13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

158. mál, nýting lifrar og hrogna

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Það kom mikill fróðleikur fram í því, sem hann hafði hér fram að færa, og kom mér raunar fæst á óvart. Eftir situr sú staðreynd, að við gerum okkur seka um að henda fyrir milljarða kr. kostafæðu á fiskiskipum okkar á meðan milljónir manna um heim allan svelta og farast úr hungri. Þetta er náttúrlega óhæfa hvað sem Færeyingar gera og Norðmenn. Hún er alveg jafnmikið til vansa fyrir okkur fyrir því.

Mér fannst ekki koma nógu ljóst fram í svari hæstv. ráðh. hvað hefði verið gert af hálfu sjútvrn. til að stuðla að fullnýtingu lifrar og hrogna. Ég heyrði ávæning af því að skipuð hefði verið nefnd þegar á árinu 1977 á vegum ráðuneytisins til að kanna þetta og sú nefnd hefði skilað áliti í desember það sama ár. En síðan hefur ekkert meira um það heyrst. Ég vonaði að upplýsingar um þetta kæmu fram hjá hæstv. ráðh. nú, en ég saknaði þess að þær komu ekki fram.

Ég vil aðeins benda á að þeim mönnum, sem fást við iðnað af þessu tagi, sem lýtur að fullnýtingu lifrar og hrogna, finnst að stjórnvöld gætu örvað þá m. a. með því að íþyngja þeim ekki með söluskattsheimtu af ýmsum aukaefnum sem þarf að flytja inn til fullnýtingar lifrarinnar og á ég þar sérstaklega við lýsishersluna. Það hefur í vaxandi mæli verið létt undir með atvinnuvegum með því að létta á söluskattsheimtu af innfluttum vörum, sem til þarf að framleiðslan geti farið fram. Þarna tel ég að ein leið fyrir stjórnvöld væri fyrir hendi til að örva þennan þátt í fiskiðnaði okkar.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. um það frekar, hvort hann geti upplýst mig um hver var niðurstaða nefndarinnar sem skipuð var vorið 1977. Upplýsingar um hana hef ég úr sjútvrn., en hef ekkert heyrt frekar um störf hennar eða niðurstöður.