það að finnast. Ég held að það sé það sem við ættum að spyrja glögglega um: Er slík misnotkun liðin? Jafnvel þó að því sé lýst yfir, að árið 1971 hafi því verið hætt að menn notuðu þetta persónulega, sem er út af fyrir sig fróm yfirlýsing, þá segir mér svo hugur um að það sé ekkert nema orðin tóm, í vissum tilfellum a. m. k. Og það held ég að sé kjarni þessa og það skildist mér að hv. fyrirspyrjandi væri m. a. að spyrja um, en við því hafa engin svör fengist.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég tek undir það með fyrirspyrjanda, að tónninn og framsetningarmátinn í svörum hæstv. fjmrh. og svo undirtektir einhverra manna hér í salnum þykir mér vera langt fyrir neðan þá virðingu sem þessar upplýsingar ættu að njóta hér. Þetta held ég að sé kjarni málsins. Það er misnotkunarhætta þarna og við ættum að fá upplýsingar um það, hvort slík misnotkun hefur átt sér stað.