08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég veit að það ærir óstöðugan að reyna að útskýra eitt eða annað fyrir hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, enda þarf til þess eflaust sérmenntun í einni tiltekinni grein, sérgrein kennslufræða, og yfir slíkri sérmenntun ræð ég raunar ekki. En það virðist vera svo með þennan hv. þm., að þar virðist rembingurinn vera nokkurn veginn í öfugu hlutfalli við spekina. Það virðist vera almenn regla sem hægt er að byggja á. Og þegar hann birtist hér í gervi raunvísindamannsins, þá er hann hálfu reigingslegri en nokkru sinni fyrr.

Það er auðvitað mætavel ljóst, að hér er verið að leggja til á afar varfærnislegan hátt, eins og ljóst má vera af þessum texta, að ákvarðanir verði ekki teknar um það, með hverjum hætti fram verði haldið á Reykjanesi, fyrr en hagkvæmnisathugun hefur farið fram. Ég veit að 59 hv. þm. skilja þetta og þarf ekki að hafa um það fleiri orð.

En vegna orða hv. þm. Stefáns Jónssonar, — sem má eiga það að hann er allur bljúgari í ræðustól þegar hann talar um Kröflu heldur en þegar hann talar um öll önnur mál hér, og þennan bljúgleika finnst mér bæði rétt að meta og skilja, — þá er það hins vegar auðvitað ekki rétt hjá hv. þm., að það hafi strandað á Alþfl. í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar að áfram yrði athugað hvað réttast og skynsamlegast væri að gera við Kröflu. Alþfl. vildi hins vegar fara að með hinni mestu gát, og vegna þess hvernig nú er komið fyrir hinum tólf borholum sem þó eiga þarna að vera til, hygg ég að það hafi verið skynsamlegt eins og öll mál voru í pottinn búin. Og ég hygg að sú bið hafi verið skattgreiðendum í þessu landi ódýrari heldur en ef áfram hefði verið anað út í óvissuna. En þetta eru auðvitað hinar erfiðustu ákvarðanir sem menn hafa orðið að taka á hverjum tíma varðandi Kröflu, úr því að út í þetta fen var farið. Kjarni málsins er þó sá, að öll gagnrýni á Kröflu, sem var alltaf tvíþætt, fjallaði annars vegar um ákvarðanatekt og röð ákvarðana og hverjir tóku þær og hins vegar um hin alvarlegu viðskiptamistök sem áttu sér stað varðandi þessa virkjun og voru með þeim hætti varin. Í svokallaðri Kröflunefnd sátu fulltrúar þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna hér á landi, á þeim tíma 53 af 60 þm. En öll sú gagnrýni, hver einasti stafkrókur sem um það féll, reyndist vera á rökum reistur, og þar verður þó að skilja á milli: eitt eru viðskiptaaðferðirnar, en hitt eru hinar vísindalegu niðurstöður sem komist var að. Þar var framkvæmt af svo miklu fljótræði að skattgreiðendum í landinu hefur blætt allar götur síðan.

Hér er þó ekki verið að fara með neinum hávaða að því er þessa tilteknu tillögu varðar. Það er nákvæmlega verið að mælast til þess, sem ég veit að 59. hv. þm. skilja, að það fari fram mjög vandleg könnun á Reykjanesi sem miði að því að fá úr því skorið, hvort ekki kunni að vera skynsamlegt, — eins og t. d. Jónas Elíasson prófessor hefur skrifað um að ég hygg skynsamlegar greinar, þó margt sé þar enn óathugað, — hvort ekki sé skynsamlegt að færa annan hverfilinn, sem er í kössum norður við Kröflu sem hafa ekki verið opnaðir enn þá, á annan stað á landinu. Ég fullyrði að 59 hv. þm. skilja hvað hér er átt við.