06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hafa farið fram hér í dag ítarlegar umræður um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 og reyndar í tengslum við frv. til lánsfjárlaga, þótt það hafi ekki komið til formlegrar meðferðar enn, þar sem það er lagt fram og mælt verður fyrir því í Nd. En þessi mál eru svo samtengd að þau verða ekki sundur skilin í umr. Það er eðlilegt að um þetta sé ítarlega rætt, því að auk fjárlaga eru fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin og ákvarðanirnar um lánsfé eitt af mikilvægustu hagstjórnartækjum sem Alþ. fær til umræðu og meðferðar. Ákvarðanir, sem í þessu felast, bæði þær, sem þarf að taka á hv. Alþ., og þær ákvarðanir, sem boðaðar eru af ríkisstj. innan ramma gildandi laga, ráða mjög miklu um þróun efnahagsmála á þessu ári og í náinni framtíð, m. a. um gang verðbólgunnar sem er sannarlega eitt af okkar verstu meinum.

Ég hef ekki hugsað mér að ræða almennt um þessa áætlun, en vildi drepa á örfá atriði og þá ekki síst atriði sem mér finnst hafa grundvallarþýðingu í tengslum við þetta mál. Þær miklu fjármagnstilfærslur, sem hér er gert ráð fyrir, ráða að sjálfsögðu mjög miklu um gang allra okkar efnahagsmála, en vandi efnahagslífsins hér á landi er æðimikill. Hann hefur verið mikill lengi, og raunar er það svo, að sú mikla verðbólga, sem hér hefur ríkt nú um langt skeið, er undrunarefni ýmissa sérfræðinga víða um heim og þá ekki síst undrunarefni fyrir það, að atvinnulífið og fyrirtækin í landinu skuli þó enn skrimta við þessar aðstæður. Auðvitað kemur verðbólgan þungt niður á öllum, en ég held að hún komi hvergi þyngra niður en á atvinnulífinu, og reyndar sjást þess þegar ýmis merki að það er uppdráttarsýki í okkar efnahags- og atvinnulífi. Því veldur verðbólgan fyrst og fremst og þess vegna hlýtur það að vera mikið áhyggjuefni að aðgerðir ríkisstj., bæði í fjárlagagerð og í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, eru verðbólguhvetjandi. Ríkið dregur hvergi úr, þvert á móti eykur það umsvif sín og kyndir undir aukna þenslu.

Hve alvarlegar afleiðingar verðbólgan hefur þegar haft kemur m. a. fram í kaflanum um markmið og þjóðhagshorfur. Þar segir reyndar að þjóðarframleiðsla muni aukast um 7.5% á árinu, en þó með fyrirvörum um að þessi aukning geti þó allt eins orðið 1% ef vissar forsendur, sem menn gefa sér þegar rætt er um 1.5%, muni ekki standast. Hins vegar kemur fram að þjóðartekjur muni standa í stað eða reyndar minnka um 1% á mann, eins og stendur efst á bls. 7 í þessari áætlun.

Þetta þýðir að sjálfsögðu stöðnun í íslensku efnahagslífi. Og við vitum að þegar stöðnun er fyrir hendi, þá er stutt í afturför og hnignun, og eins og ég sagði áðan eru viss merki hnignunar komin í ljós. Það kemur fram í skýrslunni á bls. 5, og menn segja með nokkru stolti, m. a. kom það fram hjá hæstv. forsrh. í ræðu hans hér í dag, að atvinnuástand sé mjög gott og skráð atvinnuleysi sé minna en það hafi verið frá því að heildarskráning hófst árið 1969. Því miður segja þessar tölur ekki nema hálfa söguna, því að sannleikurinn er sá — og það held ég að við hér á hv. Alþ. verðum að horfast í augu við — að fólk er farið að flytjast úr landi í stórum stíl. Hér er dulið atvinnuleysi, sem kemur fram í því að fólk flyst úr landi.

Samkv. upplýsingum Hagstofunnar hefur þessi fólksflutningur verið nokkuð stöðugur og jafn undanfarin fjögur ár. Árið 1976 fluttust 2104 Íslendingar úr landi, árið 1977 2367, árið 1978 2233 og árið 1979 2373, eða samtals á fjórum árum 9077 manns. Við skulum skoða þessar tölur betur og reyna að glöggva okkur á þeim frekar og setja þær í þekktar stærðir til viðmiðunar. Í Keflavík búa um 6600 manns og þetta dæmi um brottflutning sýnir að fólksfjöldi sem samsvarar öllum íbúum Keflavíkur hafi flutt brott á s.1. þremur árum. Þetta sýnir líka sama mannfjölda og að allir íbúar Mosfellshrepps hafi flust úr landi á einu ári eða að á s. l. fjórum árum hafi flust úr landi íbúar sem svara til nánast allra íbúa í Njarðvíkum, Grindavík, Neskaupstað, Borgarnesi, Höfn í Hornafirði og Dalvík.

Þetta eru mjög alvarlegar staðreyndir og staðreyndir sem við verðum að hafa í huga og horfast í augu við, og því segi ég það enn, að þær tölur um atvinnuleysi eða um atvinnuástand, sem hér eru nefndar, eru ekki réttar vegna þess dulda atvinnuleysis sem felst í því að fólk hreinlega flyst brott af landinu.

Nú segi ég þetta ekki til þess að ásaka einn eða neinn. Þetta tímabil sem ég hér nefni nær til þriggja ríkisstj., eða reyndar fjögurra ef við tökum starfsstjórn Alþfl. með. En þær sýna þó að það verður að breyta um stefnu í efnahagsmálum. Þá uppdráttarsýki, sem felst í þessu, verður að koma í veg fyrir, og ég held að það gerist ekki á annan veg en þann að auka verðmætasköpunina í þjóðfélaginu. Það þarf að efla atvinnulífið og það þarf að auka framleiðsluna. Ég held að það sé vissulega kominn tími til þess, að sú lamandi hönd ríkisafskipta, sem hefur verið ríkjandi stefna í efnahagsmálum í s. l. 10 ár, hverfi og reynt verði að taka upp aðra stefnu, stefnu sem örvi til aukins atvinnulífs, til aukinnar framleiðslu og verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. Það hlýtur að verða eitt af meginmarkmiðum í íslenskum efnahagsmálum nú og í nánustu framtíð. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna þegar þessi áætlun, sem hér er til umr., er skoðuð, hvernig þessi lánsfjáráætlun uppfyllir þessi sjónarmið, hvernig sé unnið að þessum markmiðum í þessari lánsfjáráætlun.

Í stuttu máli sagt gengur þessi lánsfjáráætlun þvert á þessi markmið. Hún stefnir að því að draga frá atvinnulífinu afl þeirra hluta sem gera skal, þ. e. að draga fjármagnið frá atvinnulífinu í ríkishítina. Þetta kemur fram á ýmsum stöðum í þessari áætlun. Það kemur m. a. fram á bls. 6 þar sem segir: „Að svo stöddu verður gert ráð fyrir 2% aukningu samneyslunnar í heild á árinu.“ Það þýðir að samneysla eigi að aukast um 2% á þessu ári. Það þýðir auknar tekjur til ríkisins, auknar tekjur til hins opinbera og að sama skapi aukin ríkisútgjöld og þar með minnkandi fjárráð einstaklinga og fyrirtækja í landinu.

Þetta kemur líka fram á öðrum stöðum í þessari skýrslu, m. a. á bls. 27, en þar kemur fram eftirfarandi: „Í fjárfestingaráætlun ársins 1980 er gert ráð fyrir að opinberar framkvæmdir aukist um 21% frá s. l. ári, en alls er áætlað að 126.6 milljörðum kr. verði varið til opinberra framkvæmda á árinu. Þessi fjárhæð er tæplega 39% af heildarútgjöldum til fjármunamyndunar samkv. fjárfestingaráætlun samanborið við 33% á árinu 1979.“ Af þessu má sjá að hlutfall opinberra framkvæmda í heildarútgjöldum til fjárfestingar eykst verulega á þessu ári.

En það kemur líka fram á öðrum stað í þessari áætlun, í töflu sem birt er á bls. 25, að fjármunamyndun í atvinnuvegunum eigi að minnka um 3.6% á þessu ári frá því sem var á s.1. ári. Það er sem sagt gengið þvert á þá stefnu sem ég held að allir hugsandi menn telji eitt grundvallaratriði í efnahagsmálum, að auka arðbæra fjármunamyndun í íslensku atvinnulífi. Það er ekki aðeins að hún eigi ekki að aukast, heldur á hún að minnka frá því sem var á s. l. ári.

Það er enn fremur athyglisvert að athuga fyrirætlanir um lánveitingar úr þeim fjárfestingarlánasjóðum sem lána eiga til atvinnuveganna. Á bls. 15 í þessari skýrslu kemur fram að lánveitingar atvinnuvegasjóðanna séu áætlaðar 34.1 milljarður eða um 59.3% af heildinni og hafi lækkað hlutfallslega úr 67% árið 1978. Hér er sem sagt um hlutfallslega lækkun að ræða á milli áranna. Og það kemur fram, að vísu ber ekki tölum saman um það í þessari skýrslu, að útlán atvinnuvegasjóðanna muni hækka tiltölulega mjög lítið, — ég segi mjög lítið og þá á ég við miðað við verðbólguna á milli ára. Um þetta ber tölum ekki saman, en ef ég vitna til þess sem fram kemur í töflu á bls. 39, þá er þar gert ráð fyrir 16.1% aukningu á lánsfé atvinnuvegasjóðanna, sem er að sjálfsögðu veruleg magnminnkun frá því sem var á s. l. ári.

Á öðrum stað í þessari skýrslu er reyndar talað um 22.2% og hef ég ekki getað með samanburði á þeim tölum fundið út skýringu á þessum mismun, en það er í töflunni á bls. 17. Þarna hefur eitthvað farið á milli mála, en ljóst er þó, ef önnur hvor þessara talna er rétt, að hækkunin er einungis á bilinu 16.1%–22.2%, sem þýðir, eins og ég sagði áðan, verulega magnminnkun í útlánum til atvinnuveganna á milli ára.

Af þeim tölum, sem ég hef rakið, má glöggt sjá að það er eitt megineinkenni þessarar fjárfestingar og lánsfjáráætlunar að draga fjármagn frá atvinnuvegunum, frá atvinnulífi landsmanna, frá hinum frjálsa atvinnurekstri til ríkisins og þeirra miklu útgjalda sem að er stefnt á vegum hins opinbera á þessu ári.

Gert er ráð fyrir því, að innlend lánsfjáröflun verði stóraukin. Við deilum oft um hversu langt eigi að ganga í erlendum lántökum, og ég skal segja það sem mína skoðun, að ég tel að ef um er að ræða sannanlega arðbærar framkvæmdir, t. d. framkvæmdir í orkumálum, bæði í raforkumálum og hitaveitum, þá sé óhætt að taka að verulegum hluta erlend lán til slíkra fyrirtækja. En að sjálfsögðu verður að haga rekstri þeirra fyrirtækja og verðlagningu þeirrar þjónustu á þann veg að þessi fyrirtæki geti sjálf staðið undir afborgunum og vöxtum af slíkum lánum.

Hins vegar finnst mér of mikið að því gert af hálfu ríkisins, bæði í þessari lánsfjáráætlun og reyndar á undanförnum árum, að taka erlend lán til ýmissa óarðbærra framkvæmda og jafnvel erlend lán til hreinna rekstrarútgjalda, eins og dæmi eru um.

Hin innlenda aukning lánsfjár kemur fyrst og fremst niður í tveimur atriðum, sem reyndar hafa verið gerð að umtalsefni hér af öðrum, en ég vil þó sérstaklega undirstrika frekar. Hin innlenda lánsfjáraukning kemur úr bankakerfinu og úr lífeyrissjóðunum. Ég hef áður sýnt fram á hvað gert er ráð fyrir að fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna muni draga sínar lánveitingar saman á þessu ári. Að fjárfestingarlánasjóðunum frátöldum eiga fyrirtækin í landinu yfirleitt ekki í önnur hús að venda varðandi fjármagnsútvegun en í bankakerfið. En nú er gert ráð fyrir að möguleikar bankakerfisins til þess að sinna atvinnulífinu í landinu verði stórlega skertir, því að eins og fram kemur í þessari áætlun er gert ráð fyrir að innlánsaukning verði bundin í mun ríkari mæli en verið hefur undanfarin ár, þ. e. úr 4% ð s.1. ári í 7% á þessu ári. Þetta þýðir í raun og veru það eitt, að bankakerfið er mun verr í stakk búið en ella til þess að sinna atvinnulífinu. Og þegar það bætist ofan á minnkandi fjármagn fjárfestingarlánasjóða atvinnulífsins, þá sjá allir að þessi lánsfjáráætlun er ekki samin með hagsmuni atvinnulífsins í huga.

Í annan stað er gert ráð fyrir að hin innlenda lánsfjáraukning komi frá lífeyrissjóðunum. Nú er það svo, að í lögum hefur í nokkur ár sú skylda verið lögð á herðar lífeyrissjóðanna að þeir verðtryggi ráðstöfunarfé sitt að einhverjum hluta. Árið 1977 voru sett lög um að það skyldi vera 40% af ráðstöfunarfé þeirra sem skyldi verðtryggt. Hins vegar voru lífeyrissjóðunum gefnar frjálsar hendur í mjög ríkum mæli um það, hvernig þeir verðu þessu fjármagni, og það er alveg öruggt og fyrir því gögn að mjög margir lífeyrissjóðir vörðu fjármagni til þess að kaupa skuldabréf frá fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna. Og þá var það gjarnan á þann veg, að þeir lífeyrissjóðir keyptu skuldabréf frá þeim sjóðum sem tengdir voru þeirri atvinnugrein sem lífeyrissjóðirnir aðallega störfuðu í. Ég vil nefna sem dæmi að Lífeyrissjóður verslunarmanna keypti bréf frá Stofnlánasjóði verslunarinnar, Lífeyrissjóður Iðju keypti skuldabréf frá þeim sjóðum sem lána til iðnaðar í landinu og þar fram eftir götunum. Þannig komu lífeyrissjóðirnir mjög til móts við fjármagnsþörf atvinnuveganna.

Með þessari lánsfjáráætlun er algjörlega snúið við blaðinu að þessu leyti, því að nú er gert ráð fyrir að öll þau 40%, sem lífeyrissjóðirnir eiga að nota til að verðtryggja sitt ráðstöfunarfé, fari í ákveðna sjóði sem ríkið hefur yfir að ráða. Það er nánast tekið fyrir það með þessu frv. að lífeyrissjóðirnir geti keypt skuldabréf af hinum ýmsu stofnlánasjóðum atvinnuveganna. Ég segi: tekið fyrir það, vegna þess að ég býst við að það séu mjög fáir sjóðir í landinu, sem geti — eins og fjármálum þeirra er háttað — keypt bréf sem nemur hærra hlutfalli en 40% af þeirra ráðstöfunarfé.

Um þetta atriði hefur oft verið deilt hér á hv.. Alþ., þ. e. hvort það ætti að leggja slíkar lögbundnar skyldur á lífeyrissjóðina. Þær umr. hafa verið rifjaðar upp af öðrum ræðumönnum hér í dag. Það hefur m. a. verið rifjað upp hve Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar, brást hart við þegar þetta var til umr. hér á Alþ. 1977 og hve Lúðvík Jósepsson brást mjög hart við. Og ég verð að segja að mig rak í rogastans þegar ég var að lesa umr. um þetta mál á Alþ. frá því í des. 1977, þegar ég las ummæli hæstv. núv. fjmrh. um þetta, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson rifjaði reyndar upp í ræðu sinni í dag. Ég held að það sé ágætt, ekki síst hæstv. fjmrh. sjálfs vegna, að rifja upp aftur fyrir honum hér og gera það gleggra fyrir okkur aðra þm., hversu geysileg sinnaskipti hafa orðið hjá þessum hæstv. ráðh. Hann sagði um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er hinn þáttur málsins sem er okkur fyrst og fremst þyrnir í augum, að hér er verið að taka fjármagn lífeyrissjóðanna traustataki með löggjöf og ráðstafa því á ákveðinn hátt. Þetta fjármagn og þessir sjóðir eru að nokkru leyti bein eign verkalýðshreyfingarinnar og að nokkru leyti óbein eign. Verkalýðshreyfingin fékk því framgengt, að þessir sjóðir tóku til starfa og hafa verið byggðir upp, og hún varð á sínum tíma að kosta því til að slá nokkuð af launakröfum sínum, fórna nokkru, til þess að þetta spor yrði stigið.“

Þetta voru orð hæstv. fjmrh. fyrir einungis rúmum tveimur árum þegar mál svipaðs eðlis var til umr. hér í hv. Alþ., en þó var ráð fyrir því gert í því frv. sem þá var til umr., að lífeyrissjóðirnir hefðu mun rýmri hendur um ráðstöfun á því fjármagni, sem verðtryggja skyldi, heldur en gert er ráð fyrir í því frv. sem hér liggur fyrir, þar sem hér er alveg klippt og skorið lögð sú skylda á lífeyrissjóðina að þeir eigi að verja 40% af ráðstöfunarfé sínu til að kaupa af ríkissjóði, Byggingarsjóði ríkisins og Framkvæmdasjóði Íslands. Það eru engir aðrir sjóðir tilgreindir í þessu lagafrv. og því liggur það ljóst fyrir, að sú heimild sem áður var, að lífeyrissjóðirnir gætu keypt af stofnlánasjóðum atvinnuveganna, er felld niður með þessu lagafrv. eins og það liggur hér fyrir. Lífeyrissjóðunum eru sem sagt settar miklu þrengri skorður, miklu strangari ákvæði í þessu frv. heldur en var fyrir tveimur árum, þegar þetta frv. var til meðferðar. Og það eru furðuleg sinnaskipti sem orðið hafa hjá hæstv. fjmrh. í þessu efni nú á þessum tiltölulega stutta tíma.

En þetta atriði með lífeyrissjóðina, að nú skuli vera afnumin heimildin til þess að kaupa megi skuldabréf frá stofnlánasjóðum atvinnuveganna, er enn eitt dæmi af mörgum, sem ég hef áður tilgreint í minni ræðu, um það, að verið er að taka fjármagn frá atvinnuvegunum og færa það til ríkisins, og enn eitt dæmi um það, að þessi lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga ganga þvert á þá stefnu sem ég held að allir hugsandi menn hljóti að vera sammála um, að brýnasta verkefni í efnahagsmálum þessarar þjóðar sé að auka verðmætasköpunina í landinu, gera atvinnuvegunum kleift að auka framleiðslu sína og efla þar með grundvöll aukinnar velmegunar fyrir borgara þessa lands.