07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni með að frv. með þessu markmiði er lagt fram í þinginu. Óneitanlega er gott til þess að vita að þetta mál er þó komið á þennan rekspöl. Hins vegar vekur það undrun mína að svo virðist sem ekki sé hægt að ræða um þetta mál þannig að menn komi með sínar skoðanir án þess að þeir séu stimplaðir afturhaldsmenn eða hið svartasta íhald ef þeir vilja ekki samþykkja allt sem í frv. stendur.

Ég hef horft dálítið á þann hátt þessa frv. þar sem rætt er um að það eigi að yfirtaka verkefni sem aðrar stofnanir hafa með höndum. Væri ég sannfærður um að þær stofnanir yrðu allar lagðar niður með sínum rekstri og sú stofnun, sem hér er verið að tala um að koma á fót, gæti yfirtekið verkefni þeirra öll, blandast mér ekki hugur um að það gæti orðið til sparnaðar. Hins vegar sýnist mér að það sé ekki útlit fyrir að nein af þeim stofnunum, sem fyrir eru, verði lögð niður, heldur verði þessari stofnun bætt við. Þá vaknar sú spurning, hvort ekki hefði verið hægt að haga þessari lagasmíð þannig að meira tillit hefði verið tekið til þeirra stofnana sem fyrir eru í landinu, en jafnframt verið hægt að ná þeim markmiðum sem ætlað er að ná. Þetta er atriði sem ég held að þd. þurfi að gefa sér tíma til að skoða. Ég vænti þess að hægt sé að framkvæma þá skoðun án þess að menn liggi undir brigslum um að þeir séu að svíkja eitt eða neitt. — Ég sat ekki á þingi þegar þessu var lofað og ég veit ekki hvort hægt er fyrir hönd einhvers aðila að gefa um það loforð fram í tímann að þeir, sem ekki sitji þar, skuli styðja einhver ákveðin mál. Mér er ekki ljóst hvort hægt er að gefa slík loforð. Ef það er hægt af hálfu framkvæmdavaldsins hvarflar það að manni hvort þingið sé þá ekki búið að glata sjálfstæði sínu.

Ég ætla ekki að ræða efnislega þetta mál frekar, en vil aðeins geta þess, að hv. 6. þm. Norðurl. e. taldi að það væri nauðsynlegt að bændur gerðu upp við sig hvort þeir ætluðu að vera launþegar eða atvinnurekendur. Mér er ekki ljóst á hvaða forsendum það er nauðsynlegt að þeir geri það upp við sig. Ég lít á sjálfan mig bæði sem launþega og atvinnurekanda út frá því sjónarmiði, að þeir opinberir starfsmenn, sem eru í störfum hér á landi, eru launþegar m. a. hjá mér og ég er þess vegna í atvinnurekendahópnum sem ber ábyrgð á þeim. Aftur á móti fer það ekki á milli mála, að sem þiggjandi launa frá hinu opinbera er ég launþegi. Ég held að það væri hollt mönnum að hætta að nota þær „billegu klisjur“ að skipta mönnum í atvinnurekendur og launþega. Ég held líka að það væri hollt að menn hættu því alfarið að líta svo á að þeir séu fulltrúar hér á þinginu fyrir einhverjar ákveðnar stéttir. Menn eru fulltrúar fyrir þjóðfélagshópa þess svæðis sem þeir eru kosnir á. Ég lít svo á að hver og einn þm., sem er kjördæmakosinn geti ekki verið fulltrúi fyrir eina eða neina stétt, hann hljóti að vera fulltrúi fyrir það svæði allt og íbúa þess svæðis. Hins vegar finn ég það gjarnan í þingsölum að sumir virðast líta þetta öðrum augum og þó sérstaklega þeir sem samkv. þeirri skilgreiningu ættu að vera fulltrúar fréttamanna hér á þinginu.