21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Ég þakka hæstv. fjmrh. og samgrh. líka fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram vegna þessa. Ég lít svo á að hér með sé málið leyst, ef fjármunir eru fyrir hendi og ekkert þarf að gera nema nálgast þá.

En þarna fer eitthvað milli mála. Ég varð á undan hv. þm. Albert Guðmundssyni. Ég talaði við flugmálastjóra áðan, — áður en málið kom hér á dagskrá. Ég varð á undan flugráðsmanninum sjálfum að afla mér upplýsinga. Flugmálastjóri segir að það, sem upp hafi komið vestra, sé vegna fjárskorts, búið sé að nota þær heimildir sem þeir töldu sig hafa. Ég tel að nauðsynlegt sé að þetta komi hér fram og í áframhaldi af því verði upplýst hvað rétt er í málinu, því að ég tel nauðsynlegt í þessu máli sem öðrum að hið rétta sjái dagsins ljós. — En ég vænti þess sem sagt að þetta mál sé hér með úr sögunni í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram.

Aðeins örfá orð að lokum. Ég veit að hv. 1. þm. Vestf. er kærleiksríkur maður á margan hátt og hann ann jafnt sínum flokksbræðrum og systrum mikils kærleika og hinum sem utan þess flokks standa. En aðeins svona undir jólafríið beini ég því til hans að hann eyði öllum áhyggjum sínum, a.m.k. yfir jólahelgina, varðandi það að stirður samgangur sé milli okkar krata eins og málum er háttað í dag. Hann þarf, að ég hygg, á því að halda að beina frekari kærleikskröftum að því að bæta samganginn innan eigin vébanda og herbúða. Hann getur firrt sig því að hafa áhyggjur af okkur hinum.