06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, lauk máli sínu fyrir kvöldmatarhlé. Hann lauk máli sínu með því að lýsa stjórnleysi því sem honum fannst vera á efnahagsmálum, lausatökum á ríkisfjármálum, skattafári og að ríkisstj. hefði ekki tilburði til þess á neinu sviði efnahagsmála að stemma stigu við þeirri miklu verðbólgu sem er í landinu. Ég var honum alveg sammála þegar hann var að ræða þetta. En ég var honum ekki sammála þegar hann sagði í öðru samhengi, að við völd sæti nú íhaldsstjórn, og var þá að tala um lögfestingu á vissu atriði í frv. sem fylgir þeirri skýrslu, sem hér er til umr., lögfestingu á því að taka ráðstöfunarfé lífeyrissjóða til að lána ríkissjóði, Byggingarsjóði ríkisins og Framkvæmdasjóði. Hv. þm. margendurtók það, eins og honum er stundum lagið, að hér væri um nákvæmlega hið sama að ræða og gert hefði verið í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Þá hefði verið beitt þessum bolabrögðum að taka fjármagn lífeyrissjóða traustataki, eins og hæstv. núv. fjmrh. orðaði það, með löggjöf og því væri ráðstafað á ákveðinn hátt. Hér er mjög ólíku saman að jafna. Ég vil vekja athygli á því, að í lögunum frá 1978 um ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar var gert ráð fyrir að fá heimild til — eða raunar að skylda lífeyrissjóðina til að verðtryggja að hluta sitt ráðstöfunarfé, en hér segir í lagagreininni:

„Þá skal og öðrum stofnlána- og fjárfestingarsjóðum heimilt að gefa út og selja lífeyrissjóðum skuldabréf er fullnægja verðtryggingarákvæðum 1. mgr. að mati Seðlabanka Íslands.“

Hér er sem sagt skýrt tekið fram að lífeyrissjóðunum sé í sjálfsvald sett hvaða verðtryggð skuldabréf þeir kaupa. Þetta er þess vegna allt annað, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, — ég sé að þú ert kominn hér, — heldur en gert er ráð fyrir í því frv. til lánsfjárlaga sem fylgir þeirri skýrslu sem hér er til umr. Í lögunum 1978 var lífeyrissjóðunum ekki gert skylt að ráðstafa fé sínu til ríkissjóðs, til Byggingarsjóðs ríkisins eða til Framkvæmdasjóðs, heldur var þeim gert skylt að kaupa verðtryggð skuldabréf hjá hvaða sjóði sem var. (SighB: Tilteknum sjóði.) Ekki tilteknum sjóði. (SighB: Sem skráður var í Seðlabanka Íslands og viðurkenndur.) Nei, ég var að lesa þetta upp hér: „Þá skal og öðrum stofnlána- og fjárfestingarsjóðum heimilt að gefa út og selja lífeyrissjóðum skuldabréf er fullnægja verðtryggingarákvæðum 1. mgr. að mati Seðlabanka Íslands.“

Þarna er um allt annað að ræða, því lífeyrissjóðunum er ekki svo þröngur stakkur skorinn og í rauninni ekki skorinn neinn stakkur. Þeim er bara gert skylt að verðtryggja fé sitt að 40%, en þeir geta gert það að eigin vild hjá þeim aðilum sem þeir vilja verðtryggja sitt fé hjá. Hér er um gífurlegan grundvallarmun að ræða. Það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er að lögþvinga lífeyrissjóðina til að kaupa verðbréf af ákveðnum sjóðum, af ríkissjóði, af Framkvæmdasjóði, af Byggingarsjóði ríkisins. Hér er því farið út á allt aðra braut en í lögunum 1978, og fyrir þá þm. Alþb. og Alþfl., sem voru á móti þeim lögum, er miklu meiri ástæða til að vera á móti þeirri lögþvingun sem gert er ráð fyrir í frv. sem liggur nú fyrir frá hæstv. ríkisstj.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þessi skýrsla er rædd hér í Sþ. Ég held að það hljóti að vera grundvallaratriði, að fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga fái sömu þinglegu meðferð. Og ég held að það sé í rauninni mjög aðfinnsluvert, sem núna er í þingsköpum, að um fjárlög sé fjallað í Sþ. og í fjvn., en aftur á móti um löggjöf, sem varðar lánsfjáráætlun og fjárfestingaráætlun, sé fjallað í deildum og í fjh.- og viðskn. beggja deilda. Þarna er um að ræða þingmál sem eru svo nátengd, að í raun er ótækt að þau skuli vera sitt á hvorum tímanum á ferðinni, eins og hér hefur oft komið fram. Að vísu eru sérstakar aðstæður nú og það hefur kannske ekki verið auðvelt að koma því svo fyrir að þessi mál gætu gengið fram á sama tíma. En það hefur sýnt sig bæði í fyrra og ekki síst nú hvað hér er um fráleit vinnubrögð að ræða, annars vegar að taka þessi mál sitt í hvoru lagi til meðferðar á Alþ., lánsfjárlög miklu síðar en fjárlög, og hins vegar að fjárlög skuli rædd á allt annan hátt í þinginu en lánsfjárlög.

Það er hins vegar nokkur nýlunda að hæstv. forsrh. skuli mæla fyrir þessari skýrslu. Það hefur venjulega verið hæstv. fjmrh. Kannske á maður von á því, að hæstv. forsrh. mæli fyrir næsta frv. til fjárlaga, það væri svipað að mínu mati. En við skulum láta það liggja milli hluta. Aðalatriðið er, að ég tel að það sé rétt þingleg meðferð að frv. til lánsfjárlaga og skýrsla um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun séu til meðhöndlunar í Sþ. og ætti að vera til meðhöndlunar í sömu n. og frv. til fjárlaga. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að þetta mál eigi að takast fyrir og ræðast í fjvn., þó að sú n. muni að sjálfsögðu ekki skila nál. um það vegna þess hvað þingsköp mæla fyrir um að gert verði. Ég held að það væri mjög til bóta að samræma þinglega meðferð þessara mála.

Ég vil fara við þessa umr. nokkrum orðum um meginatriði þessarar lánsfjáráætlunar. Ég vona að ég verði ekki mjög langorður, þarf þess raunar ekki, því að hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, hafði farið orðum um þessa áætlun fyrr við þessa umr. Engu að síður vil ég nefna hér nokkur atriði.

Þessi skýrsla um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og það frv., sem fylgir henni, eru í rökréttu samhengi og rökréttu framhaldi af þeim eyðslufjárlögum, sem afgreidd voru á Alþingi fyrir páska fyrir forgöngu þeirra sem fylgja núv. hæstv. ríkisstj. að málum hér á hinu háa Alþingi. Þessi skýrsla og þetta frv. fela í sér margvíslegar ráðstafanir sem verða til þess að auka enn á þensluna í landinu og þrengja enn að einkaaðilum og atvinnuvegunum á sviði lánsfjármarkaðarins. Gert er ráð fyrir að fjárfesting í heild verði 327 milljarðar kr. eða 26.5% af þjóðarframleiðslu. Þetta er magnaukning frá fyrra ári um 4.7%, en þá var heildarfjárfesting tæplega 26% af þjóðarframleiðslu. Ég held að allir geti orðið sammála um það, að við slíkar aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum þjóðarinnar sé það í sjálfu sér afskaplega alvarleg stefna að auka á framkvæmdir og þar með þenslu í þjóðfélaginu með slíkum ráðum.

En það er vert að taka eftir því, að það er ekki öll fjárfesting í landinu sem á að auka með þessum ráðstöfunum. Opinber fjárfesting er sú eina sem eykst að einhverju verulegu marki. Í skýrslunni, sem hér er til umr., segir á bls. 26 um þessa stefnu lánsfjáráætlunarinnar: „Um spána fyrir 1980 má í stórum dráttum segja, að í heild er reiknað með lítt breyttri fjárfestingu atvinnuveganna.“ Og síðan segir: „Gert er ráð fyrir nokkurri minnkun íbúðabygginga, en mikilli aukningu opinberra framkvæmda.“ Þannig er stefna þessarar áætlunar, að þar er fyrst og fremst gert ráð fyrir stórauknum opinberum fjárfestingum, en fjárfesting atvinnuveganna stendur í stað. Og á mörgum sviðum atvinnulífsins er gert ráð fyrir verulegum samdrætti. Einnig er gert ráð fyrir samdrætti í íbúðarbyggingum á vegum einkaaðila.

Það er kannske enn þá athyglisverðara við þessa stefnu um auknar opinberar framkvæmdir, að það er miklum mun meira lánsfé ætlað í þessar framkvæmdir en áður fyrr. Nú er gert ráð fyrir að rúml. 23.6 milljörðum kr. af innlendu fé verði varið til þess að fjármagna þessar framkvæmdir. Í fyrra var gert ráð fyrir að þetta fjármagn yrði 11.5 milljarðar kr. Það er því gert ráð fyrir auknum lántökum á lánsfjármarkaði innanlands um hvorki meira né minna en 12 milljarða kr. á sama verðlagi eða rúmlega 100% aukningu á lántökum til opinberra framkvæmda á fjármagnsmarkaði innanlands milli þessara tveggja ára. Og um erlenda fjáröflun er það að segja, að þó að við afgreiðslu fjárlaga hafi verið fallið frá þeim áformum, sem voru enn þá svakalegri, þá er enn gert ráð fyrir því að erlendar lántökur aukist um tæpa 4 milljarða kr. og þá miða ég við sama verðlag bæði árin 1980 og 1979. Heildarlántökur til opinberra framkvæmda, bæði í A- og B-hluta, eru því auknar að raungildi um 16 milljarða kr. Ástæðan fyrir þessu er sú, að þrátt fyrir gífurlegar skattahækkanir var séð fyrir miklu minna fé af samtímatekjum ríkissjóðs til framkvæmda en áður. Málum var ýtt á undan sér við fjárlagaafgreiðslu. Það mátti ekki ganga í það að skera niður, raða framkvæmdum, taka þær framkvæmdir fram yfir, sem þóttu nauðsynlegastar, og fresta hinum miðað við aðstæður, heldur var þessu ýtt á undan og lánsfjáráætlun 1980. 2400 sér. Ríkissjóður lagði fram minna fé af samtímatekjum þrátt fyrir gífurlega aukna skatta og ýtti því til lánsfjáráætlunar að ráða fram úr vandanum. Niðurstaðan er þessi, að til framkvæmda í A- og B-hluta, sem eru — taki menn eftir því — svipaðar að magni til og í fyrra, verður að taka 16 milljörðum kr. meira fjármagn að láni ofan á alla þá skatta sem búið er að leggja á menn til að afla fjár í ríkissjóð.

Það er athyglisvert hvernig ætlunin er að afla þessa fjár, þessara auknu innlendu lána til þessarar opinberu fjárfestingar. Það er gert ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að skylda lífeyrissjóðina með lögum til þess að kaupa 6 milljörðum kr. meira af verðtryggðum skuldabréfum nú og leggja það fé til ríkissjóðs, sem er algert nýmæli. Áður hafa lífeyrissjóðirnir aldrei lánað ríkissjóði. Og það er líka ætlunin að fara inn í bankakerfið og fá þar 3.9 millj arða kr. fram yfir það sem áður hefur verið gert. Hér er að sjálfsögðu um rauntölur að ræða.

Afleiðingin af þessu innbroti, sem maður gæti orðað svo, ríkissjóðs í bankakerfið og lífeyrissjóðina er alveg augljós. Hún hlýtur að vera hverjum manni augljós. Ef hún nær fram að ganga, þá verður þetta til þess að draga úr því að atvinnuvegirnir og einkaaðilar geti fengið fjármagn í bankakerfinu og lífeyrissjóðunum. Það er alveg óumflýjanlegt. Þess vegna er þetta nákvæmlega sama stefna og kemur fram í fjárlagaafgreiðslunni, að þrengja að heimilunum og atvinnuvegunum, en auka umsvif ríkisins og hins opinbera. Í fjárlögunum er þetta gert með stóraukinni skattheimtu, en niðurskurði jafnframt á framlögum til atvinnuvega og ýmsum öðrum niðurskurði. Þetta dregur auðvitað úr ráðstöfunarfé heimilanna og atvinnuveganna. Og í þeim lánsfjárlögum, sem hér eru til umfjöllunar, er haldið áfram á þessari braut með því að þrengja að atvinnuvegunum með lánsfjármagn. Enda er það svo, að á bls. 15 í þessari ágætu skýrslu er þessa setningu að finna: „Lánveitingar atvinnuvegasjóðanna eru áætlaðar 34.1 milljarður kr. eða 59.3% af heildinni og hafa lækkað hlutfallslega úr 67% 1978.“ Þetta er stefnan. Hið opinbera er að þrengja þannig að hinu frjálsa atvinnulífi að nú eru lánveitingar atvinnuvegasjóða áætlaðar 59%, en 1978 67%.

Það er dálítið merkilegt að gera sér grein fyrir því, að hæstv. ríkisstj. stefnir að þessum stórauknu lántökum til opinberra framkvæmda á innlendum markaði án þess að gera nokkurn skapaðan hrærandi hlut til þess að þetta fjármagn fari vaxandi. Hún segir að vísu, hæstv. ríkisstj., í skýrslunni: „Meginskilyrðið fyrir verulegu átaki í innlendri fjármögnun er því, að tryggð verði stigvaxandi verðtrygging fjármagns, svo að stofn lánsfjármagns rýrni ekki frekar en orðið er og almennt traust sé vakið á því að hafa peningaeign undir höndum jafnt sem efnislegar eignir.“ En hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert neinar ráðstafanir í þessa átt. Á bls. 21 í þessari skýrslu segir: „Með lækkandi verðbólgu væri þannig stefnt að verðtryggingarmarki efnahagslaganna. Slík þróun mundi stuðla að auknum peningalegum sparnaði einkaaðila og auka möguleika á þátttöku innlánsstofnana í fjármögnun opinberra framkvæmda sem annars krefjast erlends lánsfjár.“

Auðvitað er þetta allt saman satt. En hér er einfaldlega treyst á það, að niðurtalningin takist, að hægt sé að telja verðlag niður af þeim vaxtafæti sem ríkir í landinu, eða þeim reglum, sem ríkja um verðtryggingu. Ég vona að hæstv. ráðh. geri sér grein fyrir því, að þarna er um hreina firru að ræða. Það er engin von til þess, að hægt sé að telja niður verðlag við þær aðstæður, sem nú eru, og ná þannig upp raunvöxtum eða verðtryggingu sparifjár í þjóðfélaginu. Eina leiðin, sem þeir hafa núna, eftir að vera búnir að afgreiða þessi eyðslufjárlög og stefna í að afgreiða þá þenslulánsfjáráætlun sem hér er, er að taka upp verðtryggingu sparifjár að verulegu leyti. Það er eini möguleikinn sem þeir hafa. Hæstv. forsrh. — ég sé að hann er því miður ekki við — ýjaði að því, að þetta kæmi kannske til greina. Hér yrði náttúrlega um meiri háttar stefnubreytingu að ræða ef þetta yrði gert, og það væri mjög æskilegt að fá því svarað, hvort þessi stefnubreyting sé á döfinni og hvenær hún verði þá gerð heyrinkunn.

Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. hafi í sambandi við afgreiðslu þessarar lánsfjáráætlunar tekið sér að einkunnarorði hið gamla orðtak: Frestur er á illu bestur, því að það er með þessa lánsfjáráætlun eins og afgreiðslu fjárlaga að erfiðum málum er hreinlega skotið á frest. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vakti athygli á þeirri dæmalausu setningu, að fjárfestingarsjóðirnir eigi að fá að taka 5 milljarða kr. að láni erlendis til þess að lána til annarra sjóða, en jafnframt tók ríkisstj. ákvörðun um að helmingsins af því yrði ekki aflað fyrr en án næsta ári. Þessu var sem sagt frestað: Eins er beinlínis broslegt, þegar vikið er frá nýsettum fjárlögum um öflun lánsfjár til B-hlutafyrirtækja og það er ákveðið með einu pennastriki að 10% af því lánsfé, sem ákveðið var í fjárlögum, greiðist ekki fyrr en á næsta ári og þess vegna reiknast það ekki með núna í þessari áætlun. Það er svo barnalegt að haga sér svona í slíku máli sem þessu að tekur ekki nokkru tali. En það er eitt, sem hæstv. ríkisstj. sker niður, aðeins eitt, og það er lánsfjáröflun til Byggðasjóðs. Hún er beinlínis skorin niður. Ég sé að form. stjórnar Framkvæmdastofnunar er hér staddur. Ég veit ekki hvort þetta hefur verið gert með vilja þeirra í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, en þetta er það eina sem er skorið niður frá því að ákvörðun var tekin um þessi mál með fjárlagaafgreiðslunni, að Byggðasjóður er skorinn niður um 1 milljarð, sem þýðir að ráðstöfunarfé hans á þessu ári verður nokkurn veginn 1.4% af útgjöldum fjárlaga, en lög segja að Byggðasjóður skuli hafa til ráðstöfunar ár hvert 2% af útgjaldaupphæð fjárlaga. Mér er spurn, hvort þetta sé kannske ný byggðastefna í framkvæmd, í kjölfar niðurskurðarins á gildandi vegáætlun. Ég vona að fleiri spyrji en ég um þetta atriði.

Það er búið að fjalla hér mikið um erlendar lántökur og sýna fram á það, að í raun og veru eru þær áformaðar miklu meiri en fram kemur í þessari skýrslu. Ég lenti í nokkrum orðaskiptum við hæstv. forsrh. fyrir nokkrum dögum um erlendar lántökur og greiðslubyrði erlendra lána. Ég skal ekki endurtaka mikið af því sem þá fór á milli okkar, en þó að hann legði eið út á það, að stefnt væri að minna en 90 milljarða auknum erlendum lántökum, þó að hér standi í áætluninni að það eigi að taka 85.5 milljarða kr. að láni, er alveg ljóst að það stenst ekki. Það er svo margt sem rökstyður það. Í fyrsta íagi þessi frestun á lántöku fram yfir áramót. Þar er í rauninni um bókhaldsatriði að ræða. Það er búið að taka ákvörðun um að taka þessi lán og þau verða sennilega tekin á þessu ári, en því frestað til næsta árs að bóka þau.

Eins er með áformin um innlendar lántökur. Ef ríkisstj. heldur fast við það að taka innlend lán með þeim hætti sem hún ætlar að gera til opinberra framkvæmda, þá er ekkert úrræði til fyrir atvinnulífið í landinu annað en afla sér erlends fjármagns, ef atvinnulífið á ekki að stöðvast. Þegar ríkisstj. ætlar að draga úr erlendum lántökum um 10 milljarða með einu pennastriki og auka innlendar lántökur sem því nemur umfram það, sem áður hefur verið gert, og þrengja þannig að atvinnulífinu, þá er það náttúrlega ekkert annað en bókhaldsatriði, þannig að hér er náttúrlega stefnt í miklu meiri erlendar lántökur en um er fjallað í þessari skýrslu.

Hæstv. fjmrh. sagði efnislega að hann væri ánægður með þessa niðurstöðu um erlendar lántökur, því að á þessu ári ættu erlend lán ekki að aukast í hlutfalli af þjóðartekjum. Hann sagði að þau mundu heldur minnka. Það er alls ekki rétt samkv. þeirri skýrslu sem hann og hæstv. forsrh. hafa hér lagt fram. Í þessari skýrslu segir: „Löng erlend lán námu 335 milljörðum kr. í árslok 1979, en fært til meðalgengis er það um 35% af vergri þjóðarframleiðslu ársins, en þetta hlutfall var árin þrjú næst á undan 32–34%. Að meðtöldum lántökum ársins 1980 er áætlað að hlutfallið haldist óbreytt.“ Hér er alveg fast til orða tekið, að miðað við þessa bókhaldstölu, 85.5 milljarða, er ekki um að ræða að þetta hlutfall minnki eins og hæstv. fjmrh. vildi vera láta, heldur er sagt að það haldist óbreytt, og er þá eftir að taka með í reikninginn það bókhaldsdæmi, þær bókhaldskúnstir sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft við samningu þessarar áætlunar. Greiðslubyrðin hækkar út 13.3% árið 1978 í 16–17% á þessu ári. En ég hef hér í höndunum skriflega grg. um það frá Seðlabanka, að jafnvel þótt þessi bókhaldstala hæstv. ríkisstj. sé lögð til grundvallar um lántökuna á þessu ári, þá hækkar þessi greiðslubyrði í yfir 18% á næsta ári og hefur aldrei verið hærri í sögu þjóðarinnar, þrátt fyrir áföll 1968, en þá brugðust bæði markaðir og afli og viðskiptakjör okkar hröpuðu um að mig minnir 30–40% á einu ári. Samt fór greiðslubyrði okkar ekki yfir 18%.

Það er svo dálítið broslegt þegar bæði er um það rætt í þessari skýrslu og hæstv. ráðh. eru að tala um það, að eiginlega sé miklu eðlilegri víðmiðun að miða greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum við þjóðartekjur. Ég hef alltaf vanist því, að það væri nokkurt vit í því að miða greiðslubyrði við eigin ráðstöfunartekjur. Þjóðin hefur ekki aðrar tekjur til ráðstöfunar til að borga erlend lán en þær sem hún á eða hefur í erlendum gjaldeyri. Með því t. d. að koma upp hitaveitum og spara fær hún að vísu tekjur, meiri tekjur, en það breytir ekki því, að hún getur aðeins notað þann gjaldeyri sem hún á hverju sinni til þess að borga af erlendum lánum vexti og afborganir, þannig að mér sýnist að það saki ekki að hafa þessa viðmiðun líka. Það eru ekki nema þrír mánuðir síðan skrifað var undir málefnasamning hæstv. ríkisstj., og þar er greiðslubyrðin miðuð við útflutningstekjur, talað um 15%, að hún fari ekki fram úr 15% nema alveg sérstaklega standi á. Þar er hvergi minnst á viðmiðun greiðslubyrðar erlendra lána við þjóðartekjur, og menn hljóta að hafa verið sammála um að þetta væri eðlileg viðmiðun þá, þegar þeir skrifuðu undir þennan málefnasamning. Mér finnst þetta því heldur hlálegt þó að sjálfsagt sé að hafa þetta hvort tveggja. Mér finnst heldur búmannlegt að gera sér grein fyrir því í fyrsta lagi, hvað þarf að greiða af erlendum lánum af útflutningstekjum sem eru til ráðstöfunar, og svo í öðru lagi, hvað þessi greiðslubyrði er þung miðað við þjóðartekjur hverju sinni.

En það er alveg ljóst, hvor viðmiðunin sem við er höfð, að erlend lántaka á þessu ári stefnir langt úr hófi fram og alveg sérstaklega ef það er haft í huga, að ef erlendu fjármagni er dælt inn í landið þegar verðbólga er jafnmikil og núna, þá hlýtur það náttúrlega að verka eins og olía á eld. Skiptir þá ekki máli hvort menn eru að tala um framkvæmdir sem eru alls góðs maklegar og eru arðbærar, eins og orkuframkvæmdir, vegaframkvæmdir eða eitthvað slíkt. Erlend lántaka hefur alveg sömu áhrif á þessu ári til hvaða framkvæmda sem hún er ætluð.

Það má kannske líka geta þess, að undanfarin ár hefur ekki tekist að halda erlendum lántökum innan marka lánsfjáráætlana. Árið 1978 fóru þær 13 milljörðum fram úr áætlun og 1979 tæpum 15 milljörðum, erlendar lántökur í raun. Og þegar staðið er að lánsfjáráætlun eins og hér er gert og ég hef lítillega rakið, þá má nærri geta hvað gerist núna á þessu ári.

Þá vil ég vekja hér athygli á einu máli sem ég hafði að vísu nokkuð fjallað um við afgreiðslu fjárlaga, en komið er nú fram mjög skýrt hvernig ríkisstj. hefur hugsað sér að standa að. Það er skerðing á framlagi ríkissjóðs til einstakra sjóða. Það er t. d. gert ráð fyrir því að skerða tekjur Byggingarsjóðs ríkisins af launaskatti o. fl., og í þessu frv. — ég vil sérstaklega vekja athygli á því, þetta mál kom mjög til umræðu við afgreiðslu lánsfjáráætlunar í fyrra — er svo til orða tekið: „skulu tekjur Byggingasjóðs ríkisins ekki fara fram úr 7 milljörðum 100 millj. 500 þús. kr.“ Og þetta er að sjálfsögðu miðað við áætlun fjárlaga, þar sem gert er ráð fyrir 30% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka. Aukning á launaskatti fer að sjálfsögðu eftir því, hvað verðbólgan hækkar mikið frá ársbyrjun til ársloka, en örugglega verða tekjur af launaskatti milljörðum meiri en fjárlög gera ráð fyrir samkv. þeirri áætlun sem nú liggur fyrir, sem miðuð er bara við 30% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka. Og allt á þetta þá að ganga í ríkissjóð, því að Byggingarsjóður ríkisins fær bara krónutöluna eins og hún er áætluð núna. Hitt á allt að fara í ríkissjóð.

Þá er kannske ekki úr vegi að gera einu sinni enn, í tveimur eða þremur setningum, aths. við það, að Bjargráðasjóður, Erfðafjársjóður, Framkvæmdasjóður þroskaheftra, Byggðasjóður og aðrir slíkir sjóðir, sem eiga að sinna félagslegum málefnum og verða að lána sínum lánþegum fé á betri kjörum en aðrir sjóðir,-það er beinlínis tilgangur þeirra t. d. Bjargráðasjóðs, — þeir eru skornir niður nákvæmlega eins og atvinnuvegasjóðirnir sem eiga að geta ávaxtað fé sitt á eðlilegan hátt. Þarna er náttúrlega um að ræða alveg furðulega meðferð á þessum sjóðum. Svo maður taki Bjargráðasjóðinn enn einu sinni sem dæmi, þá var formaður stjórnar hans á fundi með fjh.- og viðskn. Ed. um daginn. Hann sagði að uppi væru raddir um að lána bændum vegna þess tjóns, sem þeir hafa orðið fyrir núna undanfarið, fé með alveg ákveðnum kjörum, sem væru mjög góð, óverðtryggð lán með frekar lágum vöxtum til fimm ára. Þetta þarf að gera því að það segir sig náttúrlega sjálft að það er ekki hægt að koma til aðstoðar mönnum, sem hafa orðið fyrir slíku tjóni, með því að lána þeim fé með okurkjörum. Hann sagði að því miður fengjust engin svör um það, hvernig þetta ætti að gera, því á sama tíma og verið væri að taka ákvarðanir um að veita þessi lán á þessum kjörum væri framlag ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs skorið niður.

En að lokum vil ég leggja á það megináherslu í sambandi við sjóðina, að það er út af fyrir sig rétt stefna, tel ég, að láta atvinnuvegasjóðina ávaxta sig sjálfa og að ríkissjóður leggi þeim ekki sýknt og heilagt til fé til þess að greiða niður vexti. En það er algerlega rangt að taka þessa sjóði alla í sömu púlíunni, og það er líka furðuleg regla, sem er óþolandi að mínu mati, að skera sjóðina niður með þeim hætti að láta þá hafa bara krónutöluna og láta þá svo eiga sig í óðaverðbólgunni, en að ríkissjóður fái allt sitt á þurru, taki allan tekjuaukann t. d. af Byggingarsjóði ríkisins, en hann verði að eiga sig í þeirri óðaverðbólgu sem ríkir í landinu.

Það er búið að tala mikið um þjóðhagslegan grundvöll þessarar áætlunar, þjóðhagsforsendur, og ég skal ekki bæta miklu við þær umræður. Ég vil þó aðeins minna á að enn þá erum við að miða við að meðalbreytingar á verðlagi milli ára séu 46.5%, þó að í þessu plaggi sé viðurkennt að þær séu yfir 50%. Enn erum við að miða við að innflutningsverð í erlendri mynt hækki um 8% frá árinu í fyrra og að innflutningsverð í krónum hækki um 38%, þó að við vitum allir að þessar stærðir hafa snarruglast og eru allt aðrar en hér kemur fram.

Herra forseti. Þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fjallar um mörg verkefni sem eru til þjóðnytja, t. d. í orku- og vegamálum. Á hinn bóginn er ekkert gert til að skapa svigrúm til þessara þörfu framkvæmda með frestun á öðrum sem minni þýðingu hafa. Þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun mun því valda vaxandi þenslu og verðbólgu á sama hátt og mestu eyðslufjárlög í sögunni sem afgreidd voru nú fyrir páska. Höfuðmein íslenskra efnahags- og þjóðmála, verðbólgan, fer því fremur vaxandi en hitt, svo sem staðfest er í opinberum gögnum, þótt hæstv. ríkisstj. vilji afneita þeim staðreyndum. Þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er í rökréttu samhengi við gildandi eyðslufjárlög. Þau skerða ráðstöfunarfé heimilanna og atvinnuveganna með gífurlegum skattahækkunum, en auka eyðslu og umsvif ríkisins. Þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun stefni að stórauknum framkvæmdum hins opinbera með því að minnka aðgang atvinnufyrirtækja og einkaaðila að innlendu fjármagni. Þetta er ómenguð vinstri stefna í ríkisfjármálum og peningamálum.

Í þessari áætlun felst síðast en ekki síst eins konar innbyggð svikamylla sem magnar verðbólguna. Óraunsæjar áætlanir eru uppi um að niðurtalning verðlags eigi að þrýsta verðbólgunni niður í þá vexti og verðtryggingu sem er á boðstólum. Það virðist ekki ætlun ríkisstj. að hreyfa við vöxtum og verðtryggingu. Þegar sparifjáreigendur finna verðbólguna vaxa í stað þess að minnka er eðlilegt að þeir dragi úr innlánum í peningastofnanir, en það eykur verðbólguna. Það er staðreynd að þetta hefur gerst núna á undanförnum vikum og mánuðum, innlán hafa stórlega minnkað. Þannig er í þessari lánsfjáráætlun, ofan á þá þenslu sem hún skapar með auknum fjárfestingum, innbyggð svikamylla sem magnar verðbólguna.

Að lokum vildi ég beina örfáum orðum til hæstv. forsrh. af því að hann er kominn hér. Hann talaði um það í sinni framsöguræðu, eða mér fannst hann láta að því liggja, að það væru kannske á döfinni breytingar á vöxtum eða verðtryggingu sparifjár, og því vildi ég inna hann eftir því, hvort það sé rétt skilið hjá mér að þetta sé á döfinni og hvenær og hvernig það verði þá framkvæmt.