09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

34. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það er rétt hjá frsm. hv. heilbr.- og trn., að þetta frv. var á sínum tíma flutt að beiðni bænda. Það er ekki bara vegna brunatrygginga, heldur ekki síður vegna viðlagatrygginga. Það hefur komið fyrir, að útihús hafa skemmst og ættu að borgast af viðlagatryggingum, ef þau væru á annað borð brunatryggð. En lögin um viðlagatryggingu gera ráð fyrir því, að þau mannvirki — og þau mannvirki ein — sem eru í brunatryggingu séu í viðlagatryggingu, og það var ekki síður þess vegna sem þessi beiðni kom fram.

Varðandi brtt., sem hér er til umræðu, þá tel ég hana óþarfa. Auðvitað er ekki rétt að menn fari að hlaupa til í dag og skipta um tryggingarfélag, það gæti orðið á næsta gjalddaga eða eitthvað því um líkt. En ég held að ef þetta hús er tryggt hjá þessu félagi og annað hjá hinu, þá valdi það glundroða. Menn þurfa þá að fá brunabótavottorð frá fleiri en einum stað í sambandi við lántökur og annað því um líkt. Þetta skiptir sáralitlu máli fyrir tryggingarfélögin sem slík. Iðgjöld eru mjög lág, það eru mjög litlar upphæðir sem eru í spilinu, en þetta hlýtur að valda tvíverknaði og nokkrum glundroða. Það eru sveitarfélögin í dag, stjórnir sveitarfélaganna, sem ráða því við hvaða tryggingarfélög þau skipta með öll hús, allar fasteignir í sínu sveitarfélagi, og ég tel að sveitarfélögin eigi líka að ráða því, hvar þessi hús eru tryggð, alveg eins og öll önnur hús. Ég tel að sveitarfélögin séu þess best umkomin að ráða því. Ég sé því ekki ástæðu til að fallast á þessa brtt.