07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

181. mál, Iðnþróunarsjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram, er um breyt. á lögum nr. 9 frá 13. febr. 1970, um Iðnþróunarsjóð og hljóðar svo:

„1. gr.: Aftan við 1. gr. laganna komi tvær nýjar mgr., svo hljóðandi:

Ríkisstj. er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á samningum sem gerðir voru í Reykjavík 29. apríl 1980.

Texti breytinganna fylgir lögum þessum og teljast þær hluti af þeim. Þegar þær hafa öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði samningsins þannig breytt hafa lagagildi hér á landi.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Fskj. er hluti af sjálfu lagafrv. og segir raunar efnislega um hvað málið fjallar. Í því eru greindar þær breytingar sem lagt er til í frv. að ríkisstj. fái heimild til að staðfesta, en breytingar þessar voru gerðar í Reykjavík 29. apríl 1980. Í marsmánuði s. l. samþykkti ríkisstj. að fela iðnrh. að láta ganga formlega frá þessum breytingum og flytja síðan frv. til l. um breyt. á lögum svo breytingarnar fái lagagildi.

Þær breytingar, sem hér liggja fyrir, voru upphaflega samþykktar efnislega og einróma af stjórn sjóðsins á fundi í Finnlandi 26. febr. 1980. Í umsögn um einstakar greinar á bls. 4 í frv. er 1. gr. samningsins, eins og hún er í lögum nr. 9/1970, tekin orðrétt upp, en hún er svo hljóðandi:

Ríkisstj. er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd samning ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns iðnþróunarsjóðs fyrir Ísland (Nordisk Industrialiseringsfond for Ísland), sem gerður var í Reykjavík 12. des. 1969. Texti samningsins fylgir lögum þessum og telst hluti af þeim og skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.“

Með frv. bætast svo við greinina þær tvær mgr. sem eru í 1. gr. þess. Í umsögninni um 1. gr. frv. eru og tekin upp orðrétt ákvæði hins upphaflega samnings um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland frá 12. des. 1969. Ég tel rétt að lesa orðrétt þau ákvæði samningsins sem lagt er til að breytingarnar verði gerðar á. 2. liður samningsins frá 1969 hljóðar þannig:

„Stofnfé sjóðsins skal vera jafnvirði 14 milljóna Bandaríkjadollara. Af stofnfénu skal hvert Norðurlandanna leggja fram eftirfarandi hluta (í milljónum Bandaríkjadollara): Danmörk 2.7, Finnland 2.7, Ísland 0.5, Noregur 2.7 og Svíþjóð 5.4.

Stofnféð skal lagt fram vaxtalaust til ráðstöfunar í jafnstórum árlegum fjárhæðum á fjögurra ára tímabili frá gildistökudegi samningsins.

Sjóðurinn skal innheimta framlögin hjá hinum norrænu ríkjum í samræmi við áðurgreinda skiptingu eftir því sem starfsemi hans krefur.

Frá 10. ári skal sjóðurinn eftir nánari ákvörðun sjóðsstjórnarinnar endurgreiða vaxtalaust í áföngum á næstu 15 árum í samræmi við áðurgreinda skiptingu til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar jafnvirði framlaga þeirra. Skal endurgreiðslu þessara framlaga að fullu lokið að enduðum 25 árum frá stofnun sjóðsins.

Ábyrgð Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar á skuldbindingum sjóðsins er takmörkuð við hlutdeild þeirra í stofnfénu á hverjum tíma. Ísland er á sama hátt ábyrgt fyrir skuldbindingum sjóðsins með sínum hluta stofnfjárins og ber auk þess eitt ábyrgð á þeim skuldbindingum umfram stofnféð, sem sjóðurinn kann að taka á sig vegna ábyrgða, sbr. 4. lið.

Þegar Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eiga ekki lengur hlutdeild í stofnfé sjóðsins samkv. áður nefndum ákvæðum um endurgreiðslu, fellur samningur þessi úr gildi og sjóðurinn verður eign og undir stjórn íslenska ríkisins.“

Breytingin, sem lögð er til í frv., er sú að á eftir orðunum í síðustu línu 5. málsgreinar „á sig vegna ábyrgða“ komi: og lántöku. Mun ég víkja nánar að þessu atriði síðar.

Í umsögninni um 1. gr. er enn fremur tekinn orðrétt upp 4. liður samningsins, en hann hljóðar þannig: „Sjóðurinn starfar að verkefni sínu með því:

a) Að veita lán til ákveðinna verkefna, annaðhvort einn eða í samvinnu við aðra aðila.

b) Að ábyrgjast lán, sem veitt eru af öðrum aðilum.

Fé til lánveitinga fær sjóðurinn af stofnfé sínu og tekjum og skulu lánveitingar ákveðnar í samræmi við viðurkennd bankaleg og efnahagsleg sjónarmið. Sjóðurinn skal stefna að því að tryggja eðlilega ávöxtun stofnfjárins og forðast ónauðsynlega áhættu.

Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita lán með sérlega hagstæðum kjörum eða framlög, m. a. til tækniaðstoðar, rannsókna og markaðsathugana. Slík lán eða framlög mega samtals ekki nema minna en 10% af stofnfénu.

Lán, framlög eða ábyrgðir má veita til fyrirtækja í einkaeign eða í eign opinberra aðila og til fjárfestingarlánasjóða sem hafa sama tilgang og sjóðurinn.

Sjóðurinn skal hafa náið samstarf við íslenskar lánastofnanir, sem veita lán til iðnaðar.“

Þær breytingar, sem lagt er til í frv. þessu að gerðar verði á þessum lið, eru þær, að á eftir orðunum í upphafi 2. mgr. „Fé til lánveitinga fær sjóðurinn af stofnfé sínu og tekjum“ komi orðin: og með lántöku, svo og að í sömu mgr. á eftir orðunum „Sjóðurinn skal stefna að því að tryggja eðlilega ávöxtun stofnfjárins“ komi: og þess fjár er hann tekur að láni. — Þá er einnig breyting í 3. mgr. Á eftir orðunum „Slík lán eða framlög mega samtals ekki nema meiru en 10% af stofnfénu“ komi: Frá og með árinu 1980 er í sama tilgangi heimilt að ráðstafa til viðbótar 10% af eigin fé sjóðsins eins og það verður í byrjun ársins 1980, auk 10% af rekstrarafgangi hvers árs, í fyrsta skipti af rekstrarafgangi ársins 1980.

Með breytingum þeim á lögunum og samningnum, sem lagðar eru til í frv. þessu, fær sjóðurinn heimild til lántöku til að fjármagna almenna lánastarfsemi og til að veita lán eða framlög til viðbótar 10% af stofnfé sjóðsins í sérstökum tilvikum. Viðbótin er 10% af eigin fé eins og það verður í byrjun ársins 1980 svo og 10% af rekstararafgangi hvers árs, í fyrsta skipti af rekstrarafgangi ársins 1980.

Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá stofnun sjóðsins, en hann var stofnaður með samningi ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, dags. 12. des. 1969. Samkv. lögum um Iðnþróunarsjóð skal sjóðurinn hafa sérstaka stjórn, framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóra. Stjórnin er skipuð fimm aðalmönnum og fimm varamönnum, einum frá hverju landi. Stjórnin tekur ákvarðanir um málefni sjóðsins, en felur, eftir því sem æskilegt er talið, framkvæmdastjórninni að taka ákvarðanir um starfsemina. Framkvæmdastjórnin er skipuð fjórum fulltrúum íslenskra viðskiptabanka, einum fulltrúa frá Iðnlánasjóði og auk þess framkvæmdastjóra sjóðsins. Á árinu 1979 kom stjórn sjóðsins tvisvar saman til fundar, í Stokkhólmi og á Akureyri.

Enginn vafi er á því að Iðnþróunarsjóður skapaði ný viðhorf varðandi möguleika íslenskra iðnfyrirtækja til að fjármagna uppbyggingu og endurnýjun á sviði iðnaðar. Tilgangur sjóðsins er og hefur verið að efla tækniþróun og iðnþróun á Íslandi í framhaldi af aðild landsins að EFTA og að auðvelda aðlögun iðnaðarins að breyttum markaðsaðstæðum, stuðla að þróun útflutningsiðnaðar og leggja áherslu á samstarf á sviði iðnaðar og viðskipta milli Íslands og hinna Norðurlandanna.

Frá upphafi hefur ráðstöfunarfé sjóðsins einungis verið stofnfé hans, en samkv. stofnsamningi hans er það jafnvirði 14 millj. Bandaríkjadollara, auk árlegra vaxta og afborgana af veittum lánum. Svo sem fram kemur í aths. við lagafrv. nemur fjárhæð útborgaðra lána 6 milljörðum 59 millj. kr. á verðlagi hvers árs. Ef sú fjárhæð er umreiknuð til verðlags ársins 1979, miðað við vísitölu byggingarkostnaðar, er hún 20 milljarðar 999 millj. kr. eða nánast 21 milljarður kr. Í aths. er greint frá hlutfallslegri skiptingu lána á tímabilinu 1970–1979. Á því yfirliti sést að hlutfallslega flest lán og mest fjármagn hefur farið til uppbyggingar í ullariðnaði og til vinnslu fata úr ull. Árangur þessarar uppbyggingar hefur komið best í ljós á síðustu árum, en eins og kunnugt er hefur mest aukning verið á ullarafurðum í útflutningi iðnaðarvara. Í heild er áætlað að um 40% af lánum sjóðsins til þessa hafi verið veitt vegna útflutningsiðnaðar og um 60% vegna heimamarkaðsiðnaðar.

Fram til þessa hefur sjóðurinn getað annað eftirspurn eftir lánum til arðvænlegra framkvæmda í iðnaði. Nú er hins vegar svo komið að fyrirsjáanlegt er að svo verði ekki næstu árin. Stafar það í fyrsta lagi af því, að á þessu ári munu hefjast endurgreiðslur stofnfjárins, og í öðru lagi af aukinni eftirspurn eftir lánsfé til framkvæmda í iðnaði. Vegna þessa er talin ástæða til að afla heimilda til lántöku til að fjármagna almenna lánastarfsemi og til að endurlána til sérstakra framkvæmda í iðnaði. Til þess að sjóðurinn geti verið sú stoð og stytta sem honum var ætlað að vera er nauðsynlegt að þær breytingar sem gerðar hafa verið á samningnum og ætlað er að verði lögfestar, verði samþykktar af Alþingi svo að þær fái lagagildi.

Ýmis af þeim verkefnum, sem sjóðurinn hafði frumkvæði að og hefur styrkt hafa verið yfirtekin af öðrum, svo sem af Iðntæknistofnun, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins og samtökum iðnaðarins, og er þar einkum átt við verkefni sem,styrkir hafa runnið til. Stjórn sjóðsins telur engu síður nauðsynlegt að auka heimildir til að veita styrki og hagstæð lán til ýmissa verkefna, og er því talið nauðsynlegt að afla aukinna heimilda til ráðstöfunar fjár í þessu skyni.

Herra forseti. Minnst verður 10 ára afmælis Iðnþróunarsjóðs með fundi og hátíðarsamkomu hér í Reykjavík síðar í þessum mánuði, og legg ég áherslu á að mál þetta hljóti afgreiðslu nú á þinginu, enda ætti það að vera ágreiningslaust. Á sama hátt hefur verið leitað eftir staðfestingum á nefndum breytingum hjá stjórnvöldum annarra Norðurlanda og við undirbúning málsins að því leyti verið höfð samvinna við utanrrn.

Ég tel ekki þörf að fjölyrða frekar um frv. þetta, en leyfi mér að óska þess, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni umr. hér í hv. d. og til hv, iðnn.