08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

139. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. lét þá skoðun sína í ljós, að það — eina ferðina enn — sýndi litla virðingu hv. þm. við menningarmál hvað fáir væru í salnum þegar þessi till. væri til umræðu. Ég vil nú láta í ljós gagnstæða skoðun. Það sýnir umtalsverða virðingu hv. þm. við menningarmál að fara heldur að fá sér kaffi eða jafnvel fá sér neðan í því en hlusta á þá innihaldslausu umræðu sem fram fer um þessa innihaldslausu till. til þál. sem hér er um að ræða. Og vil ég bæta því við, að mér þótti framsöguræða hv. þm. Helga Seljan vera ekki aðeins einhver sú vemmilegasta, heldur sú innihaldslausasta sem ég hef lengi hlýtt á hér í Sþ., og hefur maður þó þurft að hlusta á ýmislegt.

Hvað halda menn nú að við værum nær fínum og háleitum markmiðum og hvaða gagn halda menn að menningunni í landinu væri gert jafnvel þó að þessi einskisverði pappír væri samþykktur hér á hinu háa Alþingi? Ég fullyrði það, að menningunni væri ekkert gagn gert þó að þessi pappír væri hér samþykktur. En vera kynni að einhverjir væru orðnir gersamlega fráhverfir menningarmálum, sem þó kynnu að hafa haft á þeim einhvern jákvæðan áhuga, við að hlusta á innihaldslausar stemmningar eins og þær, að menningin eigi að vera þjónn fólksins og ekki þræll þess, hún eigi að lýsa upp hugi manna og fleira af þessu tagi sem fram kom í framsöguræðu. Og hér er vísað í niðurlag á einhverri ræðu sem ágætur vinur minn, Njörður P. Njarðvík, hafði flutt einhvern tíma, og það er augljóst að flm. þessarar till. eru hrifnir af niðurlagsorðum Njarðar P. Njarðvík, sem eru t. d. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslensk menning er eitt lífakkeri þessarar þjóðar sem brýnt er að efla stórlega frá því sem nú er gert.“ önnur tilvitnun: „Menningarverðmæti verða ekki alltaf vegin og metin á fjárhagsgrundvelli.“ Þetta eru ný og alveg stórkostleg sannindi og sennilega byltingarkennd. Enn önnur: „Íslensk menning má ekki verða minningin ein. Hún þarf að vera síung.“

Hvað þýðir þetta innihaldslausa píp? Og hverjum er verið að gera gagn með þessu? Eitt er það, að þáltill. eru auðvitað fluttar til þess að vekja athygli á ákveðnum málum. Þessi þáltill. ætti auðvitað að vera öðruvísi. Hún ætti að vera á þá leið, að Alþingi feli hæstv. menntmrh., Ingvari Gíslasyni, að gera skyldu sína, því hvað á hæstv. menntmrh. að vera að gera annað en að stuðla að stefnumörkun í menntamálum? Það kann vel að vera að flm. hafi litla trú á hæstv. menntmrh. Ingvari Gíslasyni. Ég tel ekki, a. m. k. enn sem komið er, ástæðu til að fella svo þunga dóma. En ég fullyrði að þessi pappír er gersamlega einskis virði nema í einhverju sjálfsfróunarskyni. Það sagði einu sinni gamall og greindur maður á Vestfjörðum við mig að þm. færi betur að láta menninguna í friði. Og ég endurtek þau ummæli mín um þennan pappír, till. sem er vitlaus, grg. sem lítið er varið í og semínaristaframsöguræðu fyrir henni, sem er með þeim hætti að menningunni er beinlínis ógagn gert, að láta nú heldur menninguna í friði. Ég lýsi virðingu minni við þá þm. sem eru þá heldur niðri í kaffi en að vera að hlusta á þetta. Því að heila málið er þetta: Hvert halda menn að framhaldið verði af þessu? Þessu verður vísað til n., kannske verður þetta samþykkt hér fyrir þinglok. Framhaldið af því verður nákvæmlega ekki neitt. Nema það, að hv. þm. Helgi Seljan eða hv. þm. Guðrún Helgadóttir kemur hér upp að þremur eða fjórum árum liðnum og spyr þáv. hæstv. menntmrh. hvað líði eiginlega till. sem Alþ. samþykkti hér á sínum tíma.

Ég skil kurteisi hæstv. menntmrh. mætavel. Stöðu sinnar vegna getur hann ekki annað en farið um þetta einhverjum jákvæðum orðum. En vandinn, sem við stöndum frammi fyrir er allur annar. Vandinn er sá, að við afgreiðslu allra fjármála þurfa menn að taka afstöðu með og á móti. Menn þurfa að skoða valkosti, annars vegar að því er varðar menningarmál og hins vegar aðra málaflokka og síðan í menningarmálum innbyrðis, og menn þurfa að taka afstöðu í slíkum efnum. En flm. þessarar þáltill. gera ekki minnstu tilraun til þess að taka slíka afstöðu, enda geri ég ráð fyrir að það þjóni alls ekki markmiðum þeirra.

Hæstv. menntmrh. sagði áðan að svo virtist sem menn litu svo á, að tíma þingsins væri spillt, að einhverjir væru svo menningarfjandsamlegir, að mér skildist, að tíma þingsins þætti illa varið ef verið væri að ræða svona tillögur. Sannleikurinn er auðvitað sá, og það er best að það sé sagt, að tíma þingsins er illa varið með því að ræða svona almennt orðaða og innihaldslausa till., sem gerir ekki neinum gagn, en kann að gera fjölda manns fráhverfan, því þetta er menningarpíp og ekki menningarumræða. Og það verð ég að segja um gamlan og góðan vin minn, hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að heldur þykir mér henni hafa farið aftur að leggja nafn sitt við þessa semínarisku till. sem hér er um að ræða. Réttast væri auðvitað að vísa þessari till. til baka til flm. á þeim forsendum, að hún sé svo vitlaus og illa unnin að hún geri ekki nokkrum manni gagn. Ég tel að þau ummæli, sem ég læt hér falla, séu ekki menningarfjandsamleg. Þvert á móti er verið að reyna að sporna gegn innihaldslausri dellu eins og þeirri sem hér á sér stað.

Ég endurtek það og fullyrði, að þó að þessi vitlausi pappír væri samþykktur — og auðvitað er það svo, að þm. setja hausana niður og hendurnar upp og samþykkja þetta, þeir geta ekki annað því að þeir eiga á hættu að Þjóðviljinn kalli þá menningarfjandsamlega, ef þeir gera það ekki, eða gáfumannadeildin a. m. k. — en allir vita það, sem hér eru í salnum, að þessi einskisverði pappír skiptir nákvæmlega engu máli og er aðeins fram lagður í einhverju sjálfsfróunarskyni af menningarsnobbum, sem raunverulega — ja, ég veit ekki — hafa a. m. k. takmarkaðan áhuga og ærið takmarkaðan skilning á því, um hvað þessi vandi raunverulega snýst. Ef hv. þm. Helgi Seljan og Guðrún Helgadóttir væru að leggja fram seríu af lagafrv., þar sem raunverulega væri tekin afstaða, og þau hefðu líka skoðanir á því, hvaðan ætti að taka þá peninga sem um væri að ræða, þá horfði málið allt öðruvísi við. En þeim tilgangi, sem fyrir þm. virðist vaka, er auðvitað alls ekki þjónað með slíkum tillögum.

Það situr í landinu hæstv. ríkisstj. og í henni er hæstv. menntmrh., eins og lög gera ráð fyrir. Ég geri ráð fyrir því, að hann vilji svo meina, og get vel skilið þau sjónarmið, að það sé nokkur stefnumörkun í menningarmálum, og hv. alþm. verða að taka tillit til hans tillagna eða taka fram fyrir hendurnar á honum, sem meiri hl. þeirra auðvitað getur forminu samkvæmt. En það breytir engu af eða frá hvort þessi einskisverði pappír er samþykktur. Ég horfi til þess með skelfingu, vegna þess að ég hef séð það hér áður, að þegar svona pappír er borinn undir atkvæði og ef menn hafa ekki manndóm til þess að salta þetta í n., ef þetta er borið hér undir atkvæði, þá þorir auðvitað enginn annað en að vera með þessu, og allir vita þó að þessi pappír breytir engu af eða á. Vandinn er, og það er þess vegna sem ég tek nokkuð upp í mig um þetta, að menningarumræða á þessu stigi, þessu almenna fleðustigi sem hv. þm. Helgi Seljan beitti hér og hæstv. menntmrh. þorði ekki annað en taka undir, er einskis virði. Það er afar skiljanlegt, að þeir, sem á þetta neyðast til að hlýða, segi: Ef menningin er svona, þá Drottinn minn — þá snýr maður sér heldur að einhverju öðru og gagnlegra. — Og ég segi fyrir mig: Ég hef samúð með slíkum sjónarmiðum.

Ég sé ekki ástæðu til út af fyrir sig að fara fleiri orðum um framsöguræðu hv. þm. Helga Seljan, en minni á að viðlíka spekimæli: „að menningin skuli vera þjónn fólksins og ekki þræll þess“ — ég satt að segja varð fyrir slíkum hughrifum af þessari setningu, ég hef aldrei hugsað út í þetta, að auðvitað væri þetta satt og rétt hjá hv. frsm.

Ég held að ef menn í raun og veru meina það, að þeir vilji gagnast menningunni, þá eigi þeir að láta svona tillöguflutning eiga sig. Og hvað varðar ívitnuð orð míns ágæta vinar, Njarðar P. Njarðvík, þá er honum ekki greiði gerður með því að endurprenta þetta rugl sem þingskjal. Þetta eru hástemmdar lokasetningar í einhverri lokaræðu þegar menn eru að slíta einhverri menningarsamkomu og fara að gera eitthvað annað, sem er ágætt — setningar eins og þessi, sem frsm. las hér af augljóslega mikilli sannri innlifun: „Íslensk menning má ekki verða minningin ein, hún þarf að vera síung.“ Síung! — Drottinn minn, menningunni er lítill greiði gerður með þessu yfirmáta rausi.

Eigum við nú ekki, hv. þm., að sjá sóma okkar í því að salta þessa till. einhvers staðar? Við skulum ekkert vera að minnast á þetta neins staðar, þetta er eins og hvert annað slys sem hér hefur rekið á borðin til okkar. Við skulum láta eins og þessi till. hafi aldrei verið flutt.