21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég var að sleppa símanum eftir viðtal við Agnar Kofoed-Hansen. Hann tjáir mér að þeir hafi fengið allt sitt rekstrarfé og allt sitt framkvæmdafé sem um hafi verið að ræða, búið sé að semja við bankastofnanir á Egilsstöðum gagnvart opnun flugvallarins þar, hins vegar sé óvíst með alla aðra flugvelli, vegna þess að þeir hafi verið að safna skuldum að undanförnu. Jafnframt sagði hann að það væri ekkert sambandsleysi innan stofnunarinnar við starfsmenn, hann hefði seinast í gær átt samtal í tengslum við þetta.

Ég vænti þess, að í ljósi þess, sem hér er sagt, verði tekið á þessu máli. Það liggur alveg ljóst fyrir að fjármagnsskortur veldur því að brugðist hefur að halda flugvellinum á Ísafirði opnum.