07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær þakkir sem hér hafa komið fram til iðnrh. fyrir þetta frv., sem flutt er í samræmi við þá stefnu sem ríkisstj. markaði í stjórnarsamningnum. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að verja nokkru fjármagni til stuðnings við iðnaðaruppbyggingu og hagræðingu í iðnaði. Ég held þó, og tala þá af þeirri reynslu sem ég hef af því að reyna að vinna að iðnaðaruppbyggingu, að það sé ekki síður mikilvægt að þarna verði komið á fót bakhjarli til halds og trausts fyrir þá sem að slíkum málum vinna. Það hygg ég að geti orðið kannske meira virði en beinar fjárhagslegar fyrirgreiðslur, þó að þær skipti vitanlega miklu líka.

En það var vegna þeirra orða, sem hæstv. ráðh. hafði í sambandi við verðlagningu á ull, sem mig langaði til að koma fram með örlitla skýringu til þess að ekki yrði misskilningur úr því.

Eins og við vitum, og það kom fram hjá ráðh., er það Sexmannanefnd sem vinnur að verðlagningu ullar, en hún er skipuð að jöfnu fulltrúum framleiðenda og neytenda. Það eru þess vegna sjónarmið beggja sem þar koma fram. Þar sem það eru heildarverðmæti afurðanna sem skipta máli eða eru lögð til grundvallar við verðlagninguna hlýtur minni verðhækkun á einni afurðinni að þýða meiri á annarri. Ef ullin hækkar minna hækkar kjöt meira. Það er vitanlega sjónarmið neytenda að verði sem minnstar hækkanir á kjöti. En bændum er ljóst hvers virði ullariðnaðurinn er fyrir þjóðina í heild og ekki síður strjálbýlið, þar sem þetta er sá framleiðsluiðnaður sem er dreifðastur um landið og hefur þegar mikla þýðingu fyrir sveitirnar. Þess vegna vil ég taka með hæstv. ráðh. undir nauðsyn þess að þarna verði komið í veg fyrir óeðlilegar sveiflur, sem yrði vitanlega til hagsbóta fyrir alla aðila.