21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég verð auðvitað við tilmælum forseta um að segja aðeins örfá orð.

Í fyrsta lagi vil ég segja það út af því sem hv. þm. Steinþór Gestsson sagði áðan, að landbrh. gat um þetta í sinni ræðu á Stéttarsambandsfundi bænda, formaðurinn einnig, og ég gaf þar þá yfirlýsingu, að ef það hefðist ekki fram í ríkisstj. að semja um að útvega fjármagn til að endurgreiða bændum verðjöfnunargjaldið, þá yrði frv. lagt fram í byrjun þingsins. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta mál hér, vegna þess að ég má aðeins segja hér örfá orð.

Út af ummælum hæstv. fjmrh. vil ég benda á það, að hann upplýsti hér áðan að hann hefði án heimildar greitt 1700 millj. í niðurgreiðslur. Hví getur hann ekki borgað annað eins og hann hefur getað greitt þetta? Ég vil bara spyrja ráðh. Ég held nefnilega að hann hafi verið skyldugur til að borga hvort tveggja, og ég vil taka undir það sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði í því efni, get stytt mál mitt, bara vitnað í ummæli hans að því leyti til. Hins vegar ætla ég að ræða um það á næsta ári, hver ber ábyrgð á þeirri ríkisstj. sem nú situr og hvernig hún er tilkomin.

Ég vil svo taka það enn fram og skora á hæstv. ríkisstj. að sjá um það, að vinnslustöðvarnar fái þessar greiðslur í hendur nú fyrir áramót. Þær hafa allar gert ráðstafanir samkv. því að þær fái þetta. Ef það gerist ekki verða þær í vanskilum við ríkissjóð, við sína viðskiptabanka o.s.frv. Ég held að þessar umr, hafi hlotið að opna augu ríkisstj. fyrir því, að ef niðurgreiðslurnar verða ekki inntar af hendi séu það ekkert annað en greiðslusvik blátt áfram. Og það er mjög illt ef ríkið gengur þannig á undan, og það er erfitt a.m.k. að rukka sömu aðila um gjöld og jafnvel söluskatt, en halda fyrir þeim fjármagninu sem ríkið hefur lofað að inna af hendi fyrir þá.