08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það var ekki vegna áskorunar hv. þm. Ólafs Þórðarsonar sem ég kom hingað, heldur vegna áskorunar hv. þm. og vinar míns, Stefáns Jónssonar. Það, sem ég sagði, var einfaldlega það, að ég vænti þess að þeir atburðir væru nú að gerast að friðarfánar væru dregnir að húni. Ástæðan fyrir því, að ég held því fram, er sú, að mér er kunnugt um að menn úr Mývatnssveit, bændur úr Mývatnssveit, hafa komið að máli við ráðamenn Laxárvirkjunar og rætt þann möguleika að endurreisa stíflu sem sprengd var í Mývatnssveit á meðan mál voru heitust þar.