08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ákvarðanir eins og þær, sem hér er verið að tala um, hlýtur að verða að taka út frá því sjónarmiði einu hvað er skynsamlegt miðað við daginn í dag, en ekki hvað hefði verið skynsamlegt fyrir nokkrum árum. Og í ljósi þess vil ég taka það fram, að við lestur þeirrar grg., sem hér er fram sett ber lítið á hlutlausu mati. Þar er á annan veginn öllu slegið föstu til verri vegar varðandi Kröflu, og hins vegar settar fram heldur losaralegar fullyrðingar varðandi það sem vitað er um háhitasvæðið á Reykjanesi. Það er talað um að það sé allvel þekkt, það er talað um að ýmislegt bendi til, það er talað um gufueinkenni.

Ég verð nú að segja eins og er, að ef á að byggja á svona losaralegu orðalagi hlýtur sú spurning að vakna, hvort ekki sé skynsamlegt að haga málum á Reykjanesi eins og átti að haga þeim við Kröflu, þ. e. að byrja á að framkvæma þar nægilegar boranir og að því búnu fara af stað með virkjunarframkvæmdir eftir að þær holur hafa blásið út, eins og eðlileg vinnubrögð eru talin vera.

Ég held líka að þegar verið er að tala um það, hverjir eigi að gera þessa athugun, þá gæti ekki heldur hlutleysis. Hér stendur: „Með því er fyrst og fremst átt við að hún verði ekki falin aðilum sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta eða hafa á nokkurn hátt borið ábyrgð á ævintýrinu í Kröflu.“ Væri ekki rétt að bæta við: „eða hafa hagsmuna að gæta við Svartsengi“ — setja það líka inn? Væri það óeðlilegt?

Þetta er nefnilega ekki bara spurningin um það, hvort hagkvæmt sé að taka vélar og flytja þær á Reykjanes. Þetta er spurningin um þá skuldabyrði sem á íslenskri þjóð hvílir vegna Kröflu og er á þessu ári 3.9 milljarðar, hvort búið sé að taka um það ákvörðun að borga bara þessar skuldir og gefast upp við að afla gufu fyrir norðan. Mér finnst það dálítið stór ákvörðun ef á að fara að slá slíku föstu. Ég veit ekki betur en það sé búið að samþykkja að gera rannsóknarborholur fyrir norðan nú í sumar. Og ég verð að segja að ég tel það hafa verið misheppnað, svo ekki sé meira sagt, að stöðva þær boranir á s. l. ári.

Ég held að það sé tími til kominn að við gerum okkur grein fyrir því, að þetta mál er og verður málefni sérfræðinga. Þetta er og verður málefni sérfræðinga, þar sem sérfræðingar verða að taka ákvörðun, vegna þess að pólitíkusarnir hafa ekki næga þekkingu á þessum málum. Og ég held að ef framkvæma á athugun eins og hér er verið að leggja til, þá verði að gera hana á mun stærri grunni en því einu, hvort hagkvæmt sé að flytja hreyfilinn að norðan og hingað suður. Það verður að taka hana á þeim grunni, hvort skynsamlegt sé að slá því föstu, að það sé réttast að borga skuldirnar við Kröflu og gefast þar upp á orkuöflun. Það er spurningin sem við verðum að gera okkur grein fyrir í dag, og í því sambandi breytir engu hvað gerst hefur í málinu til þessa. Það verður að taka ákvarðanir út frá því, hvað okkar bestu vísindamenn á þessu sviði telja réttast í dag.