21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Áður en hv. þm. Albert Guðmundsson fer í símann vil ég geta komið upplýsingum á framfæri til hv. þm.

Í fyrsta lagi hefur hann annaðhvort misheyrt eða misskilið, ef hann telur að ég hafi sagt hér að atburðir á Ísafjarðarflugvelli stafi af stirðleika starfsmanns flugmálastjórnar þar. Ég sagði það aldrei. Þvert á móti sagði ég að mér virtist af þeim upplýsingum sem ég hefði fengið, að ástæðan væri einhver stirðleiki í kerfi flugmálastjórnar, vegna þess að þessi ágæti starfsmaður hefur neyðst til að nota fé, sem hann átti að hafa í fjárfestingarframkvæmdir, til þess að greiða rekstrarkostnað, borga með olíu og aðrar slíkar vörur, af þeim sökum að ekki hafi gengið nógu greiðlega að koma til hans því fé sem hann átti og á rétt á að fá til þeirrar starfsemi sem fer fram á flugvellinum. Þetta er að sjálfsögðu ekki starfsmanninum að kenna, þvert á móti, heldur hefur hann reynt að mæta þessum örðugleikum með því eina ráði sem hann á tiltækt, þ.e.a.s. að nota það fé, sem áætlað var til fjárfestingar á flugvellinum, til þess að greiða rekstrarkostnað. Þetta eru þær upplýsingar sem mér eru gefnar, og hv. þm. Albert Guðmundsson ætti að geta gengið sjálfur úr skugga um það.

Í öðru lagi, hv. þm., áður en þú gengur úr salnum, væri gott að kynna sér það, að í hverjum mánuði eru ríkisstofnunum sendar upplýsingar um stöðu þeirra við ríkissjóð og hvað þær hafa notað af þeim fjárveitingum sem Alþ. hefur samþ. til þeirra. Ég verð að harma ef það getur gerst, að forustumenn ríkisstofnana viti ekki hvernig staða stofnana þeirra er hjá ríkissjóði. Mér finnst það ansi hart ef fjmrn. á að fara að hnippa í menn, sérstaklega forstöðumenn ríkisstofnana, til að segja þeim frá því að þeir séu ekki búnir að nota þá fjárupphæð sem Alþ. hefur ákveðið að heimila þeim m.a. til rekstrar stofnana sinna. Það er ekki verkefni fjmrn. eða ríkisstj. að standa þannig vaktirnar fyrir forstöðumenn ríkisstofnana. Það eina, sem ég upplýsti og vona að hv. alþm. Albert Guðmundsson hafi tekið eftir, og finnst ástæðulaust að hv. þm. hlaupi í símann til þess að ræða við flugmálastjóra áður en hann heyrir þá skýringu mína, er að eins og sakir standa á flugmálastjórn allverulega ónotaða fjárveitingu í ríkissjóði af því fé sem Alþ. áætlaði til flugmálastjórnar á fjárl. Það verður hins vegar að sjálfsögðu að vera viðfangsefni flugmálastjórnar hvað við þetta fé er gert. Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir ef flugmálastjórn og flugráð veit ekki af þessu, því að slíkar upplýsingar eiga þeir aðilar að fá mánaðarlega frá fjmrn. Hafi þessir aðilar ekki vitneskju um þetta er vonandi við aðra að sakast en fjmrn.

Ég vil sem sé láta það koma fram, að ástæðan fyrir töfum á Ísafjarðarflugi í morgun er ekki fjárþröng flugmálastjórnar. Flugmálastjórn á enn eftir allverulegt fé ónotað af fjárveitingu sinni. Ætli það sé ekki best að hv. þm. spyrji kollega sína í flugráði eða starfsmenn að því? Ætli þeir ættu ekki að vita það manna best? Það er stutt síðan þeir fengu mánaðarlegt uppgjör sitt þannig að þeir ættu að geta vitað það með einföldum samanburði. Þetta hefur ekki heldur gerst vegna þess að fjmrn. hafi neitað greiðslum né heldur vegna þess að samgrn. hafi dregið að senda aukafjárveitingarbeiðni um þessi mál. Það hefur ekki þurft á neinu slíku að halda vegna þess að fé er fyrir hendi í ríkissjóði sem flugmálastjórn á heimtingu á að fá. Ég fullyrði a.m.k. að það fé nægi í mjög langan tíma á mjög margar bifreiðar af því tagi sem hér er um að ræða.