07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér hefur verið lagt fram um Iðnrekstrarsjóð, er í ellefu greinum og því fylgja ítarlegar aths. um frv. sjálft svo og um einstakar greinar þess. Þá fylgir frv. sem fskj. minnisblað til iðnrh., dags. 26. apríl 1980, frá Samstarfsnefnd um iðnþróun.

Lög um Iðnrekstrarsjóð eru nr. 61 frá 30. apríl 1973. Í þeim lögum er ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi: „Lög þessi, svo og önnur lög um lánasjóði iðnaðarins, skal taka til endurskoðunar hið fyrsta með það fyrir augum að sameina sjóðina og verkefni þeirra.“

Árið 1975 skipaði þáv. iðnrh., dr. Gunnar Thoroddsen, nefnd til að endurskoða lög um Iðnrekstrarsjóð svo og lög annarra sjóða iðnaðarins með sameiningu sjóðanna fyrir augum. Þáv. aðstoðarmaður iðnrh., Þorvarður Alfonsson, var formaður þessarar nefndar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að sameining lánasjóða iðnaðarins væri ekki raunhæf eða æskileg, en í stað sameiningar sjóðanna bæri að auka samstarf þeirra, svo sem með sameiginlegri skrifstofuaðstöðu, bókhaldi, lögfræðiaðstoð, innheimtu o. fl. Benti nefndin í þessu sambandi á samstarf við Iðnlánasjóð innan Iðnaðarbanka Íslands hf.

Skoðun sú, sem fram kom hjá nefnd þessari, er enn ríkjandi meðal aðila iðnaðarins, að ekki sé rétt að stefna að sameiningu iðnrekstrarsjóðs við aðra sjóði, en aftur á móti er fullur vilji fyrir samhæfingu og samstarfi milli sjóðanna eftir því sem við á. Hef ég að athuguðu máli fallist á þau viðhorf og lagt áherslu á aukið samstarf og verkaskiptingu milli sjóðanna.

Á s. l. ári skipaði ég sem iðnrh. í þáv. ríkisstj. nefnd til að endurskoða lögin um Iðnrekstrarsjóð og gera tillögur til rn. í þeim efnum. Í nefnd þessari áttu sæti: Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Samstarfsnefndar um iðnþróun, og var hann jafnframt formaður nefndarinnar, Sigurður Magnússon rafvirki, sem einnig á sæti í Samstarfsnefnd um iðnþróun, Valur Valsson framkvæmdastjóri Félags ísl, iðnrekenda og Þórleifur Jónsson framkvæmdastjóri Landssambands iðnaðarmanna. Í skipunarbréfinu sagði svo m. a.:

„Lögin skulu endurskoðuð með tilliti til eftirfarandi atriða:

1. Víkkaðs hlutverks sjóðsins vegna þeirrar stefnu rn., að tekjur af aðlögunargjaldi og hugsanleg síðari framlög renni til hans og nýtist til umbóta í iðnaði á breiðari grundvelli en verið hefur.

2. Landssamband iðnaðarmanna fái aðild að stjórn sjóðsins.

3. Að framlög af aðlögunargjaldi og önnur framlög, sem ákveðin kunna að verða, teljist stofnfé sjóðsins og megi ráðstafa samkv. því.

4. Önnur atriði er nauðsynleg kunna að reynast við nánari athugun til að sjóðurinn geti sem best gegnt hlutverki sínu.“

Frv. það, sem hér hefur verið lagt fram ásamt aths., er í aðalatriðum samhljóða tillögum nefndarinnar. Einn nm. gerði fyrirvara um skipan stjórnar sjóðsins, þ. e. að hún yrði skipuð fimm mönnum í stað sjö, eins og frv. gerir ráð fyrir, og að tilnefningarréttur Sambands ísl. samvinnufélaga og Alþýðusambands Íslands félli niður. Báðir þessir aðilar hafa átt aðild að stjórn sjóðsins frá stofnun hans, og taldi rn., eins og meiri hl. nefndarinnar svo og ríkisstj., ekki réttmætt að gera þar breytingu á. Þannig eiga aðild að stjórn sjóðsins samkv. frv.: iðnrn., sem skipar formann sjóðsstjórnar, fulltrúi Iðnþróunarsjóðs, Landssamband iðnaðarmanna. Samband ísl. samvinnufélaga, Alþýðusamband Íslands, Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnverkafólks. Ástæðan fyrir aðild Iðnþróunarsjóðs að stjórn sjóðsins er að tryggja samhæfingu varðandi starf sjóðanna um styrkveitingar og lánveitingar. Iðnrh. skipar, eins og ég gat um áðan, formann, en hver hinna fyrrgreindu aðila sinn stjórnarmanninn hver. Þar sem umtalsverðar breytingar eru áformaðar varðandi hlutverk sjóðsins, stofnfé og ráðstöfunarfé þótti réttara að leggja fram hér á Alþingi nýtt frv. um sjóðinn en leggja fram frv. til breyt. á lögum nr. 61 frá 1973.

Ég tel ekki ástæðu til að rifja hér upp nema takmarkað úr hinum ítarlegu aths. við lagafrv., en mun þó nefna sitt hvað það sem meginmáli skiptir.

Í álitsgerð Samstarfsnefndar um iðnþróun, svokallaðri Iðnaðarstefnu, sem lögð var fram sem fylgiskjal með þáltill. í maí 1979 og hv. alþm. eiga að hafa undir höndum, segir m. a. á bls. 86:

„Samstarfsnefndin leggur til, að aukinn verði sá þáttur í fjárstuðningi opinberra sjóða, er miðar að því að styðja hvers konar iðnþróunaraðgerðir og nýsköpunarviðleitni í iðnaði, með því að veita fyrirtækjum og stofnunum áhættulán og styrki til vel skilgreindra þróunarverkefna.“

Eftir setningu laga á s. l. ári um aðlögunargjald á innfluttar iðnaðarvörur, sem renna skyldi til iðnþróunaraðgerða, mótaði rn. þá stefnu að verulegur hluti tekna af gjaldinu skyldi renna til Iðnrekstrarsjóðs til eflingar honum. Jafnframt var ákveðið að endurskoða lög sjóðsins með það fyrir augum að víkka hlutverk hans, breyta stjórnaraðild í samræmi við það og endurskoða önnur atriði til að tryggja sem árangursríkast starf sjóðsins.

Með vaxandi alþjóðlegri samkeppni og sífellt örari breytingum á tækni og kröfum markaðar hefur áhættan við þróun nýrra afurða og framleiðsluaðferða og við stofnsetningu nýrra fyrirtækja aukist verulega. Hafa flestar þróaðar þjóðir, sem svo eru kallaðar, gripið til þess ráðs að styðja við nýsköpunarviðleitni með því að veita hagstæð áhættulán og styrki í þeim tilgangi að treysta grundvöll atvinnulífsins. Stuðningur við nýsköpun og aðlögun að breyttum samkeppnisskilyrðum hefur reynst mun árangursríkari aðferð en beinir styrkir til rekstrar og fjárfestingar í greinum og fyrirtækjum sem eiga í samkeppniserfiðleikum. Má í því sambandi minna á reynslu annarra Norðurlandaþjóða í þessu efni á undanförnum árum, en þær hverfa nú í vaxandi mæli frá beinum styrktar- eða stuðningsaðgerðum við iðngreinar, sem lent hafa í erfiðleikum, og reyna að vinna sig á annan hátt út úr þeim, einmitt með aukinni þróunaraðstoð.

Meginatriði þessa frv. um Iðnrekstrarsjóð eru:

1 Að fá sjóðnum víðtækara hlutverk í stuðningi við nýsköpun í iðnaði þannig að starf hans takmarkist ekki við útflutningsviðleitni svo sem núverandi lög gera ráð fyrir. Verði stefnt að sem líkustu fyrirkomulagi og gildir í starfi hliðstæðra sjóða í svokölluðum samkeppnislöndum.

2. Að breyta ákvæðum um verkefnaval, starfshætti og stjórnaraðild í samræmi við slíkt víðtækara hlutverk og aukin fjárráð sem sjóðnum eru ætluð.

3. Að gera ákvæði um stuðningsform fyllri og skýrari en áður var. Þannig á að gera sjóðnum kleift að veita viðbótarlán og ábyrgðir gagnvart viðskiptabönkum og fjárfestingarlánasjóðum.

4. Að tryggja sjóðnum tekjur sem ekki rýrni í verðbólgu, í samræmi við aukið hlutverk sjóðsins og í samræmi við stefnu um eflingu iðnaðar í landinu, og gera sjóðnum kleift að sinna hlutverki sínu með veitingu styrkja og áhættulána.

Þetta eru undirstöðuatriði ef sjóðurinn á að geta gegnt hlutverki sínu.

Öllum má vera ljóst að rannsókna- og þróunarstarfsemi er einn af mikilvægum þáttum umbótastarfs í iðnaði. Athuganir, sem gerðar hafa verið á vegum Rannsóknarráðs ríkisins, hafa leitt í ljós að íslensk fyrirtæki leggja fram til slíkra mála langtum minna en samkeppnisfyrirtæki á Norðurlöndum. Ef ætla skal íslenskum iðnaði að standast óhefta samkeppni verða annars vegar að koma til ný viðhorf hjá fyrirtækjum og hins vegar hvatning af hálfu hins opinbera til aukinna rannsókna og til skylds umbótastarfs í fyrirtækjum. Með því að beina auknu fjármagni til rannsókna á sviði iðnaðar gegn mótframlögum frá fyrirtækjum má án efa hafa veruleg áhrif í þessa átt. Með frv. þessu er tekin sú stefna að Iðnrekstrarsjóður geti gegnt því hlutverki að styðja slíkt starf.

Um starfsemi sjóðsins til þessa segir m. a. á bls. 11 í frv.:

„Iðnrekstrarsjóður, sem stofnaður var með lögum nr. 61 frá apríl 1973, hefur starfað frá haustinu 1973. Alls hefur hann fjallað um nálægt 400 umsóknir og hafa útborguð lán og styrkveitingar verið svo sem hér segir á verðgildi viðkomandi árs: 1973 8 millj., 1974 53.1, 1975 55.4, 1976 84.9, 1977 126.9, 1978 120.2 og 1979 186.6.“

Hlutfallið milli lána og styrkja hefur verið nokkuð breytilegt á þessu tímabili og hlutfall styrkja farið verulega lækkandi þegar á heildina er litið. Árið 1978 voru umsóknir 48, en 69 talsins árið 1979.

„Málefni er varða erlenda markaðsöflun hafa haft algjöran forgang (73% af stuðningi sjóðsins 1979) og gildi umsókna fyrir aukinn iðnaðarútflutning að jafnaði látið vega þungt við ákvarðanir um stuðning. Takmörkuð fjárráð og raunar rýrnandi ráðstöfunarfé að raungildi hefur dregið úr mætti sjóðsins til að halda uppi kynningu á stuðningsmöguleikum sínum og aðstoða fyrirtæki við að móta stuðningshæf verkefni. Reynsla hliðstæðra sjóða erlendis er einmitt sú, að slík aðstoð sé nauðsynleg.“

Ég mun nú víkja að þeim greinum frv. sem mestu mála skipta, en treysti því að sú n., sem fær málið væntanlega til meðferðar, geri samanburð á gildandi lögum nr. 61/1973 um Iðnrekstrarsjóð og þessu frv., eftir því sem ástæða þykir til.

Í 1. gr. frv. segir:

„Starfrækja skal Iðnrekstrarsjóð til að styðja við umbótastarf í iðnaði í þeim tilgangi:

— að auka útflutning iðnaðarvarnings,

— að auka samkeppnishæfni íslensks iðnaðar á innlendum og erlendum markaði,

— að örva nýsköpun í átt til aukinnar og bættrar framleiðslu í iðnaði,

— að auka framleiðni í samkeppnisiðnaði.

Stefnt skal að sem líkustu fyrirkomulagi og gildir í þessum efnum í samkeppnislöndum Íslendinga.“

Í 6. gr. frv. segir:

„Hlutverk sitt samkv. 1. gr. skal sjóðurinn rækja m. a. með eftirfarandi aðgerðum:

1. Styrkjum og framlögum sem fyrst og fremst verði heitt á sviði útflutnings- og markaðsstarfsemi, en einnig til þróunarverkefna, sem geta haft mikilvæg áhrif á almenna eflingu iðnaðar, ekki síst til framleiðniaukningar.

2. Áhættulánum, sem fyrst og fremst verði notuð til stuðnings vöruþróunar, hönnunar og ýmissa annarra nýsköpunarverkefna. Heimilt er að hafa áhættulán afborgunarlaus um tíma og jafnframt að afskrifa lánin, heppnist verkefnið ekki.

3. Ábyrgðum gagnvart viðskiptabönkum og fjárfestingalánasjóðum.

4. Kaupum og sölu á hlutabréfum í starfandi fyrirtækjum og þátttöku í stofnun nýrra hlutafélaga.

5. Viðbótarlánum vegna fjárfestinga. Lán þessi geta jafnframt verið áhættulán.

Í því sambandi skal höfð hliðsjón af svæðisbundnum áætlunum er hlotið hafa staðfestingu stjórnvalda.“

Ef borin eru saman ákvæði núverandi laga og frv. kemur í ljós mjög víkkað starfssvið sjóðsins. Í l. gr. frv.

koma, eins og áður var getið, fram markmið sjóðsins og enn fremur sú stefnumótun að hann skuli starfa á svipaðan hátt og slíkir sjóðir og stofnanir í nágrannalöndum. Samkv. athugunum, sem gerðar hafa verið, eru hliðstæðir sjóðir, er styðja umbótastarf í iðnaði, víða margir erlendis og er því hlutverk Iðnrekstrarsjóðs samkv. frv. haft víðara en ella. Markmiðið er að reyna að skapa íslenskum iðnaði sem mest jafnræði á við iðnað í samkeppnislöndum.

Í umsögninni um 6. gr. segir:

„Með þessari grein eru veittar heimildir í lögum til þeirra sérstöku tegunda stuðnings, sem Iðnrekstrarsjóði er ætlað að veita.

1. Styrkir og framlög sem aðallega verði beitt í tengslum við erlenda markaðsöflun og markaðsaðlögun, en einnig til þróunarverkefna, sem hafa mikla þýðingu fyrir þróun heilla greina eða iðnaðarins í heild og stjórnin telur falla að markmiðum sjóðsins.

2. Áhættulán sem heimilt er að hafa afborgunarlaus um tíma og afskrifa ef verkefni skila ekki árangri, enda sæki viðkomandi fyrirtæki um slíka eftirgjöf. Nauðsynlegt er að stjórnin móti fastar reglur um skilyrði fyrir slíkri eftirgjöf.

3. Ábyrgðir sem sjóðurinn getur veitt fyrirtækjum vegna lána frá öðrum sjóðum og viðskiptabönkum til að koma nýrri áhættusamri framleiðslu af stað, þegar fullnægjandi veð eru ekki fyrir hendi hjá viðkomandi fyrirtækjum. Heildarupphæðir ábyrgða sjóðsins verði á hverjum tíma að hámarki bundnar við 60% af eigin fé sjóðsins.

4. Kaup og sala hlutabréfa og þátttaka í stofnun fyrirtækja. Ætlast er til að heimild þessari sé beitt einvörðungu þegar umtalsverðir iðnaðarhagsmunir eru í veði, er samrýmast tilgangi sjóðsins og þátttaka hans getur haft veruleg áhrif til framfara.

5. Viðbótarlán til fjárfestinga, þar sem lán almennra fjárfestingalánasjóða hrökkva ekki til og um er að ræða framkvæmdir sem geta haft umtalsverða þýðingu fyrir skipulagsbreytingar og þróun innan ákveðinna greina iðnaðar í heild. Heimilt er að veita slíkt viðbótarlán sem áhættulán, er verði afskrifuð eða víki fyrir fjárfestingarlánum, ef ekki verður árangur af framkvæmdinni. Nauðsynlegt er að stjórn sjóðsins móti fastar reglur um veitingu viðbótarlána.“

Eðlilegt er einnig að í sambandi við þetta sé litið til þeirra svæðisbundnu áætlana um iðnþróun og atvinnuuppbyggingu sem stjórnvöld hafa ákveðið að styðja við sérstaklega.

Þá vil ég og benda á ábyrgðir gagnvart viðskiptabönkum og fjárfestingarlánasjóðum. Um ábyrgðirnar er fjallað í fskj. með frv. og segir þar á bls. 16:

„Þar sem hlutverk Iðnrekstrarsjóðs er að örva útflutning, nýsköpun og framleiðni og þar sem gert er ráð fyrir að hann taki á sig áhættu í starfsemi sinni, er eðlilegt að hann sinni einnig þörfum iðnfyrirtækja fyrir ábyrgðir. Í fyrsta lagi er hér um að ræða ábyrgðir til viðskiptabanka vegna lánsþarfa, sem skapast vegna framleiðslu sérstakra útflutningspantana. Mörg fyrirtæki, sem eru að reyna að hasla sér völl í útflutningi, geta ekki sett veð, sem viðskiptabankar telja nauðsynleg fyrir lánum vegna framleiðslu á útflutningsvörum. Iðnrekstrarsjóður gæti hér hlaupið undir bagga. Í annan stað er algengt, að ný fyrirtæki eða fyrirtæki, sem eru að leggja út í hlutfallslega mikla endurnýjun og umsköpun á vélakosti og starfsaðstöðu, hafi ekki fasteignaveð sem fjárfestingarlánasjóðir telja nauðsynleg. Hér gæti Iðnrekstrarsjóður komið til skjalanna og gengið í ábyrgð fyrir fyrirtækin gagnvart fjárfestingarlánasjóðum. Um væri að ræða áhættustarfsemi á vegum sjóðsins, en reynt væri að halda áhættu í lágmarki með því að fylgjast vel með viðkomandi fyrirtækjum.“

Um stofnfé og annað ráðstöfunarfé sjóðsins er fjallað í 5. gr. frv., sem er svo hljóðandi:

„Stofnfé sjóðsins er:

1. Eigið fé Iðnrekstrarsjóðs, eins og það verður við gildistöku þessara laga.

2. Framlag ríkissjóðs samkv. fjárlögum 1980. Annað ráðstöfunarfé sjóðsins er:

a) Framlag ríkissjóðs, er miðist að lágmarki við 0.6% af vinnsluvirði iðnaðar undanfarið ár, samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar, í fyrsta sinn árið 1982, og síðan árlega til og með árinu 1985, en verði þá endurmetið með hliðsjón af þörfum.

b) Önnur bein framlög til sjóðsins.

c) Vaxtatekjur.

d) Afborganir af veittum lánum.

e) Lántökur.

f) Aðrar tekjur.

Allur kostnaður við starfsemi sjóðsins greiðist af tekjum hans. Sjóðurinn er undanþeginn sköttum til ríkis og sveitarfélaga.“

Um 5. gr. frv. segir í aths.:

„Í grein þessari er kveðið á um stofnfé Iðnrekstrarsjóðs, m. a. yfirtöku á eigin fé sjóðsins, sem starfaði eftir lögum nr. 61 frá 1973, eins og það verður við gildistöku þessara laga.

Mikilvægasta ákvæði þessarar greinar varðar lágmarksframlög á árunum 1982–1985, sem er stefnumótandi um starfsmöguleika sjóðsins á þessu tímabili. Á fjárlögum ársins 1980 er ákveðið 100 millj. kr. framlag til Iðnrekstrarsjóðs, en að auki fara 500 millj. kr. til sjóðsins af aðlögunargjaldi á yfirstandandi ári og reiknað er með að svipaðar upphæðir renni til sjóðsins á næsta ári. Áætlað vinnsluvirði iðnaðar 1979 á verðlagi ársins var 96.5 milljarðar án mjólkuriðnaðar, kjötiðnaðar, byggingariðnaðar og fiskiðnaðar, og eru framlög til sjóðsins í ár því alls nálægt 0.60% af því. Hér er lagt til að fram til ársins 1985 verði svipuðu fjármagni að raunvirði veitt til sjóðsins.

Að þessu tímabili loknu verði framlög til sjóðsins endurmetin í ljósi þarfa og þess árangurs sem náðst hefur. Ákvæði greinar þessarar er þannig ekki fastur tekjustofn sjóðsins, heldur bindandi stefnumótun á sviði iðnaðar fyrir ákveðið tímabil.

Gert er ráð fyrir að frá og með árinu 1982 fari niður framlag á fjárlögum til Iðnlánasjóðs, en það nemur 300 millj. kr, í ár. Er útgjaldaaukning ríkisins til sjóða iðnaðarins þannig minni en ella yrði og fremur um tilfærslu að ræða.“

Ég vil vekja sérstaka athygli hv. þdm. á þessu atriði, þar eð í því felst vísbending um stefnumótun varðandi framlög til helsta stofnlánasjóðs iðnaðarins í þá átt að hann njóti ekki framlaga úr ríkissjóði samkv. fjárlögum frá þeim tíma sem aukið yrði framlag til Iðnrekstrarsjóðs. Um þetta var haft samráð við forustumenn fyrir Iðnlánasjóði, sem eins og aðrir, sem á mál þetta hafa litið á undirbúningsstigi, telja mikilvægara að efla Iðnrekstrarsjóð með þeim hætti, sem hér er lagt til, en að halda í ríkisframlög til Iðnlánasjóðs.

Í þessu sambandi er vert að ítreka hlutverk Iðnrekstrarsjóðs sem eins konar fjörefnisgjafa fyrir iðnþróun í landinu, en ekki að veita stofnlán í hefðbundnum skilningi.

8. gr. frv. er svo hljóðandi:

„Stjórn sjóðsins er, með samþykki iðnrh., heimilt að taka lán fyrir hönd sjóðsins. Heimilt er að veita styrki eða framlög sem nema allt að 1/3 af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins, að undanskildum lántökum. Heildarupphæð ábyrgða sjóðsins, samkv. 6. gr. 3. tölul. má á hverjum tíma nema hæst 60% af eigin fé sjóðsins“.

Og í umsögn um hana segir: „Hér er heimild veitt til töku lána í því skyni að auka útlánagetu sjóðsins. Heimild til að veita styrki er takmörkuð við 1/3 af árlegu ráðstöfunarfé að undanskildum lántökum. Eftirgjöf af lánum takmarkar ekki styrkveitingar og framlög. Heimild til að veita ábyrgðir takmarkast við 60% af eigin fé sjóðsins á hverjum tíma.“

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þýðingarmestu greinum frv. og mun ég nú ekki orðlengja þetta öllu frekar. Í títt nefndum stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir svo m. a. í kaflanum um iðnað:

„Starfsemi lánasjóða iðnaðarins verði samræmd og sjóðirnir efldir. Sérstaklega verði Iðnrekstrarsjóði gert kleift að styðja undirstöðuverkefni varðandi iðnþróun.“

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er rennt stoðum undir þetta markmið. Ég þykist þess fullviss að hv. alþm., hvar í flokki sem þeir standa, sé ljós sú brýna nauðsyn að stuðlað verði á skynsamlegan hátt að margvíslegu nýsköpunarstarfi og umbótastarfi í þágu íslensks iðnaðar.

Að undirbúningi frv. þessa hafa unnið aðilar með víðtæka þekkingu á iðnaðarmálum, bæði hérlendis og í nágrannalöndum, og vænti ég þess að ef frv. þetta verður að lögum verði framtíð íslensks iðnaðar bjartari en áður og auðveldara að ná fram þeim markmiðum um iðnþróun sem víðtæk samstaða virðist um.

Ég fer þess á leit, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn., og treysti því að leitast verði við að afgr. málið sem lög frá yfirstandandi Alþingi þótt skammur tími sé til stefnu.