08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það var sagt í minni sveit — (Gripið fram í: Hvaða sveit var það?) — hún heitir Rangárvellir, — ef hv. þm. vill læra landafræðina sína betur, bæði gagnvart Reykjanesi og Rangárvöllum, skal ég hjálpa honum við það, — í þeirri sveit var sagt: meira vinnur vit en strit. — Ég held að það eigi að mörgu leyti við um hv. síðasta ræðumann og jafnframt um það ástand sem nú ríkir við Kröflu, þá hörmungarsögu sem lesa má úr öllum framkvæmdum þar.

Ég held að Vestfirðirnir geti ekki státað af þeirri gufuorku, að hv. þm. muni hafa mikla reynslu af gufu þaðan, jarðgufu almennt, hvort sem hún kemur úr efri eða neðri lögum, hvort sem þar eru háhitasvæði eða annars konar svæði. (KP: Hann er kominn í Vesturland.) Hann er kominn í Vesturland, já.

Það er aðeins vegna þeirrar umr., sem hér hefur farið fram, að ég vil taka skýrt fram að þau mál, sem hér um ræðir, eru þáttur í einhverri mestu hörmungarsögu fjárfestingar sem við þekkjum hér á Íslandi, — hörmungarsögu þess, að vitið var ekki látið vinna meira en stritið, þ. e. að tilraunaholur, sem boraðar voru við Kröflu á sínum tíma, voru ekki látnar blása þann tíma sem þær áttu að blása. Þær voru allt í einu kallaðar virkjunarholur og það var byrjað að virkja.

Ég vil benda mönnum, sem ekki óttast að þarna kunni að verða enn þá meira áfall fyrir efnahag þessarar þjóðar, á að kynna sér línurit sem jarðfræðingar, mjög hæfir menn, hjá Norrænu eldfjallarannsóknarstöðinni hafa verið að dunda við að gera. Þeir hafa leitað heimilda í sögnum, frásögnum og rituðum heimildum um Mývatnselda. Samkvæmt því hafa þeir gert línurit og þeir hafa borið allar hreyfingar og hræringar á Kröflusvæðinu saman við þetta línurit. Og það, sem er að gerast núna, er að línurit nútímans er að nálgast þann enda á línuriti Mývatnseldanna að jarðfræðingar telja að það hljóti að gerast sem gerðist í Mývatnseldunum.

Þetta er ekki sagt í þeim tilgangi að hlakka yfir því, að þarna kunni að verða eldgos sem muni leggja í rúst allar þær byggingar og öll þau mannvirki sem þarna hafa risið fyrir óhemjumikla fjármuni. Þetta er sagt einfaldlega vegna þess að þessar staðreyndir blasa við okkur.

Ég hef persónulega verið á móti áframhaldandi borun við Kröflu, einfaldlega vegna þess að óróinn á svæðinu er enn þá svo mikill að við höfum enga tryggingu fyrir því að þessar holur komi að nokkru minnsta gagni. Ég vil minna á það, að á lánsfjáráætlun í ár eru 3900 millj. kr. sem ætlað er að fara eingöngu í afborganir og vexti af fjárfestingu við Kröflu. Ég er þeirrar skoðunar, að okkur hefði verið nær að huga að örðum virkjunarkosti á Norðurlandi eystra, þ. e. hækka stífluna í Laxá og nýta þannig afl sem fyrir hendi er og kostnaður hefði verið sáralítill við. Þetta afl hefði komið að mjög góðum notum og við hefðum getað fengið þar mun meira en við fáum í dag frá Kröfluvirkjun.

Ég tel að þm. almennt, hvar í flokki sem þeir standa, hvort sem þeir eru í Kröfluflokkum svonefndum eða í hinum heppna flokki sem lenti ekki í Kröflunefnd, Alþfl., geri sér fulla grein fyrir að áframhaldandi fjármögnun framkvæmda við Kröflu er eitt mesta ævimýri sem lagt hefur verið út í á Íslandi og mun verða það áfram í ókominni framtíð, a. m. k. þangað til við komumst að raun um hvort þarna gýs eða gýs ekki. Ég ætla ekki að gera þetta að flokkslegu deilumáli, ég ætla bara að benda mönnum á það, að kostnaðurinn er orðinn svo mikill, það er búið að fjárfesta svo mikið, að það væri alls ekki fráleit hugmynd að athuga hvort ekki væri hægt að nota einn gufuhverfilinn, sem þarna stendur ónotaður, á öðrum stað á landinu. Þar með væri dregið úr raunverulegum kostnaði við Kröfluvirkjun, raunverulegum fjármagnskostnaði, og eitthvað af því, sem keypt hefur verið til virkjunarinnar, kæmi að notum. En ég vil benda á það um leið, að það er virkjunarkostur fyrir hendi í Norðurlandskjördæmi eystra og væri að mínu mati ákaflega skynsamlegt að nýta hann, ef okkur tækist að ná samkomulagi við þá aðila sem þar eiga hlut að máli. Ég tel að raunverulegur grundvöllur sé fyrir hendi og sé að skapast um það, að samkomulag geti náðst innan tíðar um þau mál.

Herra forseti. Ég ætla nú ekki — (StJ: Ja, hérna.)— ja, hérna, segir hv. þm. Stefán Jónsson. Ég vil vegna „ja, hérna“ benda honum á að bændur í Mývatnssveit hafa komið óformlega að máli við Laxárvirkjunarnefnd og haldið uppi friðarfána. Þetta eru atburðir sem hafa verið að gerast á síðustu vikum. Og ég vænti þess, að þeir séu undanfari einhvers stærra og meira sem kunni jafnframt að verða undanfari þess, að okkur takist að nýta það afl sem við eigum í Laxá og unnt væri að nota með tiltölulega mjög litlum tilkostnaði, ekki nema brotabroti af því sem Kröfluvirkjun hefur kostað þjóðina.