09.05.1980
Efri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

140. mál, almannatryggingar

Frsm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Hv. heilbr.- og trn. hefur haft til athugunar frv. til 1. um breyt. á almannatryggingalögum á þskj. 286, en efni þess er að kveða skýrt á um það í lögum, að vaxtatekjur elli- og örorkulífeyrisþega skuli ekki skerða tekjutryggingu þeirra sem rétt eiga á tekjutryggingu. Nefndin fékk umsögn frá ríkisskattstjóra út af þessu máli, og kom þá í ljós að ríkisskattstjóri hafði samkv. bréfi til skattstjóra 17. apríl 1980, sem fylgir hér nál., lagt svo fyrir, að vaxtatekjur þessara lífeyrisþega skuli ekki teknar inn í vottorð þegar um vottorð frá skattstjórum er að ræða varðandi ákvörðun um tekjutryggingarupphæð. Engu að síður taldi ríkisskattstjóri að það væri ótvíræðara að kveða á um þetta í lögum. En hann taldi að orðalag frv. væri ekki nægilega skýrt í þeim efnum og það kæmi ekki nægilega vel fram, að vextir af spariskírteinum og öðrum slíkum kröfum væru þarna meðtaldir, og hann stakk upp á því við n. í bréfi til hennar að greinin orðaðist eins og n. hefur flutt brtt. um á þskj. 464, að 1. gr. frv. orðist svo:

„Til tekna í þessu sambandi teljast ekki vextir, verðbætur eða gengishagnaður sem frádráttarbær er við ákvörðun tekjuskattsstofns“.

Á fund n. kom einnig Jón Ingimarsson skrifstofustjóri í heilbr.- og trmrn., og hann mælti með því við n., ef menn væru þeirrar skoðunar að þessar tekjur ættu ekki að hafa áhrif á ákvörðun tekjutryggingar, að flytja þessa brtt. þannig að tekin væru af öll tvímæli, þar sem hann taldi að almannatryggingalögin gerðu ekki greinarmun á skattskyldum tekjum og öðrum tekjum.

Nefndin varð því sammála um að flytja þessa brtt., eins og ríkisskattstjóri lagði til og ég hef hér lesið, og mælir með því að frv. verði samþ. að þeirri brtt. samþykktri. Einn nm., Helgi Seljan, skrifaði undir nál. með fyrirvara.