07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

7. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan tala bæði við hæstv. viðskrh. og fyrir þingtíðindin.

Ég vil vekja athygli hv. d. á því, að Sjálfstfl. veitti ríkisstj. Alþfl. hlutleysi, en hann verður ekki á einn eða annan hátt sakaður um þessa skattlagningu. Ákvörðun um þessa skattlagningu var tekin þegar hæstv. núv. viðskrh. var fjmrh. og hann mun hafa átt einna drýgstan þátt í því að koma henni á. Þannig er sagan og uppruni þessa máls.

Ég vil ítreka að hér er um hluta af þeirri gífurlegu skattahækkun að ræða, sem nú dynur yfir allan almenning í landinu, og við sjálfstæðismenn verðum ekki með einum eða öðrum hætti sakaðir um þá skattlagningu. Að vísu má kannske segja að einhver hluti Sjálfstfl. styðji þetta skattahækkunarfár á síðustu og verstu tímum, en Sjálfstfl. sem slíkur er í stjórnarandstöðu. Hann er andstæður þessari stjórn þó að nokkrir sjálfstæðismenn styðji hana.