09.05.1980
Efri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2531 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

140. mál, almannatryggingar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. um þetta mál með fyrirvara og fyrirvari minn tengist því, að ég hefði gjarnan viljað láta skoða málið betur með tilliti til þess að ákveðið hámark yrði sett þarna inn í. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál. Það kom vel fram hjá ríkisskattstjóra og hv. frsm. hefur rakið það, hvaða breytingu hann taldi nauðsynlegt að gera á frvgr., eins og hún var fyrst orðuð, til að taka af öll tvímæli, og ég efa ekki að þar hafi hann nokkuð til síns máls. Ég nefni það hins vegar sem dæmi, að ég þekki tekjutryggingarmann sem er með nokkrar milljónir í vaxta- og verðtryggingartekjur á s. l. ári, og þá verður manni hugsað til hinna fjölmörgu, sem ekkert slíkt hafa til viðbótar, og þá læðast að mér ýmsar efasemdir um að þetta eigi að vera eins fortakslaust og þarna er.

Ég taldi ekki rétt að ganga gegn ákveðinni ábendingu ríkisskattstjóra um þá breytingu sem varð á frv. í meðferð n., ef um vafaatriði er á annað borð að ræða. Ég verð að segja það, að ég dreg í efa að þarna sé um nokkurn vafa að ræða, en það eru auðvitað allir þdm. sammála um að þarna eigi að taka af öll tvímæli, og þegar þessi embættismaður, sem fer nú varlega og vandlega í alla hluti, telur að þetta sé rétt, þá get ég ekki staðið gegn því og sé enga ástæðu til þess. En gjarnan hefði mátt skoða örlítið betur hvað hér er í raun og veru um miklar fúlgur að ræða, sem koma þarna til greina, og fólk heldur sinni tekjutryggingu engu að síður.