09.05.1980
Efri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2531 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

140. mál, almannatryggingar

Frsm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég tek undir þau ummæli hv. þm. Helga Seljans, að ég held að það sé rétt að taka af tvímæli í þessum efnum. Þess vegna hef ég ásamt öðrum nm. í heilbr.- og trn. flutt um það till., að þetta frv. verði samþ. svo breytt eins og ég sagði áðan.

Það, sem ég vildi í framhaldi af því, sem ég gerði grein fyrir áðan, segja til upplýsinga fyrir hv. d., er að nýlega var skattalögum breytt, eins og mönnum er kunnugt, og í þeim breytingum var það sjónarmið mjög ofarlega á baugi að verðtryggingargreiðslur, sem menn fá til þess að höfuðstóll t. d. sparifjár eða spariskírteina rýrni ekki, slíkar verðtryggingargreiðslur séu í eðli sínu ekki tekjur. Þetta eru einungis greiðslur til þess að halda verðgildi þessarar eignar, sem eru peningar, og þess vegna var í þeim lögum alveg skýrt tekið fram að verðtryggingargreiðslur væru ekki tekjuskattsskyldar. Alveg á sama hátt er ég þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að skerða tekjumöguleika elli- og örorkulífeyrisþega þótt þeir hafi slíkar verðtryggingartekjur. Það orkar kannske meira tvímælis, þegar farið er að tala um vaxtatekjur í viðbót við verðtryggingartekjur, hvernig á með þetta að fara.

En í skattalögunum, sem við erum nýbúnir að afgreiða, er þetta þannig líka, að vaxtatekjurnar eru ekki skattskyldar nema hjá þeim sem skulda.

Ég vildi til viðbótar benda á þetta og að það, sem við leggjum til nú í heilbr.- og trn., er í beinu framhaldi af því sem gert var með breytingu á skattalögunum.