06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. gerði það hér að umræðuefni, hvort ekki hefði meira fjármagn fengist í hitaveitumál á Vestfjörðum ef styrkleiki þm. úr því kjördæmi væri meiri í ríkisstj. Þetta veit ég að er ekki til komið af hans hendi sem vantraust á þá sem styðja stjórnina, heldur hitt, hvort ekki sé rétt að taka það til alvarlegrar íhugunar að bæta við liðsauka úr kjördæminu og taka upp samvinnu við hæstv. forsrh., en ég veit að á milli þeirra hefur löngum verið mikill vinskapur, eins og menn muna gjarnan frá þeim tíma þegar Orkubú Vestfjarða var í fæðingunni.

Það hefði samt mátt gera þennan samanburð á öllu sanngjarnari hátt með því að bera saman þær fjárveitingar sem fara til hitaveituframkvæmda og raforkuframkvæmda á þessum svæðum, og óneitanlega hefði hlutur Vestfjarða komið mun betur út úr þeim samanburði, ef þar hefði verið litið á hinar miklu framkvæmdir sem eiga sér stað með lagningu byggðalínunnar.

Ég vil samt undirstrika það, að óneitanlega fannst mér hans málflutningur allur stórum málefnalegri en þegar ég hlustaði á hv. 3. þm. Vestf. vera hvað skotglaðastan hér í ræðustól í dag. Það var ekki nóg með að flestar tölur í þessu frv. væru gagntýndar, heldur gerði hann mjög lítið úr rithæfni þeirra manna, sem gengið hefðu frá þessu plaggi, og lét í það skína, að þeir væru heimskir.

Nú er það svo, að það er ekki undarlegt þó að hv. þm. hugleiði ritleiknina. Hann glímdi við það dálítinn tíma sinnar ævi að vera ritstjóri dagblaðs og bæði blaðið og hann áttu þá allt undir því, hvaða hæfileikar væru til, hvort rithæfni hans væri slík að lesendahópurinn stækkaði og blaðið efldist. Eitthvað virðist það hafa farið á annan veg, því niðurstaðan varð sú að blaðið hafði ekki efni á því að njóta hans hæfileika. Og satt best að segja er óvíst að blaðið væri til hefði verið haldið áfram á sömu braut.

Í ræðuflutningi manna hér í kvöld hefur verið þó nokkuð drepið á verðbólguna, og vissulega er eðlilegt að um hana sé rætt þegar lánsfjáráætlun liggur fyrir. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann vill standa við fyrirheit um verðtryggingu sparifjár, og það tel ég vel. En ég vil koma því hér á framfæri, að ég held að útreikningur eftir svokallaðri lánskjaravísitölu sé ekki gæfuleg leið í þeim efnum. Það sé of flókin leið og bankakerfið gæti legið undir grun um að þeir útreikningar séu ekki réttir. Ég tel miklu eðlilegra að miða þá útreikninga við gengi algengustu gjaldmiðla viðskiptaþjóða okkar. Með því móti væri hægt að hafa þá útreikninga miklu auðveldari, þannig að meira traust skapaðist á milli þeirra, sem leggja fjármagn inn í bankana, og bankakerfisins.

Hitt atriðið, sem ég tel að sé algjört grundvallaratriði ef draga á úr verðbólgunni, er rétt gengisskráning á hverjum tíma. Ef gengið er rangt skráð leiðir það til þess, að kaupæði skapast í landinu. Ég tel að hvað sem gert er til þess að draga úr kaupæði með öðrum aðgerðum beri ekki árangur ef gengið er rangt skráð. Jafnframt blasir það við, að ekkert er hættulegra hinum dreifðu byggðum þessa lands en röng gengisskráning. Þar eru framleiðslusvæðin, og ef gengið er rangt skráð leiðir það til þess, að það er verið að afhenda verðmæti framleiðslusvæðanna til þjónustusvæðanna á röngu verði.

Sú fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem hér liggur frammi, gerir ráð fyrir að harkalegum aðgerðum verði beitt til að taka fjármagn úr umferð úr hinu almenna bankakerfi. Vissulega er það hluti af þeirri víðleitni að draga úr verðbólgunni. Ég held að í beinu framhaldi af því sé rétt að hugleiða umr. þær sem átt hafa sér stað um greiðslubyrðina vegna erlendra skulda. Að mínu viti skiptir höfuðmáli í hvað því fjármagni er varið sem við tökum að láni erlendis. Ef því fjármagni er varið til gjaldeyrisskapandi framkvæmda eða til gjaldeyrissparandi framkvæmda tel ég að það sé hægt að taka mikið af erlendum lánum. Aftur á móti er það svo, að sumir hlutir eiga ekki heima í þeirri lánsfjáráætlun sem hér er þótt þeir séu þar, og flokkast ekki undir þetta. En ég vil taka undir það, að það er mun skynsamlegra og eðlilegra að tala um greiðslubyrðina sem hlutfall af þjóðartekjum heldur en sem hlutfall af útflutningsverðmætum. Það er réttara að leggja saman þann kostnað, sem þjóðin hefur, annars vegar, greiðslubyrðina, og hins vegar það sem sparast vegna aðgerða í orkumálum, lækkar sem sagt greiðslur vegna olíukaupa, — leggja þessa tvo þætti saman og skoða í hvaða átt þróunin er, heldur en að horfa aðeins á greiðslubyrðina sem hlutfall af útflutningsverðmætunum.

Í þeirri áætlun, sem hér liggur fyrir, kemur berlega fram á bls. 31, að það er fyrst og fremst til eins málaflokks sem um aukningu er að ræða. Það er til þessa málaflokks sem varið er svo miklu fjármagni, að lánsfjáráætlunin er spennt til hins ýtrasta, þ. e. til orkuframkvæmda. Ef við rennum augunum yfir þá liði, sem þar eru upp taldir á bls. 31, komumst við fljótlega að því, að sennilega væri hægt að finna marga einstaklinga hér í þinginu sem mundu vilja bæta við þær upphæðir sem fyrir eru. Ég get fullkomlega tekið undir margt í ræðu hv. 4. þm. Vestf. sem hann sagði um það. En alveg eins og ég er samþykkur þeim ákvörðunum, sem þar liggja fyrir, alveg eins þykir mér erfitt að standa frammi fyrir því að vera stillt upp við vegg og sagt að það sé búið að taka vissa hluti að láni og þess vegna verði ekki aftur snúið með þær ákvarðanir á þessu ári. Þar á ég t. d. við ákvörðun um að fjárfesta í málmblendiverksmiðjunni á Grundartanga upp á 8 milljarða á þessu ári. Það er gert ráð fyrir að með þeim fjárfestingaráformum verði hægt að taka annan ofninn í notkun í september í haust. En það vill einmitt svo til, að á þeim tíma er vetur að ganga í garð og þá verður ekkert rafmagn til að nota við bræðslu í þessum ofni. Þetta leiðir hugann að því, hvort röðun framkvæmdanna er ekki röng. Það hefði verið eðlilegt að seinka þessum framkvæmdum um hálft ár og sjá til þess að ofninn kæmi í gagnið næsta vor þegar vetur væri liðinn og raforkuframleiðsla væri farin að aukast. Þessi framkvæmd er snarvitlaust tímasett. Í sjónvarpi urðu þeir um það ásáttir, formaður fjvn., hv. 5. þm. Vesturl., og forstjóri málmblendiverksmiðjunnar, að það skipti miklu máli að raða framkvæmdum rétt, í rétta röð. Ég vildi gjarnan að upplýst yrði hér hvernig á því stendur, að þessi ákvörðun er tekin um 8 milljarða til að byggja á þessu ári ofn sem fær ekkert rafmagn fyrr en næsta vor.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri hér. Ég sé að hæstv. forseti Nd. er farinn að verða órólegur og hefur hug á að hafa sætaskipti sem fyrst.