07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Núgildandi lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum eru frá 1952. Þau mörkuðu tímamót á sinni tíð og voru í þeim lögum fólgnar margvíslegar endurbætur og nýmæli. Síðan hefur þeim lögum verið breytt oftar en einu sinni. En á þeim nær 30 árum, sem liðin eru síðan, hafa miklar breytingar orðið í atvinnulífi þjóðarinnar og margvíslegar nýjar kröfur komið upp um öryggisráðstafanir, hollustuhætti og hvers konar aðbúnað á vinnustöðum. Það var því orðin brýn nauðsyn að endurskoða þessi lög og semja nýja löggjöf.

Í kjarasamningunum vorið 1977 lögðu verkalýðssamtökin mikla áherslu á að nú yrði tekið til við þetta verkefni. Varð það að samkomulagi milli þeirra og þáv. ríkisstj. að gengið skyldi í málið, sumpart með ítarlegri könnun á ástandi þessara mála og sumpart með nefndarskipun til að undirbúa frv. til nýrra laga. Í framhaldi af þessu samkomulagi skipaði þáv. félmrh. hinn 14. sept. 1977 níu manna nefnd til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þrír voru skipaðir samkv. tilnefningu verkalýðssamtakanna, tveir eftir tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands og einn eftir tilnefningu Vinnumálasambands samvinnufélaganna.

Af hálfu félmrh. voru auk þess skipaðir þrír menn: Það var öryggismálastjóri, Friðgeir Grímsson, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, Hrafn Friðriksson og ráðuneytisstjóri félmrn., Hallgrímur Dalberg, sem var formaður nefndarinnar. Nefndin réð sér starfsmann, Örn Bjarnason skólayfirlækni. Þessi nefnd vann mjög vel og dyggilega að þessu máli og er það frv., sem hér liggur fyrir, ávöxtur af starfi hennar fyrst og fremst.

Hæstv. fyrrv. félmrh., Magnús H. Magnússon, lagði þetta frv. fyrir hv. Ed. Alþ. snemma á þessu þingi. Félmn. hv. Ed. hefur fjallað um málið ítarlega og gerði á því, bæði n. í heild og einstakir nm., ýmsar brtt. sem samþ. voru.

Á því er enginn vafi að þetta frv. felur í sér margvísleg og merkileg nýmæli til að auka öryggi og bæta hollustuhætti á vinnustöðum. Það er eindregin tillaga ríkisstj. að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.