21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Hæstv. forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt er verðlagsár vegna framleiðslu búvöru annað en fjárhagsár ríkissjóðs og sú tilhögun hefur ávallt verið höfð, að í fjárl. eru áætlaðar útflutningsbætur vegna verðlagsárs frá 1. sept. næsta ár á undan og til sama tíma á fjárhagsári ríkissjóðs. Samkv. nýjustu áætlun Hagstofu Íslands nemur leyfilegt hámark verðábyrgðar ríkissjóðs vegna útflutnings landbúnaðarafurða á verðlagsárinu 1978–1979 alls 5 621 803 300

kr. Til greiðslu á þessari verðábyrgð voru samþykktar í fjárl. 5337 millj. kr. og hefur öll sú fjárhæð verið greidd. Þar að auki hefur verið greidd aukafjárveiting sem fyrrv. ríkisstj. samþykkti, að upphæð 189 millj. kr., en þar af voru 125.2 millj. kr. eftirstöðvar frá verðlagsárinu 1977–1978 og þá upphæð ber því ekki að skoða sem greiðslu vegna framleiðslu verðlagsársins 1978–1979. Þar að auki voru greiddar í lok ársins 1978 fyrir fram upp í útflutningsbætur á árinu 1979 802 millj. kr. Samtals hafa því á þessu ári þegar verið greiddar útflutningsbætur úr ríkissjóði vegna verðlagsársins 1978–1979 að upphæð 6202 millj. kr. eða 581 millj, kr. umfram það 10% hámark sem lög leyfa. Það er því ekki rétt, að á skorti að ríkissjóður hafi greitt löglegar verðábyrgðir vegna útfluttra landbúnaðarafurða, þvert á móti hefur þegar verið greidd úr ríkissjóði 581 millj, kr. umfram það sem lög raunverulega leyfa.

Ég vil aðeins taka það fram í þessu sambandi, að það hefur oft gerst að uppgjör vegna útflutningsbóta á landbúnaðarafurðir hefur verið dregið fram yfir áramót, þannig að það eru mörg fordæmi fyrir því, að lokagreiðsla á verðábyrgðarfé hafi ekki verið innt af hendi fyrr en eftir áramót á því fjárhagsári sem ábyrgðin átti til að falla á. Núv. ríkisstj. gerði hins vegar þá samþykkt í nóvembermánuði, þegar vantaði enn röskar 380 millj. kr. upp á að hámark verðábyrgðarinnar yrði greitt, að lokið yrði greiðslu á þessu fé fyrir 15. des. s.l., og hefur verið við það staðið, því að eins og ég sagði í máli mínu áðan hefur full verðábyrgð vegna framleiðslu verðlagsársins 1978–1979 þegar verið greidd og raunar 581 millj. kr. fram yfir lögleg mörk í því sambandi.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði einnig að það hefði verið samþ. 28. des. 1978 í fyrrv. ríkisstj., að auk þessara greiðslna, sem ríkissjóði ber lögum samkv. að greiða, skyldi á árinu 1978 og framvegis verða greidd fyrirframgreiðsla á útflutningsbótum vegna framleiðslu næsta verðlagsárs, þ.e. að til ættu að falla fyrir árslok 1979 í þessu tilviki útflutningsbætur vegna framleiðslu fjögurra fyrstu mánaða verðlagsársins 1979–1980, þannig að við þá fjárhæð, sem ég hef hér nefnt að ríkissjóður hefur greitt og rúmlega það, ætti að bætast á þessu ári fyrirframgreiðsla vegna framleiðslu verðlagsársins 1979–1980, fjóra fyrstu mánuðina.

Hinn 28. des. 1978 var svofelld bókun gerð á fundi ríkisstj., með leyfi hæstv. forseta:

„Landbrh. lagði fram till. um fyrirkomulag á greiðslum vegna landbúnaðarafurða, dags. 28. des. 1978, ásamt drögum um fyrsta áfanga nál. um afurða- og rekstrarlán í landbúnaði. Engin aths. var gerð, og mun landbrh. vinna að framgangi málsins í samráði við fjmrh. og Seðlabanka Íslands.“

Það er ekki bókað þessi till. hafi verið samþ., heldur að ríkisstj. hafi enga aths. við hana gert og að landbrh. muni vinna að framgangi málsins í samráði við fjmrh. Menn geta svo að sjálfsögðu haft sína skoðun á því, hvort þetta telst vera samþykki ríkisstj. eða ekki. En látum það liggja milli hluta vegna orðalags till. sem upp var borin. Hún hljóðar svo, 1. tölul. hennar:

„Fullgildir verðábyrgðarreikningar til ríkissjóðs vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum verði greiddir mánaðarlega óháð verðlagsári landbúnaðarafurða, þótt heildarupphæð sé gerð upp í lok hvers verðlagsárs.“ Þetta er 1. mgr. 1. tölul. — 2. mgr. 1. tölul. hljóðar svo: „Samkv. því verði á fjárl. gert ráð fyrir upphæð til greiðslu útflutningsbóta vegna útflutnings á síðustu átta mánuðum fyrra verðlagsárs og fjórum fyrstu mánuðum nýs verðlagsárs.“

Það eru sem sé í þessari till. öll tvímæli tekin af um það, að til þess að 1. mgr. till. verði framkvæmd verði á fjárl. að gera ráð fyrir upphæð til greiðslu útflutningsbóta vegna hennar. 2. mgr. 1. tölul. tekur þannig af öll tvímæli um að til þess að hún verði framkvæmd verði að vera búið að ákvarða til þess fé á fjárl., þannig að menn þurfi ekki að deila um hvort þarna hafi verið gerð samþykkt í ríkisstj. eða ekki, því að þó samþykktin hafi verið gerð liggur þetta ljóst fyrir. Það liggur líka ljóst fyrir að ekkert viðbótarfé var veitt til þessarar samþykktar á árinu 1979, og ég fæ ekki heldur séð að hún hafi verið höfð í huga við samningu fjárlagafrv. þess sem lagt var fram í októbermánuði s.l., þannig að hvorki fjárlög yfirstandandi árs né fjárlagafrv., sem lagt var fram í októbermánuði s.l., gerðu ráð fyrir að við 1. mgr. 1. gr. till. væri staðið. Það er því samdóma álit núv. ríkisstj. og fjmrn., að ekki sé heimild fyrir þessum greiðslum, það skorti heimild til þess að greiða megi úr ríkissjóði útflutningsuppbætur vegna framleiðslu verðlagsársins 1979–1980, eins og um hefur verið rætt. Og að sjálfsögðu greiði ég ekki fé úr ríkissjóði í heimildarleysi.

Þá er spurt í þriðja lagi um niðurgreiðslur, en til niðurgreiðslna á vöruverði voru leyfðar í fjárl. alls 18 903 millj. kr. Samþykktar aukafjárveitingar hafa numið 300 millj. kr., þannig að samþykktir og heimildir liggja fyrir um greiðslu 19 milljarða 203 millj. kr. í niðurgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1979. Hins vegar hafa verið greiddir 20 milljarðar 924 millj. í þessu skyni eða 1721 millj. umfram það sem fjárlög og samþykktar aukafjárveitingaheimildir leyfa. Ljóst var að sá dráttur, sem varð á að samræma niðurgreiðslureglur fjárlagaforsendum, mundi hafa í för með sér auknar niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Áætlað var að um það bil 1400 millj. kr. mundu bætast við af þessum sökum. Nú þegar hafa verið greiddar 1721 millj. kr. í þessu skyni í stað þeirra 1400 millj. kr. sem áætlaðar voru, eins og ég sagði áðan, og nú fyrir örfáum dögum voru lagðir fram í fjmrn. reikningar fyrir öðrum 1700 millj. kr. til viðbótar, þannig að með því yrði farið langt fram yfir leyfileg mörk, eins og Alþ. hefur afgreitt þau, til niðurgreiðslna á árinu 1979. Það er því ljóst, að fé fyrir síðast nefnda reikningnum er ekki til í ríkissjóði, það er ekki heimild til þess að greiða hann og sá reikningur verður því ekki greiddur fyrr en eftir áramót.