08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

134. mál, geðheilbrigðismál

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi lýsa eindregnum stuðningi mínum við till. til þál. um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur. Ég tel ákaflega mikilvægt að þessi till. skuli komin fram á þinginu. Hér er fjallað um einhver mikilvægustu mál heilbrigðisþjónustu lands vors, og eins og frsm. tók fram í ræðu sinni er ekki einungis um einn þátt að ræða. Það er ekki einungis um þá að ræða sem sjúkir eru á geði, það er um að ræða mikilvægan þátt í öllu þjóðfélagslífi Íslendinga. Þessi þáttur er tengdur ótal öðrum, hann er tengdur löggjöf um atvinnu, hann er tengdur löggjöf um efnahagsmál, hann er tengdur vinnutíma, hann er tengdur fjölskylduuppbyggingu, skólum o. s. frv. Ég ætla ekki að tala langt mál um þetta. Ég vil þó aðeins minnast á eitt atriði í grg. fyrir þessari þáltill. Hér stendur: „Geðrænir sjúkdómar eru þó ein algengasta fötlun sem um getur.“

Það vill svo til, að þetta mál hefur verið athugað nokkuð í sambandi við afstöðu fólks til fötlunar á vinnustöðum. Í þeirri athugun kom í ljós að fordómar gagnvart fólki, sem verið hafði til meðferðar vegna geðrænna vandamála, voru langtum algengari en maður hafði búist við, og reyndar svo algengir að greinilegt er að veruleg hugarfarsbreyting þarf að verða hjá þjóðinni til þessara mála svo að þeim sem átt hafa við geðræn vandamál að stríða, sé ekki bókstaflega vísað út á kaldan klaka þegar þeir koma út á vinnumarkað eða innan um fólk eftir dvöl á geðsjúkrahúsum.

Það er vissulega rétt, að hér er um tvenns konar mál að ræða raunverulega, eins og hv. þm. Davíð Aðalsteinsson tók fram. Það er annars vegar meðferð þeirra sem haldnir eru geðsjúkómum, hvernig þjónusta við þá verði bætt og efld, og í öðru lagi, sem ekki er minna um vert, hvernig staðið er að því að vernda fólk fyrir geðsjúkdómum. Ég held að einmitt sú nefnd, sem fær þetta málefni til meðferðar, þurfi að íhuga mjög vendilega fjölmarga þætti í okkar samfélagi áður en hún skilar álitsgerð. En ég er viss um að með góðu og heiðarlegu starfi muni unnt hér hjá þessari þjóð, sem býr að mörgu leyti við góð kjör, að draga verulega úr geðrænum sjúkdómum og jafnvel að við gætum orðið fyrirmyndarland á því sviði sem á öðrum sviðum heilbrigðismála ef rétt er á málum haldið.

Ég skal ekki hafa þetta lengra, en lýsi fullum stuðningi mínum við þessa tillögu.