08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Út af þeim upplýsingum, sem komu fram í ræðu hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar, vil ég taka fram, að það er rétt að menn telja að jarðhitageymirinn sé minni í Svartsengi en ætlað var í upphafi. Rannsóknir hafa leitt menn til að trúa þessu. Í þessu sambandi vil ég ekki kveða fastar að orði um Svartsengi eða Reykjanes en ég tel eðlilegt vera, og ég tel að það hafi menn einmitt gert rangt í sambandi við Kröflu, að slá ýmsu föstu áður en menn vissu það til fulls. Því segi ég, að það er ýmislegt sem bendir til þess, að þrátt fyrir takmarkaðan varmageymi megi reka stöð þarna, alla vega það sem ég vildi kalla toppstöð frekar en varastöð, til þess að mæta mesta álagi. Og auðvitað ætti það að vera liður í þeirri athugun, sem hér er farið fram á að gerð verði, að ganga úr skugga um það, hvort rekstur toppstöðvar af þessu tagi sé hagkvæmur — eða hagkvæmari, skulum við segja, en sú leið eða sá farvegur sem menn eru með málin í, þ. e. að eiga hverfil óuppsettan norður við Kröflu, sem ég verð að segja að mér þykja tiltölulega litlar líkur benda til að komist í nýtingu næstu árin.

En það er líka minnst á önnur svæði í till., sem ég tel að séu allvel þekkt. Ég vildi ekki nota svo sterk orð sem „vel þekkt“ — þó að vel geti verið að það megi gera — einfaldlega af þeirri ástæðu, að það er m. a. lagt til í þessari athugun að málin verði skoðuð betur, ekki bara að því er hagkvæmni varðar, heldur líka að því er varðar jarðhitasvæðið sjálft, svo að menn séu ekki að taka óþarfa áhættu og renna þannig í sama farveginn aftur. Það er sérstaklega tekið fram. Þessi svæði eru sem sagt annars staðar á Reykjanesi, t. d. þar sem hefur verið talað um að reisa saltverksmiðju.

Ég taldi skynsamlegt og við flm. þessarar till. að kveða ekki fastar að orði um horfur á Reykjanesi heldur en gert er í þessari þáltill., spara nú stóru orðin um það, hvað væri örugglega víst á þessu svæði, vegna þess að menn voru svolítið brenndir í þeim efnum. Og ég vona að það skýri málin fyrir hv. 5. þm. Vestf. að því er orðalag varðar og viðhorf okkar í þessum efnum, enda sérstök áhersla lögð á það í grg. að farið skuli nú fram af fullri skynsemi, málin skoðuð vel, ekki fullyrt um hagkvæmni fyrr en að undangenginni athugun. Þetta grundvallarviðhorf réð því orðalagi sem þarna var valið.

Ég get ekki séð að neinu hafi verið slegið föstu á verri veginn varðandi Kröflu umfram það sem vitað er. Það er vitað, að eldsumbrot eru á svæðinu. Við höfum það fyrir augunum, að holur — á annan tug — hafa verið boraðar og út úr því koma 6 mw. Vill einhver reikna það út fyrir mig, hvað þurfi þá margar holur miðað við samsvarandi afköst til þess að ná 60 mw? Þær verða á annað hundrað. Við verðum auðvitað að vona að betur takist til og að menn séu því vísari um þetta svæði að í svo óheyrilegan kostnað þurfi ekki að leggja.

En við í Alþfl. höfum talið að það væri ástæða til að fara fram með gát á þessu svæði með tilliti til þess, hvernig allt hefur gengið á Kröflusvæðinu, með tilliti til þess, að þarna eru þó eldsumbrot núna og yfirvofandi eldgosahætta meiri að öllum líkindum en annars staðar þar sem ekki eru eldsumbrot í gangi núna, þó að okkur sé auðvitað ljóst, að á öllu hinu eldvirka svæði á Íslandi geta komið upp eldgos þegar minnst varir. En það vill nú svo til, að ef við ætlum að sinna gufuaflsvirkjunum á annað borð, þá verðum við víst að vera á eldvirka svæðinu. Við komumst ekki fram hjá þeirri áhættu. Spurningin er bara um að reyna að velja hana þannig, að hún sé ekki sem allra mest. Og ég geri ekki till. um það, þó að vélar verði fluttar frá Kröflu, að það verði valið öðru sinni að setja þær ofan í eldgíg, þó að þær hljóti að vera á eldvirku svæði. En eins og kunnugt er, þá er Krafla eldgígur.

Ég get fyllilega tekið undir það, sem hér hefur komið fram, og tel að það felist reyndar í þessari þáltill., að nú verði ekki flanað að neinu, heldur verði reynt að undirbúa málin eins vel og kostur er og þess vegna eigi þetta að vera allumfangsmikil athugun, ekki bara reiknuð í krónum og aurum, heldur er hér sérstaklega tiltekið að það skuli liggja fyrir frekari jarðfræðileg álit.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, og það má koma fram núna, að það sé fyllilega ástæða til þess fyrir okkur að efna til frekari rannsókna á ýmsum svæðum hér í grenndinni, til þess að hafa betri vitneskju um svæði eins og Hengilssvæðið og Nesjavelli og sjálfsagt einhver fleiri, þannig að grípa megi til gufuaflsvirkjana á þessum svæðum til að brúa bil milli stórvirkjana í framtíðinni. Og ég tala um þetta núna vegna þess að aðdragandi að virkjunum af þessu tagi er að venjulegum hætti æðilangur og það getur verið gott að eiga þær upplýsingar sem þarf til þess að geta farið í svona virkjanir með skemmri fyrirvara en meðgöngutíminn er miðað við það að byrja frá grunni, meðgöngutími sem menn gleymdu að taka við Kröflu og hefndist illa fyrir.

Ég tók eftir því hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni að hann fullyrti að það væri mikla orku að fá við Kröflu. Ég treysti mér ekki til að fullyrða það og gefa út slík „garantí“, allra síst miðað við það sem á undan er gengið. Ég tel að það séu verulegar líkur á að slíka orku megi fá á þeim jarðhitasvæðum sem allvel eru þekkt á Reykjanesinu, en ef nokkuð má ráða af fortíðinni, þá sýnist mér að það sé langt í að við höfum náð þeirri tíföldun á gufuafli sem þarf til að nýta þessar vélar við Kröflu. Og það er einmitt út frá þessum forsendum sem þáltill. er flutt.

Ég held að málin snúi þveröfugt varðandi þá „komplexa“ sem hér var talað um áðan og hv. þm. Stefán Jónsson gerði að umtalsefni. Ég held að það hafi verið fræðilegur „komplex“ hjá allt of mörgum, sem réðu allt of miklu á sínum tíma, að halda áfram með Kröfluævintýrið í þeim farvegi, sem það var, og í því óðagoti, sem þar gilti. Og mér finnst votta æðimikið fyrir þessum „komplex“ í hvert skipti sem þessi mál ber á góma, vegna þess að menn hafa það sérstaklega uppi sem gagnrýni að Alþfl. vildi fara á síðasta ári og vill enn fara með gát í þessum efnum og ekki leggja í stórkostlegan kostnað, heldur gefa sér tóm til að sjá hvað kemur út úr hverri borun, og taldi rétt í fyrra að gera hlé á borunum það árið.

Ég held að það séu líka allt of margir og kannske sem ráða óþarflega miklu, sem eru með „komplexa“ út af stóriðju. Ég er sannfærður um það, að við eigum að nýta til stóriðju orkulindir okkar, orkulindir sem við eigum í fallvötnum og í jarðvarma, og það muni vera framtíðarverkefni fyrir okkur. Ég held við eigum ekki að óttast hana, við eigum að hagnýta okkur hana. Ég held hún sé okkur mikilvæg til þess að byggja hér traustara efnahagslíf. Að þessu leyti erum við Stefán Jónsson væntanlega algjörlega á öndverðum meiði, en hvorum megin „komplexinn“ liggur í þessum efnum, það getur sjálfsagt lengi verið deilumál.

Ég skal ekki neita því, að það geti haft sérstaka þýðingu fyrir Norðurland að fá orku frá Kröflu. En ég held að það hafi nú fyrst og fremst þýðingu fyrir Norðausturland að fá orku. Og munurinn á því, ef hagkvæmt reynist og skynsamlegt að flytja þessa hverfla suður og koma þeim þar í framleiðslu eða láta þá liggja þarna fyrir norðan, liggur einmitt í því, að það verður meiri orka framleidd í landinu og þá verður meira aflögu líka fyrir Norðausturland. Ég tel því að ef þessi athugun sýnir að skynsamlegt og hagkvæmt sé að fara þessar leiðir, þá muni það vissulega ekkert síður gagnast Norðausturlandi en örðum landshlutum.