13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

158. mál, nýting lifrar og hrogna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef að beiðni fyrirspyrjanda og með tilliti til þess, sem fram kemur í fsp., óskað eftir því í sjútvrn. að aflað yrði upplýsinga um þróun þessara mála og kynnt mér þau nokkuð.

Í fáum orðum sagt er það skoðun þeirra manna, sem um þessi mál hafa fjallað, að nýting hrogna hafi farið jafnt og þétt batnandi og megi telja að nýting hrogna sé e. t. v. viðunandi nú. En ég vek athygli á því að við nýtingu hrogna eins og nýtingu lifrar, sem er töluvert stærra vandamál, er árangur mjög háður því hvernig hinum ýmsu sölustofnunum tekst að koma þessari vöru á markað fyrir það verð sem krafist er hér innanlands, og er þetta öllum að sjálfsögðu ljóst. Því hefur í þessu sambandi verið haft samstarf við sölustofnanir. Einnig hafa verið til kvaddir aðilar eins og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Svarið viðvíkjandi hrognunum er sem sagt þetta, að nýting hafi færst í viðunandi horf og sé að mati þeirra, sem að þessari úttekt hafa unnið, ekki ástæða til sérstakra aðgerða eins og nú er.

Hins vegar verður að segjast eins og er, að miklu erfiðar hefur gengið með nýtingu á lifur úr þorski, ýsu og ufsa og þar hefur þróun verið mjög öfug allt frá árinu 1960. Segja má að nýting tilfallandi lifrar úr þorskfiskum hafi farið versnandi allt fram til ársins 1979. Í ársbyrjun 1979 er talið að um 55% þorsklifrar úr heildarafla hafi verið fleygt. Á árinu 1979 mun þessi hundraðshluti hafa lækkað nokkuð vegna aðgerða og þróunar sem aukið hafa áhuga manna á að nýta þorsklifrina. Ætla ég að rekja nokkru nánar hvernig sú þróun hefur verið.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er ætlað að á svæðinu frá Hornafirði vestur um til Ísafjarðar muni lifur úr þorskafla, sem færður er að landi óslægður, almennt vera fullnýtt. Á það fyrst og fremst við um vetrarafla. Á sumrin og haustin er nýtingin verri, þar sem aðgerð fer þá fram á sjó úti og innvolsi er þá almennt fleygt. Undantekning er þó í Vestmannaeyjum, þar sem verulegur árangur hefur náðst með nýtingu sumar- og haustlifrar. Á svæðinu Ísafjörður norður og austur um til Hornafjarðar er nýting lifrar verri en á Suður- og Vesturlandi, enda hlutfall aflans, sem landað er óslægðum, miklum mun lægra og því óhægara um bræðslu í landi.

Eins og ég hef áður nefnt er mestu magni lifrar fleygt úr fiski sem gert er að úti á rúmsjó, og munar þar mestu um skuttogarana, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. Fyrir þremur árum var talið að einungis 3–4 togarar hirtu lifur að einhverju marki. Þessi tala er nú komin í 10–12 skip. Talið er að um þriðjungur minni skuttogaranna hafi upphaflega verið útbúinn til að hirða lifur í tanka, en sumum þessara skipa mun hafa verið breytt þannig að lifrartankarnir hafa verið numdir brott til að auka lestarrými. Engu að síður hefur reynslan sýnt að allir togarar geta hirt lifrina með notkun fiskkassa ef tankar eru ekki fyrir hendi.

Ástæða þessarar óheillavænlegu þróunar á nýtingu þorsklifrarinnar er fyrst og fremst hlutfallslega lækkandi verðlag þorskalýsis á erlendum mörkuðum. Eftir seinni heimsstyrjöldina komu í auknum mæli á markað A- og D-vítamín sem framleidd voru af manna höndum og fór verðið stöðugt lækkandi eftir því sem tækninni fór fram. Við þetta missti þorskalýsið mikið af hefðbundnum mörkuðum sem meðala- og fóðurlýsi. Samkeppni við Norðmenn, Breta og Þjóðverja harðnaði stöðugt og verð féll á heimsmarkaðnum. Áhrif þessa hlutu að koma fram í lifrarverðinu, sem fór hlutfallslega lækkandi allt fram til ársins 1979.

Á árinu 1979 snerist þessi þróun við og mun lifrarverð hafa hækkað um 70% milli áranna 1978 og 1979. Hefur verðlagsþróunin þegar haft áhrif til aukinnar nýtingar, þar sem aukning framleiðslu þorskalýsis 1979 er verulega meiri en aukning í þorskafla. Þessu má telja að valdi fyrst og fremst þrennt:

1. Minnkað framboð þorskalýsis á heimsmarkaði.

Bretland og Þýskaland eru nú nettóinnflytjendur og kaupa verulegt magn lýsis frá Íslandi í stað þess að keppa við Íslendinga um markaði. Norðmenn hirða nú einungis um 30–40% þorskalifrarinnar með tilsvarandi samdrætti í framboði og Færeyingar fleygja allri þorskalifur.

2. Læknisfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að þorskalýsi hefur læknisfræðilegt gildi á öðrum sviðum en áður var vitað, t. d. í sambandi við „coronari thrombosis“ o. fl., sem aukið hefur verulega á eftirspurn eftir þorskalýsi.

3. Sjútvrn. hefur í samvinnu við þorskalýsisiðnaðinn gert ráðstafanir til að auka útflutning á meðalalýsi, sem er verðmætasta framleiðsla þorskalýsis. Höfðu þessar ráðstafanir áhrif til aukningar útflutnings um tæp 24% milli áranna 1978 og 1979 og er áætlað að aukningin verði um 90% í árslok 1980 miðað við 1978.

Slík fullvinnsla lýsisins leiðir til hærra verðs og gerir mögulegt að greiða hærra verð fyrir hráefnið. Standa vonir til að þessi þróun í vinnslu- og markaðsmálum leiði til hærra lifrarverðs, en það er undirstaða þess að bæta megi nýtingu þeirrar lifrar sem til fellur við þorskveiðar hérlendis.

Svo mörg eru þau orð sem tekin hafa verið saman í þessu sambandi. Ég vil taka undir það, sem kom fram í framsögu hv. fyrirspyrjanda, að um mikil verðmæti er að ræða og illt til þess að vita að þeim skuli í miklum mæli fleygt í hafið. En vitanlega er staðreyndin sú, eins og um aðra slíka hluti, að verðið verður að vera nægilega gott til að greiða þann kostnað sem verður af því að hirða þessi gæði. Þarna hefur heldur horft til betri vegar upp á síðkastið. M. a. hefur sjútvrn. og þær stofnanir, sem undir það heyra, beitt sér fyrir því, en ég hygg þó að árangur sé fyrst og fremst undir því kominn að hærra markaðsverð fáist. — Eins og ég sagði hefur heldur horft til betri vegar og við skulum vona að sú þróun haldi áfram.