21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið, en ég tel rétt að segja örfá orð vegna þess sem hér hefur fram komið.

Mér sýnist að í sambandi við þær greiðslur, sem hér eru til umr., sé fyrst og fremst spurning um vilja, en ekki spurning um lagaheimildir. Ég vil staðfesta það, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan frá 28. des. 1978 í sambandi við gerðir ríkisstj., að sú tiltekna gerð, sem hér var vitnað til og samþ., þar sem tveimur ráðh. var falið að ráða fram úr greiðslum vegna útflutningsuppbóta og niðurgreiðslna sem þá voru umfram heimildir, var að vilja ríkisstj. Þannig var haldið á málum í sambandi við bókanir á gerðum ríkisstj., að ef ekki komu fram aths. var á það lítið sem samþykki. Ég get staðfest að þarna var um ríkisstj.- samþykkt að ræða, og ég tel að hæstv. fjmrh. þyrfti ekki að leita langt til að fá staðfestingu á því hjá eigin flokksmönnum.

Ég tel það vera ábyrgðarhluta hjá hæstv. fjmrh. að ætla nú að fara að taka upp nýja háttu í sambandi við greiðslur til vinnslustöðva landbúnaðarins vegna niðurgreiðslna, sem ég tel ótvírætt að inna beri af hendi miðað við einingarverð sem samþ. hefur verið og gengið hefur veríð út frá. Og ég vil hér bætast í hóp þeirra sem skora á núv. hæstv. ríkisstj. að standa við þessar greiðslur varðandi það verðlagsár sem nú er hafið, bæði vegna niðurgreiðslna og eins vegna útflutningsuppbóta.

Eins og hér hefur komið fram er við margháttaða erfiðleika að etja hjá bændum landsins á þessu ári, og það er ekki rétt að leggja nú til jólahalds með það á samviskunni að breyta fyrirkomulaginu. Ég tel að hæstv. ríkisstj eigi ekki að bæta þar við og auka á erfiðleika.

Ég held að menn verði að horfa fram hjá ströngustu lagakrókum þegar um efni sem þetta er að ræða. Mér sýnist líka að staðfest hafi verið í þessum umr.hæstv. fjmrh. hafi gert það í ýmsum tilvikum. Ég treysti því, að hann endurskoði þá afstöðu sem hér hefur komið fram af hans hálfu varðandi þetta.