07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. 1 máli hv. 5. þm. Suðurl., Magnúsar H. Magnússonar, kom í raun og veru fram, að þrátt fyrir að þetta frv. hafi verið líklega að mestu leyti samið undir hans stjórn eða hans ráðuneytis lá alls ekki nógu ljóst fyrir hv. þm. hvernig það mundi verka, og það sem hann sagði að leggja ætti niður hinar og aðrar stofnanir er ekki hægt að fá út úr þessu frv. eins og það liggur hér fyrir. Það eru aðeins ein lög sem er gert ráð fyrir að eigi að nema úr gildi við gildistöku þessara laga, og það eru lög um Öryggiseftirlit ríkisins frá 1952, önnur löggjöf ekki. Ég vil vekja athygli á þessu.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði áðan að hann hefði séð, þar sem ég var hér í ræðustól, svartnættisafturhald. Það hrín ekki á mér. Hins vegar kom vel í ljós í þessum ræðustól einsýni og tillitsleysi þessa manns þegar um er að ræða aðra en hans umbjóðendur. Það var ekkert talað við bændastéttina um þetta mál þegar það var í mótun, því það var ekki sent Búnaðarþingi, hvort sem það er að kenna fyrrv. félmrh. eða öðrum, það veit ég ekki. Það var ekki sent Búnaðarþingi eða Stéttarsambandinu til umsagnar. Það er mér ljóst. Og ég veit að ef slíkt hefði snúið að hans samtökum hefði hann ekki tekið því þegjandi. Hitt er alrangt, að það hafi verið hægt að finna það út úr mínu máli áðan að ég hafi lagst á móti því að gerðar yrðu ráðstafanir í sambandi við landbúnaðinn.

Það, sem ég var að segja, átti að sýna fram á hvað væri í lögum. Ég var að leiða hugann að því, hvers vegna þessi lög hefðu ekki verið framkvæmd þrátt fyrir að löggjöfin er búin að vera í 10 ár og ég var að sýna fram á að það þýddi ekki að vera að setja lög um sama efnið, jafnvel þing eftir þing, án þess að þau kæmu til framkvæmda. Það var þetta sem ég var að sýna fram á. Og ég var að sýna fram á að það verður ekki komið á eftirliti í landbúnaði svo að það nái tilgangi nema þeir, sem um það fjalla, hafi þekkingu á þeim málum. Ég hef horft á slys í landbúnaði og ætla ekki að ræða um það hér, en ég veit að mörg þau slys, því miður, hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir hvernig sem eftirliti hefði verið háttað í þeim málum. Það þarf enginn að halda.

Það, sem ég vildi segja, er að ég vil ekki setja á stofn eftirlit, t. d. í landbúnaði, nema ég haldi að það sé til bóta. Og það er málið. Það er ekki nóg, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að setja löggjöf. Þegar við setjum löggjöf þurfum við að athuga hvernig á að koma henni í framkvæmd til þess að hún nái þeim tilgangi sem ætlað er. Það var þetta sem ég var fyrst og fremst að segja, en ekki að ég vildi ekki leggja fram fjármagn til að reyna að auka öryggi í landbúnaði. Ég tók það sérstaklega fram. Það er hreinn útúrsnúningur að segja að það hafi verið hægt að heyra annað á mínum orðum.

Hv. þm. talaði um að ég hefði lesið upp úr erlendum skýrslum. Ég las ekki eitt orð upp úr erlendum skýrslum, — ekki eitt einasta orð. (GJG: Þú vitnaðir til útlanda fyrir okkur.) Ég las upp álit Hrafns V. Friðrikssonar. Er það að vitna í erlendar skýrslur að lesa hans sérálit?

Ég ætla ekki að eyða tímanum frekar hér. Út af því, sem hæstv. landbrh. sagði, vil ég aðeins segja það, að ég tel að vísu þessa breytingu til bóta, en engan veginn nægjanlega. Ég vil að unnið sé að því að reyna að koma á raunhæfu eftirliti í sveitum landsins, en ekki eftirliti samkv. því frv. sem hér er, sem er fyrir fram sýnilegt að muni mistakast. Það er kannske ekki alveg að ástæðulausu — eða veit ekki hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson að almennt er þetta frv. kallað hér í þinginu og annars staðar „þrælalögin“? Ég held að hann ætti að spyrja sig að því hvers vegna. Ekki fann ég upp þessa nafngift. Það voru aðrir.

Hv. þm. sagði, eftirlitsmenn yrðu hér og þar úti á landi. Ég vil segja frá reynslu minni í því. Eftirlitsmaður Rafmagnsveitna ríkisins kemur héðan að sunnan þegar hann er að sækja mig heim á mitt býli. Hann er ekki á Akureyri. Það er ekkert í þessum lögum sem segir til um það, hvar eftirlitsmenn eigi að vera, aðeins að Vinnueftirlit ríkisins sé hér í Reykjavík og það eigi að setja allt í þess hendur.

Það kann að vera að það sé til í annarri löggjöf að sjálf stjórnstofnunin eigi að setja reglugerðir, en ég er búinn að vera 13 ár á þingi og man ekki til þess að það sé til, heldur að viðkomandi ráðh. setji slíkar reglugerðir, að vísu eftir ábendingum þeirra sem slíkum stofnunum veita forstöðu.