07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. þm. Lárusar Jónssonar við þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram, og veit raunar um góðan skilning hans og þekkingu á iðnaðarmálum og áhuga hans á eflingu innlends iðnaðar, eins og ég vænti allra hv. alþm.

En vegna fsp. hans hét um stöðu útflutningsiðnaðarins nú á síðustu vikum hef ég því miður ekki handbærar tölulegar upplýsingar um þá þróun sem þar hefur orðið í kjölfar þeirra ráðstafana sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir. Það er svo, að úttektir af þessu tagi koma ekki fyrr en nokkru eftir á og helst er það Þjóðhagsstofnun sem reynir að fylgjast með slíku. Það er nauðsynlegt að fá nú á vordögum yfirlit um áhrif af þeim breytingum sem orðið hafa í aðstöðu útflutningsiðnaðarins m. a. vegna hreyfingar á gengi íslensku krónunnar að undanförnu, sem var einn af þeim þáttum sem gripið var til til að bæta stöðu útflutningsatvinnuveganna. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem þarna er við að fást, og geri ráð fyrir að þrátt fyrir þá breytingu og þá hreyfingu í gengi, sem orðið hefur, sé staða ýmissa útflutningsiðnaðarfyrirtækja erfið eftir sem áður. Ég vil þó að fram komi að ég tel að það sé engan veginn einhlít ráðstöfun í sambandi við slíka erfiðleika að hreyfa gengið, þótt oft sé það óhjákvæmileg ráðstöfun. Aðhald á því sviði er nauðsynlegt m. a. til að þrýsta á um breytingar innan fyrirtækjanna, — breytingar sem lúta að sparnaði og hagræðingu þannig að mæta megi kostnaðarauka að hluta eftir þeirri leið, — og einmitt núv. ríkisstj. og iðnrn. hefur viljað rétta iðnaðinum hjálparhönd að þessu leyti. Ákvarðanir um ráðstöfun aðlögunargjalds miðast m. a. við að ná árangri eftir þessari leið, þ. e. með hagræðingu, en það liggur alveg ljóst fyrir að slík aðstoð kemur ekki fram með sama hætti og ef um er að ræða beinar greiðslur til fyrirtækjanna, hvort sem það er af einhverjum mörkuðum tekjustofni eða með öðrum hætti. Það eru hins vegar varanlegri áhrif og vænlegri, horft til lengri tíma, sem þannig nást fram.

Fyrir utan þær breytingar eða hreyfingu á gengi krónunnar, sem orðið hefur að undanförnu, var í marsmánuði, að mig minnir, gripið til sérstakra ráðstafana til að aðstoða ullariðnaðinn, sem er ein þýðingarmesta grein útflutningsiðnaðar okkar, með því að greiða niður eða auka niðurgreiðslu á þýðingarmestu aðföngum hans, þ. e. ullinni. Þar er um að ræða mál sem er til áframhaldandi meðferðar vegna þess að nauðsynlegt er að mati iðnrn. og ég held stjórnvalda almennt að reynt verði að tryggja okkar útflutningsiðnaði meiri stöðugleika í hráefnisverði en hann hefur búið við og reynt verði að tryggja að ekki komi þar til stórar og óvæntar sveiflur. En þegar um er að ræða hráefni frá landbúnaði er það hin svokallaða Sexmannanefnd sem stendur að verðlagningu. Það er afar brýnt að samkomulag náist um það eða settar verði um það reglur að þar verði ekki teknar ákvarðanir sem hitta illa okkar þýðingarmiklu atvinnugreinar, eins og útflutningsiðnaðinn, heldur reynt að stilla verðbreytingum, sem tryggi hag bænda, af með öðrum hætti. Ég held að á því sé vaxandi skilningur að slíkt má ekki gerast, eins og t. d. varð á s.1. hausti þegar verð á gærum hækkaði yfir 100% einn góðan veðurdag og skinnaiðnaður landsmanna stóð frammi fyrir slíkri verðhækkun skyndilega. Hér er sem sagt um að ræða heimavandamál, ef svo má segja, sem bregðast þarf við, og haga þarf ákvörðunum hér með öðrum hætti en stundum hefur verið gert. En það á ekki að gerast á kostnað bænda og þarf ekki að gerast á kostnað bænda. Þetta er spurningin um á hvaða afurðir leggist sú hækkun sem þarf að koma til að tryggja bændum þær tekjur sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt.

Varðandi ullariðnaðinn sem útflutningsgrein og stöðu hans tel ég ástæðu til að nefna að það er ekki aðeins eitt atriði sem líta þarf á í því sambandi. Þar er um nokkuð fjölþætta hagsmuni að ræða, sem togast eðlilega á, en þarf að stilla saman. Þar á ég við ýmsa aðila í greininni, frá spunaverksmiðjum til prjónaverksmiðja og saumastofa. Þessir aðilar koma oft og tíðum fram út á við sem um einn hóp og samstilltan væri að ræða. En þegar nánar er á málið litið er nauðsynlegt að greint sé þarna á milli og þessir aðilar raunverulega geri kostnaðardæmin skýrar upp innbyrðis en gert hefur verið áður en leitað er á náðir hins opinbera um fyrirgreiðslu. Ég get nefnt sem dæmi að alveg nýlega barst iðnrn. ósk frá sambandi ullariðnaðarins á Norðurlandi, ég man nú ekki eftir hinu formlega heiti þessara samtaka, en það kom þaðan ósk um að stjórnvöld aðstoðuðu þessa aðila við að greina vandann og að koma á viðunandi skiptingu. Það hefur verið hlutast til um að þeir fái aðstoð við að greina vandann, en ég held að þeir verði sjálfir að takast nokkuð á um skiptinguna innbyrðis og það verði ekki stjórnvalda að höggva á það. Ástæður fyrir þessari ósk munu m. a. vera þær, að sú aukna niðurgreiðsla á ull, sem stjórnvöld ákváðu í mars s. l., hefur ekki af öllum þótt ná á endastöð til saumastofa, sem telja sig raunar verst haldnar í þessari grein af þeim aðilum sem þar starfa.

Þetta vildi ég nefna hér til að skýra fyrir mönnum að ekki er um einfalt dæmi að ræða og það er ekki réttmætt að segja að greinin sem heild standi á núlli eða á núllgrundvelli, eins og það er stundum orðað, nákvæmlega á sama hátt og hjá sjávarútvegsaðilum. Þó að verið sé að reikna út meðaltöl, og ekki er óeðlilegt að það sé gert í sambandi við grófar viðmiðanir, er rétt að minnast þess, að þarna stendur mjög misjafnlega á fyrir aðilum og þarf að gæta þess við úrlausn mála.

Ég vil vegna fsp., sem sneri að útflutningsiðnaði okkar sérstaklega, nefna það, að eftir að heimamarkaðsiðnaður okkar er kominn í fulla samkeppni þarf auðvitað ekki síður að hugsa til hans. Það er m. a. ein ástæðan fyrir breytingum á lögum um Iðnrekstrarsjóð, sem hér er lagt til að gera, að stuðningur Iðnrekstrarsjóðs nái einnig til heimamarkaðsgreina til að reyna að tryggja að þær standist aukna samkeppni. Þar er ferskast dæma hinn mjög svo aukni innflutningur á sælgæti og kexi og slíkum varningi til landsins sem innlendir framleiðendur hafa borið sig upp undan sem eðlilegt er, en er afleiðing af ákvörðunum um frjálsan innflutning samkv. samningsbundnum ákvæðum til landsins, en ákvarðanir þar að lútandi voru teknar um síðustu áramót. Iðnrn. hefur hlutast til um það og það verið samþykkt af ríkisstj. að setja sérstaka athugun í gang á þeim leiðum sem eðlilegar og færar eru til að koma vörnum við innan ramma þeirra samninga sem við höfum gert í sambandi við fríverslun. Það mál er nú til sérstakrar athugunar.

Ég tek svo undir orð hv. síðasta ræðumanns um þörfina á breyttum vinnubrögðum í sambandi við margt sem lýtur að okkar atvinnulífi og stuðningi við nýja vaxtabrodda.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er seinna fram komið hér á þinginu en ég hefði kosið, því að ég hef mikinn áhuga á að það nái fram að ganga. En við, sem að undirbúningi þess stóðum, vildum ekki rasa um ráð fram eða fara að flytja málið inn í þingið án þess að væri vandað til undirbúnings eins og við töldum réttmætt vera. Þetta frv, og þau lög, sem væntanlega spretta af því, ættu að geta orðið ein greinin á þeim meiði sem þarf að stækka og dafna í framtíðinni í sambandi við nýjar greinar í atvinnulífi okkar. Og ég vænti þess, eins og ég gat um í framsögu minni, að hv. þdm. geti tryggt þessu máli framgang hér þó skammur tími sé til stefnu, en vissulega reynir mest á hv. iðnn. og forustu hennar hvort svo verður í reynd.