08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

139. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 285 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að flytja svo hljóðandi till. um almenna stefnumörkun í menningarmálum:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir gerð almennrar stefnumörkunar í menningarmálum í því skyni að jafnt atvinnu- sem áhugamennska í þessum efnum hafi við ákveðnari viðmiðun að styðjast frá hálfu ríkisvaldsins, ekki síst varðandi einstök menningarleg átök, viss forgangsverkefni, sem útundan hafa orðið, og aukna tryggingu fyrir eðlilegum, skipulegum fjárhagsstuðningi við alhliða menningarstarfsemi. Í því efni þarf að kanna sem best allar mögulegar leiðir, beinar sem óbeinar, til aðstoðar áhugafélögum á hinum ýmsu sviðum listsköpunar, sömuleiðis hvernig best megi auka stuðning hins opinbera við íslenska menningarstarfsemi með beinum fjárframlögum, niðurfellingu ýmissa tolla og skatta og með öðrum örvandi áhrifum.“

Á Alþingi í fyrra urðu allnokkrar umræður um þetta mál út af fsp. frá mér, svo sem getið er um í grg. Einnig urðu nokkrar umræður um svipað mál þegar breytingar á leiklistarlögum voru ræddar, hvað snerti Leiklistarráð og starfsemi þess og viðfangsefni. Mörgum virðist svo sem till. sem þessi lúti að einhverri heftingu, einhverjum ákveðnum farvegi, og er þá gjarnan stutt yfir í pólitíkina, en þar eru menn oft fljótir að sjá mikla vá, jafnvel þeir sem daglangt gera ekki annað en að ræða og hugsa um hina voðalegu pólitík á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Umræðurnar, sem fóru fram hér um daginn, undirstrikuðu þetta að nokkru, og ég ætla að vona að áþekkar umræður og þá fóru fram blandist ekki inn í þetta, svo víðs fjarri sem þessi till. er því sem þar kom fram.

En auðvitað má segja að öll menningarstarfsemi sé á vissan hátt í tengslum við þjóðmálin í víðustu merkingu. Ég gef a. m. k. ekki mikið fyrir þá menningu sem með öllu er slitin úr tengslum við iðandi kviku mannlífsins, þjóðfélagið sjálft með kostum þess og göllum. Þjóðmálaástand, þjóðmálaumræða á að snúast um mannleg vandamál líðandi stundar alveg eins og um framtíðarlausnir. Menningin, allar hliðar hennar og greinar, hlýtur að taka hér af nokkurt mið á hverjum tíma, endurspegla ástand og vonir, vera um leið hvati til djarfari átaka og aukins listræns gildis. En menningin á hvorki að lúta fólkinu né vera hátt yfir það hafin. Hún á að vera að vissu marki þjónn fólksins, ekki þræll þess. Hún á að öðru leyti að vera vegvísir að æðri markmiðum í mannlífinu. En tengslin við fólkið, þverskurður þess sem í mannlífinu gerist, þau tengsl eru knýjandi nauðsyn.

Jafnvel þau listaverk, sem lengst hafa þótt á undan samtíð sinni, hafa átt kveikjuna í þjáningu eða vongleði fólksins ef þau hafa lifað og sannað gildi sitt. Öll menningarumræða er til góðs og færi betur að um hana færi fram opinskárri og almennari umræða en nú gerist. Sú umræða á að vera fjarri því að þátttakendur í henni séu listskapendur og listtúlkendur ásamt nokkrum sjálfskipuðum menningaroddvitum. Menningin þarf að ná sem mest og best út til fólksins. Listamennirnir þurfa þess sannarlega, túlkendurnir einnig.

Sannarlega er það líka svo á okkar landi, að hér eru fleiri þátttakendur í listsköpun og listtúlkun en víðast annars staðar í heiminum. E. t. v. eigum við þarna heimsmet eftir okkar gamla, góða höfðatölumælikvarða. En hvers vegna þá stefnumörkun, hvaða ástæður liggja þar til? Og þá er rétt að vitna til þess, hvers vegna aðrar þjóðir, okkur skyldar, fara þessar leiðir, ekki vegna þess að eftiröpun sé sjálfsögð, heldur hreinlega til samanburðar, til þess að sjá hvern árangur slík stefnumörkun hefur borið, ekki síst í fjármagnsdreifingu eða stýringu til menningar almennt og þá ekki síður til listdreifingar.

Við erum með ágætar menningarstofnanir sem viss hluti landsmanna hefur yfirburðaaðstöðu til að sækja og njóta. Við erum að vísu með um land allt lifandi og ágæta menningarstarfsemi áhugafólksins, ekki síst á sviði leiklistar og söngs. En ef skoðaður er stuðningur hins opinbera, þ. e. okkar allra, hvar sem við erum á landinu stödd og í hvers konar aðstöðu sem við erum til að nýta þá menningarstarfsemi sem hæst ber, ef á hann er litið með áhugamennskuna í huga er þar ekki úr háum söðli að detta og misræmið er allt um of. Um þetta mætti hafa enn lengra mál, en ég vildi mega vitna jafnt til grg. sem og til framkvæmdastjóra þeirrar listgreinar um landsbyggðina, sem með mestum blóma stendur, Helgu Hjörvar, framkvæmdastjóra Bandalags ísl. leikfélaga, enn frekar en í grg. segir. Hún segir t. d. þetta um rök Dana fyrir því að marka beri menningarstefnu — og skal hér farið fljótt yfir sögu:

Hún segir að Danir leggi í fyrsta lagi áherslu á varðveislu menningararfs. Mér hefur einmitt verið bent á það af mörgum, sem starfa að þessum málum af áhuga og ötulleik, að ekki væri síst ástæða til að inn í þessa till. kæmi einmitt grein af þessu tagi, að áhersla væri lögð á menningarvarðveislu, varðveislu menningararfs. Og ég tek heils hugar undir það þó að okkur flm. hafi láðst að setja það inn í þessa till. okkar. Annar liður þess, sem Danir leggja áherslu á með sinni stefnumörkun eða „kúltúrpólitík“, er stuðningur við listræna iðju. Það er í þriðja lagi mörkun listkennslu, listfræðslu í skólum og meðal almennings. Það er í fjórða lagi listdreifing og menningardreifing gegnum stofnanir eða félagsskap sem er rekinn af hinu opinbera eða styrktur af opinberu fé. Í fimmta lagi beinist stefnumörkun þeirra í menningarmálum að því að tryggja að allir þjóðfélagshópar fái að njóta listar, geti verið þátttakendur, geti verið skapendur, allt eftir því sem mögulegt er. Þetta segir í stefnuskrá þeirra í menningarmálum að sé gert til þess að bæta lífið, auka lífsfyllinguna, og undir það getum við sannarlega tekið.

Síðan segja þeir einnig — og það er merkilegt fyrir okkur — að menningarstefnan eigi að miða gegn miðstýringu og beinast að stuðningi við sveitarfélög, við áhugaaðila ýmsa í þessum efnum, til þess að þeir geti rækt sitt hlutverk, hver á sínum heimastað, við þær aðstæður sem heppilegastar þykja á hverjum stað.

Allt er þetta mjög athyglisvert. En svo ég vitni í grg. beint, þá bendi ég á það sem Helga Hjörvar segir, ekki um íslenska menningu, hornstein íslensks þjóðfélags, það sem gerir okkur, þessar rúmlega 200 þús. sálir, að sérstakri þjóð, því að það er eflaust það sem allir geta tekið undir. En hún segir líka: „Þar sem ýmsir virðast álíta að með stefnumörkun sé átt við pólitíska einstefnu eða einhverjar tilteknar stefnur í listum, þá er ástæða til að taka fram að hér er um að ræða heildarstefnumörkun, þar sem hugsanlega sé lögð áhersla á einhver forgangsverkefni hverju sinni.“ Er það svipað og Norðurlandaþjóðirnar og þá Danir alveg sérstaklega, sem ég hef bestar upplýsingar um, eru auðvitað með sína menningarstefnu víðs fjarri öllu sem heitir pólitísk einstefna. Þeir telja nauðsynlegt að marka slíka stefnu.

Í því sambandi minnir Helga Hjörvar á að nú á síðustu árum hefur farið fram endurskoðun á menningarmálastefnu hinna ýmsu Norðurlanda. Það er minnt á alheimsráðstefnu UNESCO í Tokyo 1972: „Um alla ævina að mennta sig“, og það er minnt sérstaklega á ráðstefnu menntamálaráðherra Evrópuráðsins í Osló 1976 um „Hina nýju menningarstefnu.“ Hinar jákvæðu viðræður á þessum ráðstefnum hafa nú þegar sett spor sín í löggjöf meðlimaríkjanna og menningarpólitík. Og þá kemur hún aftur að ýmsum þeim atriðum sem ég minnti á áðan og ég tel ekki ástæðu til þess að hafa um fleiri orð.

En í lokin segir Helga Hjörvar, með leyfi forseta, í grg. sinni til mín:

„Í þessu sambandi þarf að huga að eðlilegri tengingu við erlenda menningarstrauma og hnýta enn betur menningartengsl við Norðurlönd og önnur lönd. Ísland hefur þá sérstöðu, að þar er enn lifandi þátttaka fólks, einkanlega úti á landi, í listrænu sköpunarstarfi, og vekur leiklistarstarfsemi áhugaleikfélaganna þar athygli vegna þeirrar grósku sem þar ríkir, en einnig má benda á starfsemi kóra og nú á tímum einnig vaxandi starfsemi áhugamyndlistarmanna. Í mörgum löndum hefur fyrst þurft að vekja upp þessa starfsemi áður en hægt var að fara að skipuleggja hana og veita til hennar fjármagni. Einnig verður ósjálfrátt hugsað til uppbyggingar tónmenntunar í landinu og hvaða árangri sú stefna hefur skilað í aukinn tónlistariðkun eða neyslu.“

Annar sá aðili, sem ég leitaði sérstaklega til, var formaður Rithöfundasambandsins, Njörður P. Njarðvík. Hann fór sérstaklega í það að minna á fjársvelti ýmissa aðila í sambandi við menningarmál og að minna á þá margfrægu prósentu sem rennur til menningarmála, um leið og hann fagnar því, eins og við flm. gerum, að í nýjum stjórnarsáttmála eru ákvæði þar sem rætt er um að efla menningarstarfsemi og að auknar verði á kjörtímabilinu fjárveitingar til menningarmála. Þegar hafa þess sést merki og nú alveg nýlega með afnámi söluskatts af vissum menningartegundum.

En í þessari upptalningu bendir Njörður á ýmis atriði.

Hann bendir á Launasjóð rithöfunda sem ekki er fjarri lagi að minna á nú, miðað við þær stórmenningarlegu umræður sem urðu um hann hér á dögunum. Og hann minnist einnig á Listahátíð, sem ég hef að vísu ekki neinn óskaplegan áhuga á, því hún þjónar afar takmörkuðum hópi. En víst er um það, að hún er eflaust nauðsynlegur þáttur í okkar menningarstarfsemi. Ég skal ekkert agnúast út í þetta fyrirkomulag, þó ég hefði gjarnan viljað hafa það öðruvísi og að menn stæðu þar öðruvísi að en þeir gera.

Einnig ræðir hann um það, hvað mikið ríkið tekur til baka af ýmiss konar menningarstarfsemi. Úr misrétti af því tagi hefur verið bætt nú nýlega og ber að fagna því.

En það eru fleiri sem hafa sitthvað um þetta að segja. Áður hafði Sveinn Einarsson þjóðleikhússtjóri gert sérstaka úttekt á ýmiss konar menningarstarfsemi, hver væru útgjöld ríkisins til lista og menningarmála ef fræðslumálin væru ekki tekin með. Sú upptalning var hvergi nærri tæmandi. Ég vil til þess að bæta þar við, með leyfi hæstv. forseta, vísa beint í erindi Árna Björnssonar þjóðháttafræðings „Um daginn og veginn“ þar sem hann hefur áður rakið ýmsar stofnanir úr upptalningu Sveins Einarssonar, en segir svo:

„Ég ætla að bæta við þessa upptalningu Sveins menningarstofnunum á sviði hugvísinda svo að sem fæst af þessu taginu verði undanskilið. Það eru stofnun Árna Magnússonar, Orðabók háskólans, Landsbókasafnið, Þjóðminjasafnið og byggðasöfnin, Þjóðskjalasafnið og Kvikmyndasafn Íslands. Og ég ætla meira að segja líka að taka með Byggingarsjóð Þjóðarbókhlöðu, minnisvarða um ellefu alda Íslandsbyggð. Þótt öllu þessu sé bætt við verða samanlögð framlög til allra þessara stofnana og sjóða á sviði lista og menningar samt ekki nema rétt rúmir 2 milljarðar eða 0.67% af öllum ríkisútgjöldunum. Og jafnvel þótt við færðum okkur aðeins út fyrir listir og hugvísindi og tækjum líka með Raunvísindastofnun háskólans, Tilraunastöðina á Keldum, Náttúrufræðistofnunina og Vísindasjóð, þá vantar enn töluvert upp á að við náum einu prósenti af ríkisútgjöldunum.“ Þessar tölur eru vitanlega miðaðar við fjárlög 1979. „Og svo er verið að krukka í þessa 2/3 úr prósenti sem fara til skapandi og varðveitandi menningarstarfsemi, til að standa vörð um þjóðarhag auðvitað, enga óráðsíu.

Embættismenn ráðuneyta telja það eðlilega hlutverk sitt að standa sem fastast gegn heimtufrekju ríkisstofnana. En hvað stjórnendur þeirra stofnana áhrærir, sem hér um ræðir, þá er þeim víst flest betur gefið en heimtufrekja. Fjárbeiðnir þeirra eru yfirleitt ekki miðaðar við raunverulegar þarfir stofnananna, heldur hitt, hverju þeir af dapurlegri reynslu telja einhverja von um að ná fram. Samt eru þær skornar niður. Hér er ekki tími til að rekja fjárbeiðni hverrar stofnunar fyrir sig og afdrif þeirra, en láta mun nærri að í heild nemi þessi niðurskurður um 30%. Og hvað er það stór upphæð? Það er u. þ. b. 600 millj. eða tvöföld sú upphæð sem við eyddum í flugelda um síðustu áramót. Það eru nú öll ósköpin.“

Þetta segir Árni Björnsson orðrétt í sínu erindi. Ég vil vitna í þetta erindi áfram, þar sem hann tekur dæmi um þetta fjársvelti ýmissa menningarstofnana. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég vil taka þá stofnun sem ég vinn sjálfur við og þekki af þeim sökum best til, en það er Þjóðminjasafn Íslands, ekki af því að það sé neitt einsdæmi, ég þykist vita að flestar viðlíka stofnanir hefðu svipaða sögu að segja.

Samkv. lögum á Þjóðminjasafnið að vera „miðstöð allrar þjóðminjavörslu í landinu. Það skal varðveita íslenskar þjóðminjar í víðasta skilningi, hvort sem eru gripir geymdir í safninu sjálfu eða fornminjar og friðuð mannvirki. Safnið skal eftir megni stuðla að rannsóknum íslenskra þjóðminja og útgáfu fræðilegra rita og ritgerða um þær.“ — Svo mörg eru þau orð.

„Fyrir nokkru átti starfsfólk Þjóðminjasafnsins fund með sér þar sem rætt var um raunverulega starfsmannaþörf safnsins. Það varð niðurstaðan, að til þess að safnið gæti gegnt lögbundnu hlutverki sínu og skyldum svo vel væri þyrfti 45 manna starfslið. Þar er um að ræða auk forstöðumanns, húsvarðar og gæslufólks fornleifafræðinga og aðra minjafræðinga, þjóðháttafræðinga, ljósmyndara, ljósmyndaskrásetjara, skrásetjara annarra safnmuna, sýningarstjóra, smiði, viðgerðarmenn, fólk til að skrásetja óskráðar þjóðminjar í hverju byggðarlagi, eftirlitsmenn byggðasafna og leiðsögumenn um safnið.

Enda þótt talan 45 væri hinn æskilegi fjöldi var 35 manna starfslið samt talið viðunandi, en lágmarksfjöldi, sem hægt væri að sætta sig við, væri 23. Fastir starfsmenn safnsins eru hins vegar ekki nema 8. Sú tala hefur verið óbreytt s. l. 12 ár. Það vantar ekki, að á hverju ári hefur kurteislega verið beðið um einn til tvo menn í viðbót, en því hefur ætíð verið neitað. Og neitunin er vitanlega rökstudd hverju sinni með nauðsyn sparnaðar, aðhalds og hagsýni í ríkisbúskapnum.“

Og svo kemur ádrepa, sem okkur er nú býsna hollt að hlýða á, frá Árna Björnssyni:

„Það er því fróðlegt að kynna sér hvernig sá sami sparnaður hefur verið framkvæmdur á þeim stöðum sem ráðherrum sparnaðarins liggja næstir, sjálfu Stjórnarráðinu. Af því er skemmst að segja að á þessu sama 12 ára tímabili, 1967–1979, hefur starfsmönnum Stjórnarráðsins fjölgað úr 150 í 300 eða um 100%. Þó eru ótaldar ýmsar stofnanir sem hafa vaxið út úr Stjórnarráðinu sjálfu, svo sem Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun, fyrir utan alla fjölgun í ríkisbönkunum. Og aðalhlutverk alls þessa aukna starfsliðs er auðvitað að stuðla að sparnaði og hagsýni í ríkisbúskapnum. Það er greinilega mjög dýrt að spara.“

Þessi voru lokaorð Árna Björnssonar þjóðháttafræðings og eru vissulega orð í tíma töluð varðandi það, hvernig við búum að ýmiss konar menningarstarfsemi okkar, því miður. Og þar eru vitanlega allar ríkisstjórnir, allar fjvn. og allir aðilar, sem að þessum málum hafa unnið, meira og minna sekir. En varðandi menningarvarðveislu, sem hér hefur verið vikið að, hef ég einnig viljað, með leyfi hæstv. forseta, koma í örstuttu máli inn á atriði sem menn hafa fyrst nú á síðustu árum verið að koma auga á að nauðsyn bæri til að varðveita. Erlendur Sveinsson hjá Kvikmyndasafni Íslands bendir einmitt á þetta og segir orðrétt um þessa menningarvarðveislu á þessa leið:

„óhætt er að fullyrða að tilkoma kvikmynda og sjónvarps á 20. öld hafa valdið byltingu í fjölmiðlun og í öllum samskiptum manna og þjóða á meðal. Með þessari nýju tækni var í fyrsta skipti í sögu mannkynsins unnt að varðveita atburði líðandi stundar með því að festa þá á filmu. Þessi galdur, að setjast inn í myrkvaðan sal og horfa á lifandi myndir, hreif hugi manna og fyllti barnslegum fögnuði.“

Síðan segir Erlendur:

„Mikilvægi þess að halda kvikmyndum til haga og búa þeim sem öruggust geymsluskilyrði hefur leitt til þess, að um heim allan hafa kvikmyndasöfn verið sett á laggirnar, sem gegna því mikilvæga hlutverki að varðveita menningararf þjóða í formi kvikmynda og sjónvarpsefnis. Jafnframt eru kvikmyndasöfnin brjóstvörn kvikmyndalistarinnar og stuðla að fræðslu um sögu hennar og fagurfræði. Kvikmyndasöfn úr öllum heimsálfum hafa myndað með sér alþjóðleg samtök sem unnið hafa málstað kvikmyndasafna mikið lið, t. d. á sviði upplýsingasöfnunar.“

Og enn segir Erlendur Sveinsson:

„Af því, sem nú hefur verið sagt, má ljóst verða að mikilvægt er að mörkuð verði stefna sem gerir okkur kleift að stöðva eyðileggingu menningarverðmæta og búa svo um hnútana að héðan í frá verði tryggt að þjóðarframleiðsla á sviði kvikmynda og sjónvarps verði háð lögbundinni skilaskyldu til Kvikmyndasafns Íslands, líkt og prentað mál kemur til geymslu í Landsbókasafni. Slíka stefnu þyrfti að byggja á gerð langtímaáætlunar um björgun kvikmynda og uppbyggingu Kvikmyndasafnsins til að það verði í stakk búið til að gegna hlutverki sínu með sóma.“

Ég hef vikið sérstaklega að þessum tveim atriðum frá Árna Björnssyni og Erlendi Sveinssyni vegna þeirrar vanrækslu sem okkur flm. varð á í till. um þessa sérstöku menningarvarðveislu, sem vissulega er ekki minni ástæða til að leggja áherslu á í slíkri stefnumörkun en annað það sem þar er á minnst.

Ég skal svo ljúka þessu með því að vitna til grg. og þess sem Njörður P. Njarðvík segir þar. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo minnst sé á landsbyggðina, þá sker það í augu í fjárlagafrv., að af þeim 1746 millj., sem ætlaðar eru til lista og listtúlkunar, fara nær 1100 millj. til tveggja stofnana í Reykjavík, Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta er ekki nefnt af því að þessar stofnanir séu ofhaldnar eða gegni ekki vel sínu hlutverki. Á því er enginn efi. En það sýnir hversu aðrir liðir verða litlir.

Ef við viljum að byggð haldist um allt landið, þá er aðstaða til menningarlífs að sjálfsögðu snar þáttur, engu síður en það er ein af forsendum fyrir tilvist þjóðarinnar í heild. Hins vegar er nauðsynlegt að fylgja eftir því átaki sem gert hefur verið í félagsheimilamálum. Það þarf að efla starfsemi þessara húsa enn betur en gert hefur verið. Í því sambandi er rétt að minna á að samtök listamanna hafa um skeið barist fyrir að sett yrði á stofn einhvers konar listdreifingarmiðstöð, sem hefði það hlutverk að gefa fólki um land allt kost á því að njóta listar og annarrar menningarstarfsemi í heimabyggð sinni í mun ríkara mæli en nú er gerlegt. Jafnframt mundi slík starfsemi veita listamönnum aukna atvinnu og um leið gera þeim kleift að koma list sinni á framfæri víðar og á fjölbreyttari hátt en áður hefur tíðkast.“

Hér tel ég um mjög nauðsynlega ábendingu að ræða og ágæta, þó að ég dragi um leið fram áhugamennskuna hér til jafnvægis og geri ekki minna úr henni. Það vil ég aðeins taka fram í sambandi við þessi ummæli Njarðar. En lokaorð Njarðar eru þessi, með leyfi forseta:

„Það er í stuttu máli skoðun mín, að gerbreyta þurfi afstöðu ríkisvaldsins til menningarstarfsemi. Íslensk menning er eitt lífakkeri þessarar þjóðar sem brýnt er að efla stórlega frá því sem nú er gert. Menningarverðmæti verða ekki alltaf vegin og metin á fjárhagsgrundvelli. En þau eru jafnan talinn mælikvarði um andlega reisn hverrar þjóðar. Við Íslendingar höfum löngum miklast af því að vera menningarþjóð, og það viljum við vera. Íslensk menning má ekki verða minningin ein. Hún þarf að vera síung, og til þess að svo megi verða þarf að hlúa vel að henni. Í raun og veru höfum við ekki efni á öðru sem þjóð en snúa við blaðinu og hefja íslenska menningu til vegs með myndarlegum stuðningi í stað þess að gera hana að hornreku í fjárlögum okkar eins og nú hefur verið of lengi.“

Þessi lokaorð Njarðar geri ég að mínum um leið og ég vitna til þess einnig, sem Helga Hjörvar segir í upphafi um íslenska menningu sem einn hornstein þess að við erum sjálfstæð þjóð. Sú vísa er aldrei of oft kveðin.

Ég vil leyfa mér að óska þess, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn.