08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

134. mál, geðheilbrigðismál

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða í einstökum atriðum þá till. til þál. sem hér er til umfjöllunar, aðeins að drepa á örfá atriði sem málinu eru viðkomandi.

Þegar geðheilbrigðismál ber á góma hljótum við að leiða hugann að þeirri þjóðfélagsgerð, sem einstaklingurinn býr við, og ekki síður því nánasta umhverfi, sem lifað er í. Spurningar hljóta að vakna um það, hvort okkar þjóðfélagsgerð, hvort okkar umgengnishættir séu á þann veg að stuðlað sé að andlegri velferð og geðheilbrigði. Spurningar hljóta einnig að vakna um það, hvort óeðlilegt sé að einstaklingarnir láti undan álaginu í lífinu, þeim áföllum sem óhjákvæmilega verða einhvern tíma á lífsferli allra manna. Hver og einn getur spurt sig þeirrar spurningar, hvort það beri vott um meira manngildi að standa óhaggaður tilfinningalega, finna hvorki sársauka né söknuð. Talið er að allir menn verði fyrir áföllum einhvern tíma á lífsleiðinni sem breyta andlegri líðan verulega. Má þá ekki halda því fram, að það sé jafnvel sjálfsagður þáttur mannlegs lífs að gefast upp við og við tilfinningalega? Hver einstaklingur hlýtur að vera og er samtengd heild líkama, geðheilsu og félagslegs atferlis. Þess vegna hefur tilfinningalegt álag áhrif á alla þessa þætti og birtist í fjölmörgum myndum. Ef það er rétt, að hjá þriðjungi sjúklinga, sem liggja á lyflæknisdeildum, séu tilfinningaleg eða geðræn vandamál sjúkdómsvaldurinn, hljótum við að leiða hugann að mikilvægi þess að sinna geðheilbrigðismálum með eðlilegum hætti, ekki aðeins vegna geðheilbrigði einstaklinganna, heldur líka vegna líkamlegra sjúkdóma sem sigla í kjölfar andlegrar óheilbrigði.

Í sjálfu sér má halda því fram, að heilbrigði sé ekki sjálfsagt eðlilegt ástand, heldur stöðugur lifandi straumur sem lagar sig sífellt að breytilegum innri og ytri aðstæðum. Ég hygg að það sé ekki ofmælt, að engin grein innan heilbrigðiskerfisins eigi við að etja jafnhatramma fordóma og einmitt geðheilbrigðismál. Ég gæti trúað að margir þeirra, sem heilbrigðir teljast, kveinki sér jafnvel við að tala um geðsjúkdóma nema þá kannske í hálfum hljóðum. Þeir fordómar, sem ég áður nefndi, eiga fyrst og fremst rætur í vanþekkingu og skilningsleysi þeirra sem heilbrigðir teljast. Því miður kemur það fyrir of oft, að sá, sem leitar meðferðar vegna andlegrar vanheilsu, er lítilsvirtur og jafnvel um langan tíma brennimerktur í því umhverfi sem hann lifir og starfar í. Einmitt þess vegna veigra margir sér við að leita sér hjálpar fyrr en í óefni er komið og lækning öll verður mun erfiðari.

Það er mjög mikilvægt að berjast gegn þeim fordómum sem ég áður nefndi, m. a. með stóraukinni fræðslu. Og það þarf að vera hægt að ná til sjúkra á byrjunarstigi. Þess vegna er opnun neyðarþjónustu í göngudeild mjög brýn, þar sem sérhæft starfsfólk væri til taks allan sólarhringinn, helga daga sem virka, og fólki veittist eins auðvelt að nálgast þessa hjálp og mögulegt væri. Aukið eftirlit og eftirmeðferð í formi göngudeildarþjónustu, er sendir sérhæfða starfsmenn út á heimilin, er vafalaust mjög nauðsynleg. Slík þjónusta hefur verið í gangi síðan 1963 á Glostrup-geðsjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn, en þá byrjaði einn hjúkrunarfræðingur þetta starf í tengslum við deildir spítalans. Á þeirri tíð voru um 80% af öllum innlögnum á sjúkrahúsið endurinnlagnir, en nú hefur þeim fækkað allverulega, eða í 40%, og talið er að þessa breytingu megi hiklaust rekja til þess að með heimsóknum á heimilin og stuðningsmeðferð úti í hinu daglega lífi tekst að leysa hin fjölmörgu vandamál sem mundu leiða af sér sjúkrahúsdvöl ef ekkert væri að gert. Einnig verður að telja líklegt að slíkt fyrirkomulag geti sparað mikið fé, ég tala nú ekki um ef litið er til langs tíma. Slíkt fyrirkomulag er einnig líklegt til að hafa þau áhrif á einstaklinginn að hann njóti sín betur sem virtur þegn, og eflaust vinnur þessi aðferð gegn fordómum.

Sá þáttur geðheilbrigðismála, sem ekki hvað síst þarf að sinna, eru geðræn vandamál gamla fólksins. Margvíslegir erfiðleikar fylgja ellinni sem eru af andlegum toga spunnir, en þó er vitað að þeir erfiðleikar stafa ekki alltaf af þverrandi líkamskröftum. Hæfileikinn til þess að aðlagast breyttum aðstæðum minnkar að sjálfsögðu með aldrinum, en í því efni er hægt að styðja við og hjálpa ef vilji er fyrir hendi. Það, sem hjálpar öldruðu fólki þrátt fyrir allt hvað mest, er að gerðar séu hóflegar kröfur til þess. Öldruðu fólki er það ómetanlegur styrkur ef því er treyst til einhvers án þess þó að um of mikið álag sé að ræða. Það er staðreynd, að verklok hinna ýmsu einstaklinga leiða af sér tilfinningalegt álag sem mörgum reynist örðugt að standa undir. Þarna þarf samfélagið að koma til móts við þessa einstaklinga með sveigjanleg takmörk á starfsaldri, sem miðast við vinnugetu. En nóg um það.

Eitt af okkar stóru vandamálum eru jafnframt að sjálfsögðu þeir einstaklingar sem af geðrænum orsökum hafa leiðst til afbrota. Ég vil þó ekki á þessari stundu hætta mér of langt út í þá umræðu.

Telja verður eðlilegt að endurhæfing afbrotamanna fari fram á stofnun sem er sérhæfð til þeirra starfa. Hins vegar verður að líta svo á, að það sé í hæsta máta óeðlilegt að refsa mönnum fyrir sjúkdóm sinn, enda hljótum við að hafa þá hugsun að hver maður verði að eiga uppreisn æru, hann eigi rétt á henni.

Hér verður ekki rætt um siðferðilegt réttmæti refsingar. Frelsissvipting er gerð til þess að tryggja öryggi samborgaranna, það vitum við. En takmark refsivistar hlýtur að vera fyrst og fremst að gera fangann að nýtum borgara á nýjan leik, en svipta hann ekki frelsinu til æviloka, enda væri með því móti verið að losa umhverfið við þann sem vegna sjúkdóms síns varð til þess að brjóta lög og reglur okkar samfélags.

Í upphafi míns máls varpaði ég fram þeirri spurningu, að hve miklu leyti mætti rekja vanheilsu hinna ýmsu einstaklinga til þeirrar þjóðfélagsgerðar sem við búum við í dag. Í sjálfu sér þarf það ekki að vera neinum undrunarefni þótt ýmsir láti bugast í öllum þeim hraða, í allri þeirri spennu og í allri þeirri kröfuhörku sem þetta streituþjóðfélag okkar leiðir af sér. Við þurfum að koma í veg fyrir það að vanheilir á geði verði fyrir aukaálagi fordóma að meðferð lokinni, þegar þeir hinir sömu reyna að taka sér sess í fjölskyldu, í atvinnu og í samfélagi. Með hjálp og samvinnu jafnt lærðra sem leikra og umfram allt mannlegri hlýju getum við forðað andlegu skipbroti fjölmargra einstaklinga og aukið við þann fjársjóð sem fólginn er í andlegu heilbrigði okkar þjóðfélagsþegna.

Herra forseti. Hér eru geðheilbrigðismál fyrst og fremst til umfjöllunar. Ég vil þó ljúka máli mínu með því að víkja að heilbrigðismálum almennt. Ég held að það væri ástæða til þess að leggja meiri áherslu á hina almennu stjórnun innan heilbrigðiskerfisins ásamt því að einfalda allt skipulag og starfshætti og stuðla að meira samstarfi hinna ýmsu heilbrigðisstétta. Enda þótt leggja beri áherslu á uppbyggingu hverrar greinar heilbrigðismála er höfuðnauðsyn að missa ekki sjónar á þeim heildarmarkmiðum sem við setjum okkur í heilbrigðisþjónustu í þessu landi. Út frá þeim forsendum mætti e. t. v. spyrja hvort ekki væri ástæða til þess að taka til gagngerðrar endurskoðunar ekki aðeins geðheilbrigðismál heldur alla þætti heilbrigðismála í okkar landi með tilliti til uppbyggingar, með tilliti til rekstrar, með það að markmiði að fá það besta út úr þessari starfsemi sem möguleikar eru á.