07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

6. mál, tímabundið vörugjald

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég í þessari hv. deild skriflega brtt., sem ég dró hins vegar til baka við atkvgr. og endurflyt hér við 3. umr. Þetta er lítil till., sem birtist á þskj. 423, en hún felur það efnislega í sér, að auk þeirra vörutegunda, sem tilgreindar eru í 3. gr. frv., að eigi að falla út úr 30% vörugjaldsflokknum, en það eru aðallega hljóðfæri og hljómplötur með íslensku efni, bætist við eitt tollskrárnúmer sem felur í sér hljómplötur almennt. Ég fór um þetta nokkrum orðum við 2. umr., en vil nú bæta nokkrum orðum við vegna nýrra upplýsinga sem ég hef fengið um þetta mál.

Ég rakti nokkuð við 2. umr. þau almennu atriði sem í mínum huga rökstyðja að hljómplötur eigi að undanþiggja þessu 30% gjaldi. Hljómplötur eru einhver mikilvægasti menningarmiðill sem við eigum nú yfir að ráða. Hin frábæra tækni til upptöku og afspilunar hefur gert tónlist að almenningseign og fólk getur nú hlýtt á alla tegund tónlistar í stofunni heima hjá sér, auk þess sem hljómplötur og meðferð þeirra er einhver fyrirferðarmesta tómstundaiðja ungs fólks. Ég tel að það sé holl og góð tómstundaiðja.

30% vörugjaldið var sett á hljómplötur í september 1978 og þá strax dró verulega úr sölu á hljómplötum. Ég hef aflað mér upplýsinga um innflutning á hljómplötum s.1. þrjú ár. Árið 1977, síðasta heila árið sem plötur voru seldar án þessa vörugjalds, voru flutt inn 76.6 tonn, — þetta er mælt þannig í innflutningsskýrslum, — 1978 minnkaði það niður í 71.5 tonn og 1979, fyrsta heila árið eftir að vörugjaldið var lagt á, minnkaði þessi innflutningur niður í 58.6 tonn. Sala dróst sem sagt saman um 25% milli áranna 1977 og 1979. Þessar tölur sýna að almenningur hefur ekki lengur efni á því í eins ríkum mæli og var og æskilegt væri að njóta þessa einfalda og tiltölulega ódýra menningartækis.

Meðalverð á hljómplötu er um 11 þús. kr. Ef vörugjaldið félli niður mundi verð á hverri hljómplötu lækka um ca. 23% eða niður í um 8500 kr. Ég held að ríkissjóður mundi ekki tapa miklu á þessari till., ef samþykkt yrði, og til að sýna fram á það hef ég látið reikna út dæmi um hvert yrði tekjutap ríkisins ef vörugjaldið yrði fellt niður og ef sala á hljómplötum færi aftur upp í það magn sem hún var 1977, áður en vörugjaldið kom á, og reyndar 5% betur, sem verður að telja eðlilega viðmiðun, því það er ekki ólíklegt að sala á þessari vörutegund aukist nokkuð við eðlilegar kringumstæður frá ári til árs.

Ef við tökum árið 1979 eru tekjur ríkissjóðs þessar: 75% tollur 271.6 millj., 30% vörugjald 190 millj. og svo söluskattur, sem er í þessu dæmi reiknaður eins og hann er í dag, þ. e. 23.5%, 340 millj. Þá eru tekjurnar um 800 millj. Ef árlegur innflutningur færi sem sagt upp í 80 tonn, þ. e. sama magn og 1977 með 5% aukningu, og vörugjald yrði fellt niður kæmi eftirfarandi út: 75% tollur 371 millj., söluskattur 23.5% 396 millj. eða 767 millj. kr. Hér munar því í rauninni sáralitlu og svo litlu að það tekur varla tali að nefna það og ekkert ólíklegt að salan ykist meir en hér er gert ráð fyrir.

Ég held að það sé öllum ljóst, sem nálægt sölu á þessari vöru koma og fylgjast svolítið með á þessum markaði, að minnkandi sala á ekki síst rætur að rekja til stóraukinna kaupa á þessari vörutegund erlendis. Verð í nágrannalöndum okkar er víða tvisvar til þrisvar sinnum lægra en hér á landi. Ég held að óeðlilegt sé að ríkið gerist offari í skattheimtu með þeim afleiðingum að sala á þessari vörutegund flytjist til útlanda.

Hlutur ríkisins nú í verði á hljómplötum er 45% af útsöluverði og færi niður í 38.7% ef vörugjaldið yrði fellt niður. Þetta er sem sagt ekki mikið mál fyrir ríkissjóð, en hins vegar er þetta mikið mál fyrir ótrúlegan fjölda fólks sem vill geta notið tónlistar á heimilum sinum, en hefur nú dregið verulega við sig kaup á þessari vörutegund og verður því af ómældri ánægju við tónlistarhlustun heima hjá sér.

Ég vonast til að þessi litla till. sé þess eðlis að menn bindist ekki ströngum og sterkum flokksböndum þegar hún kemur til atkv., heldur láti sannfæringu sína ráða í þessu litla máli.