09.05.1980
Efri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

187. mál, skipulag ferðamála

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki flytja langa framsöguræðu með þessu frv. til l. um breyt. á lögum um skipulag ferðamála, en gera þá grein fyrir upphafi málsins, að við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem sæti eigum í tryggingaráði, tókum raunar að okkur, og dæmdist á mig að hafa um það forgöngu, að flytja þetta mál hér á þingi. Orsökin er beinlínis sú, að með vaxandi ferðalögum Íslendinga erlendis skeður það æ oftar að íslenskir þegnar sem ferðast í löndum utan þeirra svæða þar sem við höfum gagnkvæma samninga um réttindi samkv. almannatryggingalögum, menn sem verða fyrir slysum eða veikindum utan þessara svæða lenda oft í miklum kostnaði þar sem lögbundnar greiðslur af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins eru háðar lögum samkvæmt ákveðnum mörkum. Ekki kemur að sök ef íslenskir þegnar veikjast í þeim Evrópulöndum þar sem gagnkvæmir samningar gilda, svo sem í þeim löndum sem aðild eiga að Evrópuráðinu, en erfiðara hefur orðið um vik með þá Íslendinga sem lent hafa í slysförum eða veikst t. d. í Norður-Ameríku- eða Suður-Ameríkuríkjunum þar sem slíkir samningar gilda ekki. Greiðslur af hálfu almannatrygginga á landi hér nægja þá aðeins fyrir broti af sjúkrahús-, læknis- eða lyfjakostnaði og þessir sjúklingar koma síðan heim oftast með þeim hætti, að ríkissjóður tekur ábyrgð á greiðslum fyrir þeirra hönd og þá fyrir milligöngu utanrrn. á einn eða annan hátt, — koma síðan heim með ærnar skuldabyrðar á bakinu, oft og tíðum til viðbótar örkumlum eða vanmætti af völdum veikindanna að öðru leyti. Í vissum tilfellum getur hér verið um ákaflega alvarlega og erfiða bagga að ræða. En ekki kemur til greina af hálfu íslenska ríkisins annað en að láta þau boð út ganga erlendis, að tekin sé fullkomin ábyrgð á lífi og limum íslenskra þegna, þannig að tryggt verði að þeir fái notið læknishjálpar og sjúkrahúsmeðferðar án tillits til þess hvort þeir bera á sér þá fjármuni sem til slíks þarf. En svo sem kunnugt er tíðkast það í ýmsum löndum, og þ, á m. vestan hafs í sumum tilfellum, í sumum ríkjum Bandaríkjanna a. m. k., að sá maður sem ekki getur sýnt fram á að hann eigi fyrir læknisaðstoðinni eða sjúkrahúsdvölinni, verður ekki slíkrar líknar aðnjótandi nema til komi ábyrgð.

Sem sagt, frv. er flutt fyrir atbeina Tryggingastofnunar ríkisins og að beiðni utanrrh., sem gerst má um það vita hvað hér er í húfi, og það dæmdist á okkur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að hleypa málinu af stokkunum, en síðan höfum við fengið góðfúslegt atfylgi manna úr öllum flokkum við þetta mál.

Ég vildi svo óska þess, herra forseti, að að lokinni þessar umr. verði málinu vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.