06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri að það sé talið eðlilegra að menn séu á fylliríi á vinnustað sínum heldur en heima hjá sér. Ég kannast ekki við þetta og ég hélt að það mundi kannske vilja fara að ruglast í möppunum fyrir ýmsum ef mikið væri umleikis í brennivíni á vinnustað. Þetta er alveg öfugt við þá reglu sem t. d. ég hef haft.

En menn voru að tala um hversu mjög hann hefði sparað, vinur minn Vilhjálmur Hjálmarsson. Hafa menn athugað kökureikningana hans? Það var slíkt meðlæti á borðum þar af kökum og kruðeríi, að menn gengu þaðan og urðu veikir af í staðinn fyrir að koma hressir og endurnærðir frá venjulegum ráðherrum. Ég vildi þá spyrja um kostnaðinn, sem mér skilst og hefur verið sagt að væri margfaldur á við það sem hóflega drukkið vín hefði kostað í þeim veislum sem hér greinir. Og ég vil benda á það, enda þótt ég hafi ekkert fyrir mér í því, að það sé beint orsakasamband þar í milli, að Vilhjálmur, vinur minn, var settur við fyrsta tækifæri sem gafst úr þessari stöðu. Eftir fyrstu kosningar varð hann ekki aftur ráðh. Aftur á móti er ég kunnugur manni, dr. Gylfa Þ. Gíslasyni, sem er allra manna veitulastur og hann var í þessum ráðherrastóli í 15 ár í röð. Ég vil nú spyrja hv. Alþfl.-menn hvort þeir telji þetta ekki til fyrirmyndar.