21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að tefja fundinn með aths., en hún skal vera mjög stutt.

Ég verð að lýsa furðu minni á því sem kom fram hjá 2. þm. Suðurl. áðan. Ég veit að hann talar þar þvert um hug sinn, því að hann veit betur. Ég veit að honum er kunnugt um að í þeirri nefnd, sem hann sat í, var ekki samkomulag um hvernig ætti að mæta vanda bænda. (SteinG: Það var meiri hl.) Það var meiri hl., en fulltrúi eins stjórnarflokksins lagðist þar gegn. Ég vil upplýsa hv. þm. um að tillögum nefndarinnar var samstundis dreift innan ríkisstj. Hins vegar var ekki samkomulag um málið innan ríkisstj. og ekki því unnt að leggja fram tillögur um þessa fjáröflun sem ríkisstj.-mál. Ég vek athygli á að þetta mál hefur þegar komið fram á Alþ. og það reyndar tvisvar, bæði á stutta þinginu í haust og aftur nú, og ég geri fastlega ráð fyrir að innan Alþ. sé meiri hl. fyrir því. Ég tel einungis spilla fyrir framgangi þessa mikilvæga máls þegar svona málflutningur og dylgjur eru hafðar hér í frammi.

Ég vil einnig segja við hv. þm., að hann getur litið sér nær ef hann vill leita að erfiðleikum bænda, t.d. til þess dags þegar meiri hl. þm. gekk út.