07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að í þeim umr. sem hér hafa farið fram, birtist að nokkru leyti sú þverstæða sem á sér stað í íslenskum landbúnaði. Sú þverstæða er einfaldlega sú, að við fáum það aldrei á hreint hvort bændur flokkast undir atvinnurekendur eða launþega. Þetta er einn höfuðþátturinn og eitt höfuðmeinið í þeirri deilu sem hér á sér nú stað. Ég tel að bændur gerðu sjálfum sér mjög verulegan greiða með því að skera úr því sjálfir hvorum flokknum þeir tilheyra. Mín tilfinning hefur verið sú, að þeir væru fremur launþegar þegar illa áraði, en atvinnurekendur þegar árferði væri skárra.

Ég vil taka undir það með hæstv. landbrh. Pálma Jónssyni, að auðvitað ber að móta þetta frv. samkv. óskum bændastéttarinnar. En einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að Búnaðarþing, sem nýverið sat hér í Reykjavík í allmargar víkur, hefði haft tækifæri til að fjalla um þetta frv. og koma skoðunum sínum á framfæri við Alþingi, þannig að skoðanir Búnaðarþings mættu koma inn í þá umræðu sem farið hefur fram um þetta frv. hér á þingi. Bændur hafa eigið þing og á því þingi eiga þeir að fjalla um öryggismál eins og önnur mál í landbúnaði. Það stendur kannske nær þeim en mörgum öðrum stéttum í þessu þjóðfélagi að fjalla einmitt um hollustuhætti og öryggismál. Það hefur allt of lítið verið gert að því hjá bændastéttinni að reyna að koma í veg fyrir atvinnusjúkdóma, sem fyrir hendi eru, utan hreins þrældóms sem gerir menn að aumingjum fyrir aldur fram. Þar er heymæði. Hvað hefur verið gert í því að koma í veg fyrir þann sjúkdóm? Þar eru öryggismál í sambandi við stöðugt voldugri og meiri landbúnaðartæki sem eru notuð. Ég er t. d. sannfærður um að tryggingamál í sveitum eru í miklum ólestri. Það er mikill fjöldi dráttarvéla í sveitum sem eru óskráðar og eru þess vegna ekki tryggðar, og það eru fjölmörg dæmi þess að gamlar dráttarvélar, sem eru notaðar enn í dag, eru án öryggisgrinda. Þær eru notaðar stöðugt og látlaust. Ekkert hefur bændastéttin gert í þessu.

Ég vil sem sagt ítreka þau orð hæstv. landbrh., Pálma Jónssonar, að menn reyni nú að leita eftir samkomulagi í þessu máli, en taki ekki upp þær umr. sem ævinlega og ávallt fara fram hér á þingi þegar landbúnaðarmál ber á góma. Ég hef sagt það áður í ræðu á þingi að þegar hér er fjallað um landbúnaðarmál rísa forustumenn landbúnaðarins upp og telja að allir þeir, sem eitthvað hafa fram að færa, aðrir en þeir, um þennan málaflokk hafi allt á hornum sér, séu að gagnrýna af tómum skepnuskap. Ég held að menn verði að átta sig á því, og einkum og sér í lagi þeir fulltrúar bænda sem sitja hér á þingi, að við verðum að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort bændur eru atvinnurekendur eða launþegar. Það verða þeir sjálfir að ákveða, því að það er einu sinni svo, að það er talsvert mikill munur á því í þjóðfélagi okkar hvort menn eru atvinnurekendur eða launþegar.

Ég vil endurtaka það, að ég hefði talið kjörið verkefni fyrir Búnaðarþing að fjalla um þetta frv. mjög ítarlega og koma fram með brtt. Ég hef ekki séð þær. Ég hef hvergi séð þær brtt. Og mér býður í grun að þær hafi ekki verið útbúnar á Búnaðarþingi. Þar hefði þó mátt ræða öryggismál landbúnaðarins og bænda fremur en margt annað sem þar var fjallað um, miður merkilegt að mínu mati.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, en ítreka enn á ný að ég vona að það komist í höfn með þeim breytingum sem bændur telja eðlilegar og nauðsynlegar.

Það var eitt sem stakk í augu, ef ég má orða það þannig, eða sló mig í ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Það kemur alltaf að peningasjónarmiðinu, því sjónarmiði að alltaf sé verið að ganga á hlut bænda. Hann orðaði það svo hér áðan, að það væri óréttlátt að bændur greiddu ferðakostnað eftirlitsmanna eða viðgerðarmanna. Mig langar að geta þess, að það þarf hver einasta húsmóðir í Reykjavík, sem biður um eftirlits- eða viðgerðarmann vegna þvottavélar eða ísskáps, að greiða fyrir það umtalsverðar fjárhæðir að viðgerðarmaðurinn komi á staðinn. Þetta þarf að gera oft á ári. (Gripið fram í.) Já, frá Reykjavík. Það má vera, enda þætti mér það afskaplega óeðlilegt ef eftirlitsmaður frá Reykjavík færi norður á Þórshöfn á Langanesi til að líta eftir þessum málum.